All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Evrópa, rétt eins og restin af heiminum, stendur frammi fyrir fordæmislausri lýðheilsukreppu sem breiðist hratt út um álfuna. Fréttastöðvar skýra reglulega frá fjölda sýktra og látinna einstaklinga. Evrópsk og innlend yfirvöld hafa gripið til harkalegra ráðstafana til að takmarka og hægja á útbreiðslu covid-19. Takmarkanir á ferðalögum, samgöngum og samkomum hafa alvarleg áhrif á mikilvægar atvinnugreinar. Mörgum flugferðum hefur verið aflýst og skólum, veitingastöðum og landamærum hefur verið lokað. Hugtakið „allsherjarlokun“ lýsir vel nýjum veruleika í mörgum Evrópulöndum. Því miður stöndum við samt frammi fyrir gríðarlega miklu mannfalli.
Fyrsta og mikilvægasta fargansmálið er að draga úr áhrifunum á heilbrigði Evrópubúa og tryggja sjúklingum eins góða heilbrigðisþjónustu og völ er á en í kjölfarið kemur að tryggja velferð fólks, þar á meðal störf og lífsafkomu.
Á þessum erfiðu tímum hefur EEA margoft fengið spurningu um áhrif covid-19 ráðstafanna á gróðurhúsalosun í Evrópusambandinu. Óvænt áhrif slíkra skyndilegra samfélags- og efnahagsáfalla geta verið aukaleg minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Önnur áhrif, eins og tímabundin minnkun á loftmengun, hafa einnig komið í ljós í sumum hlutum Kína og Evrópu (t.d. á tímum „allsherjarlokunarinnar“ á Norður-Ítalíu).
Vitað er að langvarandi útsetning fyrir loftmengun stuðli að langvarandi lungna- og hjartasjúkdómum. Þrátt fyrir hugsanlegar úrbætur til skamms tíma á loftgæðum á sumum svæðum af völdum ráðstafana í tengslum við kórónaveiruna getur verið að einstaklingar með slíka fyrirliggjandi sjúkdóma af völdum langvarandi útsetningar fyrir loftmengun séu í enn meiri hættu á þessum tíma.
Í mörgum skýrslum okkar höfum við undirstrikað sambandið á milli afkomu tiltekinna atvinnugreina og umhverfisáhrifa. Gert er ráð fyrir að núverandi kreppa hafi veruleg áhrif á framleiðslu og neyslumynstur, til dæmis með því að draga úr eftirspurn eftir hreyfanleika, þar á meðal í alþjóðlegum flugsamgöngum og daglegum samgöngum á einkabílum. En til að fá betri skilning á umfangi, tímalengd og áætluðum og óvæntu áhrifum þurfum við að greina gögn frá mörgum sviðum þegar kreppan hefur gengið yfir. EEA áformar að leggja mat á þessi tengsl og deila niðurstöðum slíkrar greiningar þegar þar að kemur.
En án grundvallarbreytingar á framleiðslu- og neyslukerfum okkar er líklegt að öll útblástursminnkun af völdum slíkra efnahagskreppa verði til skamms tíma og muni hafa gríðarlegan samfélagslegan kostnað í för með sér. Evrópa miðar að því að ná fram hlutleysi í loftslagsmálum með stigvaxandi og óafturkræfri minnkun á útblæstri og með því að setja sér langtímamarkmið um að móta öflugt efnahagskerfi og öflug samfélög en ekki með skaðlegum áföllum. Þessi núverandi kreppa sýnir okkur einnig af hverju við þurfum að breytingarnar verði réttlátar og bjóði þeim, sem mest verða fyrir barðinu á þeim, upp á ný tækifæri og aðstoð.
Fyrr í þessum mánuði lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögu að evrópskri loftslagslöggjöf sem miðar að því að koma á fót langvarandi lagaramma, vera núverandi löggjöf til fyllingar í því skyni að ná fram hlutleysi Evrópusambandsins í loftslagsmálum fram til 2050. Evrópusambandið hefur þegar sett sér eitt metnaðarfyllsta markmiðið um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda og yfirgripsmikla löggjöf. Það sem gerir þessa tillögu einstaka er að hún gerir hlutleysi í loftslagsmálum fyrir árið 2050 að bindandi markmiði. Þegar hún verður samþykkt verður Evrópusambandið og aðildarríki þess skuldbundið að lögum til að fylgja og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að ná markmiðinu.
Evrópusambandið hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda síðastliðna þrjá áratugi. Síðasta matsgerð EEA sýnir að losun gróðurhúsalofttegunda árið 2018 í Evrópusambandinu var 23,2% lægri en 1990. Hún sýnir líka að þörf er aukalegum aðgerðum og ráðstöfunum til að ná markmiðinu fyrir 2030 en það kveður á um „að minnsta kosti 40% minnkun miðað við losunina 1990“.
Þrátt fyrir þessa minnkun sýnir skýrslan Umhverfi Evrópu — ástand og horfur 2020 (SOER 2020) að hægst hafi á árangri á sviðum eins og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, losun frá iðnaði, úrgangsmyndun, úrbætur á orkunýtni og hlutfalli endurnýjanlegrar orku miðað við orkugjafa í heild. SOER 2020 kemst einnig að þeirri niðurstöðu að til að taka á umhverfismengun og loftslagsbreytingum þurfum við að gera grundvallarbreytingar á framleiðslu og neyslu okkar á vörum og þjónustu. Niðurstöðurnar staðfesta bráða þörf á hraðari og veigameiri breytingum hjá helstu kerfum, þar á meðal á sviði orku, matvæla og hreyfanleika.
Tillagan um evrópska loftslagslöggjöf, sem er einn af lykilþáttum Grænu efnahagsstefnu Evrópu, var gerð með hliðsjón af þessu og eykur metnað Evrópusambandsins enn frekar. Tillagan krefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að endurskoða núverandi 2030 markmið og „skoða kosti á 50 til 55% minnkun á útblæstri samanborið við 1990 fyrir ný 2020 markmið“. Hún fjallar einnig reglulegt mat á framvindunni í átt að hlutleysi í loftslagsmálum, meðal annars út frá skýrslum EEA. Auk aðgerða til að draga úr losun kveður tillagan um reglulegt mat á loftslagsaðlögunarráðstöfunum.
Sem sjálfstæð þekkingarveita mun EEA styðja slíkt af fullum mætti með gerð reglulegra skýrslna um hvernig Evrópu miðar í átt að hlutleysi í loftslagsmálum.
Ekki er hægt að ná þessum loftslagsmarkmiðum án þess að leyst verið úr almennum sjálfbærniáskorunum. Rétt eins og Evrópusambandið kemur með aðrar aðgerðir undir Grænu efnahagsstefnu Evrópu, þar á meðal á sviði hringrásarhagkerfis, líffræðilegs fjölbreytileika og sjálfbærra fjármála, snýr vinna okkar að fjölbreyttum sviðum til að styðja við umbreytingu í átt að aukinni sjálfbærni.
Jafnvel þó að covid-19 leiði til verulegrar tímabundinnar minnkunar á útblæstri er hún og mun vera alvarleg lýðheilsukreppa. Ekki má líta á covid-19 og fjölbreytt áhrif hennar á samfélag okkar undir neinum kringumstæðum sem jákvæðan atburð. Jafnvel þau okkar sem, á grundvelli sérfræðikunnáttu okkar og þekkingar, hafa verið hvað háværust og kallað eftir alvarlegum breytingum á framleiðslu- og neyslukerfum okkar, ættu ekki að líta á þessa gríðarmiklu lokun á samfélagi okkar sem ásættanlega lausn á bráðum og kerfisbundnum sjálfbærnivandamálum.
Sú spurning stendur eftir: Getum við náð metnaðarfullum markmiðum okkar á næstu árum ef við erum að takast á við áhrif þessara gríðarlegu erfiðleika? Ég held það. Að mínu áliti er samfélagslega réttlát umbreyting, sem er skipulögð og framkvæmd yfir langan tíma eina leiðin til að skapa öflugt samfélag með kraftmikinn og sjálfbæran efnahag. Auk þess ættu fjárfestingar okkar til að draga úr efnahagslegum áhrifum kreppunnar að vera og geta verið í fullu samræmi við langtímamarkmið okkar um sjálfbærni. Jafnvel á þessum erfiðu tímum hafa stofnanir Evrópusambandsins sýnt fram á stuðning þeirra við langtímamarkmið Grænu efnahagsstefnu Evrópu. Það krefst kraftmikilla samstarfsaðila en það er einmitt það sem EEA ætlar sér að vera.
Hans Bruyninckx
Framkvæmdastjóri EEA
Ritstjórnargrein sem birtist í marsútgáfu Fréttablaðs EEA 2020 01/2020
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/vangaveltur-um-markmid-evropu-um or scan the QR code.
PDF generated on 22 Dec 2024, 09:11 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum