All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Það sem við gerum til að takast á við loftlagsbreytingarnar mun setja sitt mark á okkur, samtíð okkar og arfleifð
Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna
Fundurinn er mikilvægur áfangi í ferli sem hófst árið 1992 með Heimsráðstefnu sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun. Það var hér sem heimsátakið til að ná tökum á loftlagsbreytingunum hófst fyrir alvöru.
Leiðtogafundurinn leiddi til þess að gerður var Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (UNFCCC) sem myndar lagalegan grunn alþjóðlegs átaks gegn loftlagsbreytingum. Fundir samningsaðilanna (Conferences of the Parties, COPs) hafa verið haldnir árlega frá 1994.
Kyoto bókunin, sem undirrituð var árið 1997, og er framlenging á UNFCCC, er fyrsta skrefið í átt að því langtímamarkmiði að draga úr losun, sem þörf er á til að koma í veg fyrir að loftlagsbreytingar komist á hættulegt stig. Fyrsti áfangi bókunarinnar rennur út í raun árið 2012 og á ráðstefnunni 'COP 15' er gert ráð fyrir að verðugur arftaki verði til.
Kyoto bókunin hefur mikla þýðingu vegna þess að með henni voru sett markmið sem voru bindandi fyrir þau þróuðu lönd sem staðfestu hana. Sem dæmi má nefna að löndin 15 sem sem voru aðilar að ESB 1997 (ESB-15) skuldbundu sig sameiginlega til að minnka losun um 8% borið saman við 'grunnár' Kyoto (1). Þau verða að ná þessu markið á árunum 2008–2012 (2).
Löndunum er ætlað að ná Kyoto markmiðunum aðallega með því að draga úr losun innanlands. Hins vegar er þeim boðið upp á marga aðra kosti til að auðvelda þeim að standa við markmiðin (sjá rammann: Komið okkur til Kyoto í tæka tíð).
Það hafa ávallt verið mjög skiptar skoðanir um 'Kyoto', einkum og sér í lagi vegna þess að Bandaríkin staðfestu ekki bókunina, og vegna þess að þróunarlönd eins og Kína og Indland, þar sem hagvöxtur er mikill, hafa engin markmið samkvæmt bókuninni.
Loftlagsbreytingateymi EEA fer með afar stórt hlutverk í þessu Evrópuverkefni. Teymið ber ábyrgð á samhæfingu hins gífurlega gagnamagns. Upplýsingar sem berast hvaðanæva að úr Evrópu um losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda eru staðfestar og síðan greindar í tveimur aðalskýrslum sem tekar eru með í Kyoto ferlinu.
Á þessu ári hafa tölurnar, og greiningin sem þær styðja, alveg sérstaka þýðingu í tengslum við COP 15 fundinn, því þessi atriði sýna ljóslega hvernig ESB löndunum gengur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Lönd sem enn hafa ekki undirritað bókunina eða hafa ekki enn nein markmið munu hafa sérstakan áhuga á að sjá hvernig ESB löndunum gengur að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt bókuninni.
Fyrsta skýrsla EEA um gróðurhúsalofttegundir kemur út á hverju vori og er kölluð 'birgðaskýrslan'. Í þessu samhengi er átt við þær lofttegundir sem skaða loftslagið mest. Meðal þeirra eru: Koltvísýringur, metan, köfnunarefnisoxíð og að auki fluorefnalofttegundir. Í skýrslunni sést hvert þróunin stefnir á landsvísu, þ.e. hvort magnið eykst eða minnkar. Tilgreint er hvert er hægt að rekja aukningu/minnkun losunar í hverju landi fyrir sig.
Hvert ESB land verður að áætla losun sína og tilkynna til Framkvæmdastjórnar Evrópu og EEA. Athyglisvert er að orkugeirinn ber ábyrgð á rúmlega 80% heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda í ESB. Tölur um orkunotkun eftir tegundum eldsneytis eru margfaldaðar með 'losunarföstum' og orkulosunin er áætluð hjá hverju landi fyrir sig. Losun frá landbúnaði er metin út frá flatarmáli lands í ræktun, tegundum jarðargróða, notkun áburðar og fjölda húsdýra (nautgripa, hænsna, sauðfjár, svína o.sv.frv.) í landinu.
Á sama hátt og kannað er reglulega hvort íþróttafólk heldur sig við gildandi reglur, fer fram reglubundið eftirlit með þessum málum. Upplýsingar eru lagðar saman til að fá fram heildarmynd yfir losun í allri Evrópu. Niðurstöðurnar eru sendar til Framkvæmdastjórnar Evrópu og þaðan áfram til UNFCCC í nafni Evrópubandalagsins.
Vegna þess að fyrst þarf að sannreyna upplýsingarnar í viðkomandi löndum dregst birting þeirra í hálft annað ár. Síðasta skýrslan birtist í júní 2008 og hún byggist því á gögnum frá 2006. Þar kemur fram að losun í ESB-15 er 3% minni en á 'grunnárinu'.
Hugtakið 'lofttegundatalning' er í meira lagi afstætt. Þess vegna er líka erfitt að átta sig á hvað hvert prósent táknar þegar rætt er um aukningu eða minnkun losunar. Það getur verið gagnlegt að hugsa sér minnkun losunar sem fjölda daga miðað við ár. Þannig samsvara Kyoto markmið ESB-15 að gróðuhúsaloftegundir verði ekki losaðar í 29 daga.
Á hverju hinna fimm ára á bilinu 2008-2012 ætti því losun ESB-15 að vera að jafnaði 29 dögum minni en var á árinu 1990. Þannig ætti minnkun losunar að halda áfram jafnt og þétt í nokkur ár.
Nýjustu EEA gögn sýna að losun minnkaði sem nam 10 dögum milli 1990 og 2006. ESB-15 löndin verða því að minnka losunina sem nemur 19 dögum í viðbót til að standast markmiðið.
Um leið og 'birgðaskýrslan' var komin út, byrjaði loftlagsbreytinga-teymi EEA á næsta meiriháttar verkefni þessa árs, en því lauk með útgáfu skýrslunnar um 'Stefna og framreikningur þróunar'. Skýrslan er gefin út að vetrarlagi, rétt áður en árlegur COP fundur Sameinuðu þjóðanna hefst.
Í þessari skýrslu er sett fram ítarlegri greining á því hvernig losunin mun þróast heldur en gert er í fyrri skyrslunni og tilgreint nákvæmlega hvar losunin fer fram og hvar dregið hefur úr henni. Mestu máli skiptir að í skýrslunni er horft fram á veginn og metinn framreikningur losunar gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2012 og þar eftir til ársins 2020. Þessi framreikningur er ómetanlegur því hann hjálpar okkur að skynja umfang framtíðarvandans svo að við getum mótað stefnu til að bregðast við honum (3).
Síðasta skýrsla um Stefnu og framreikning þróunar staðfestir að ESB-15 minnkaði losun sína um 3% milli 'grunnársins' og ársins 2006. Í skýrslunni er því haldið fram að grípa þurfi til margskonar aðgerða til að ná því sem á vantar.
Fyrirhugaðar aðgerðir 'innanlands' svo og þær sem þegar hafa veri gerðar (í hverju landi fyrir sig), sveigjanleikaákvæði Kyoto bókunarinnar, kolefnisbinding (dæmi: skógrækt til að binda lofttegundir) og viðskipti með kolefniskvóta: Allt verður þetta notað og gæti leitt til 11% minni losunar hjá ESB-15. Hins vegar verða ríkin að beita þessum fyrirhuguðu aðgerðum mjög fljótt, segir í skýrslunni, því annars munu þau ekki geta staðið við skuldbindingar sínar.
Ef litið er á frammistöðu einstakra landa kemur í ljós að Grikkland, Svíþjóð og UK höfðu náð Kyoto markmiðunum þegar á árinu 2006, en Austurríki, Belgía, Finnland, Þýskaland, Írland, Luxemburg, Holland og Portúgal telja sig munu geta náð markmiðunum. Hins vegar gefa spár til kynna að Danmörk, Ítalía og Spánn muni ekki ná markmiðum sínum um að draga úr losun.
Komið okkur til Kyoto í tæka tíðLosun í ESB-15 árið 2006 var 3% minni en á 'grunnárinu' samkvæmt nýjustu tölum frá EEA. Lönd sem undirritað hafa Kyoto bókunina verða að draga verulega úr losun heima hjá sér. Hafi þau hins vegar uppfyllt þetta skilyrði, geta þau einnig hagnýtt sveigjanleikaákvæði bókunarinnar, eins og t.d. 'Skipulag til hreinnar þróunar' (Clean Development Mechanism, CDM) og 'Sameiginlega framkvæmd' (Joint Implementation), en það eru tvö verkefni sem gera einstökum löndum kleift að borga fyrir losun annarsstaðar til að losna að hluta til við minnkun losunar á sínum svæðum. 'Viðskiptaáætlun fyrir losunarkvóta' (Emissions Trading Scheme, ETS) á vegum ESB er annað verkfæri sem hjálpar atvinnuvegunum að draga úr CO2 losun sinni á hagkvæman hátt. Mörk hafa verið ákveðin fyrir alla iðnaðarstaði sem losa mikið af CO2. Á stöðum þar sem dregið er úr losun umfram 'kvóta' er hægt að selja það sem umfram er til fyrirtækja sem ekki hafa minnkað losun eins og þeim ber. Þannig hefur komist á laggirnar kvótamarkaður. Ætlað er að ESB ETS dragi nú úr ESB-15 losun um meira en 3% (4). Hægt væri að láta þetta fyrirkomulag ná til fleiri atvinnugreina í samræmi við tillögu sem Framkvæmdastjórn Evrópu hefur sett fram, eins og til dæmis flugreksturs, olíuefnaiðnaðar, ammoníaks- og áliðnaðar, svo og til fleiri lofttegunda. Þá myndi uþb helmingur allrar losunar í ESB löndunum heyra þar undir (5). Meðan Kyoto bókunin gildir (2008–2012) geta þróaðar þjóðir einnig verslað með losunarkvóta sín á milli til að standa við markmið sín. |
Hin fleygu orð, 'sameiginleg en mismikil ábyrgð', sem fyrst voru sögð á heimsráðstefnunni í Rio, heyrast nú æ oftar þegar rætt er um loftslagsbreytingar. Þau vísa til þess að þróuð lönd bera mesta ábyrgð á gróðurhúsalofttegundunum í andrúmsloftinu. Þessi lönd hafa náð lengra í iðnvæðingu, hafa losað meira af skaðlegum efnum, og það ætti því að vera lagaleg skylda þeirra að ganga á undan þróunarlöndunum í því að draga úr losun.
Það hefur reynst afar erfitt að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd á þann hátt að bæði hin þróuðu lönd og hin, sem skemmra eru á veg komin, geti við unað. Nú í desember verður það stærsta viðfangsefni COP 15 að snúa orðum í hnattrænar aðgerðir til að draga úr losun. Því fylgja ný markmið fyrir samdrátt losunar, og það sem mestu máli skiptir: Bandaríkin og stór þróunarlönd, eins og Indland og Kína, verða að leggjast á árarnar með hinum löndunum.
Okkur er þegar vel kunnugt um afstöðu ESB til þess sem gera þarf til að draga úr losun: 20% skerðing losunar eigi síðar en 2020, sem hækkar í 30% ef aðrar þróaðar þjóðir skrifa undir í Kaupmannahöfn. Öll ESB ríkin 27 verða með.
Markmið ESB fram til ársins samsvarar næstum því stöðvun allrar losunar frá allri umferð í Evrópu. Hugsum okkur ef allir vörubílar, strætisvagnar, fólksbílar, lestir, skip og flugvélar hyrfu af sjónarsviðinu og þar með öll losun frá þessum farartækjum. Þetta markmið lýsir miklum metnaði, en það má ekki slá neitt af því það er mikið í húfi.
Nýjustu tölur sýna að hnattræn losun CO2 hefur vaxið fjórum sinnum hraðar frá aldamótunum heldur en áratuginn þar á undan. Þessi aukning er meiri en það versta sem menn höfðu reiknað með í skýrslu milliríkjanefndar um loftlagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) árið 2007. Þróunarlöndin losa nú meira CO2 heldur en þróuðu löndin. Náttúrlegir geymslustaðir fyrir CO2 , eins og höfin, sem sjúga í sig CO2 eru ekki eins virkir og þeir voru fyrir hálfri öld, en það táknar að aðgerðir okkar til að minnka losun vegna mannlegra umsvifa þurfa að vera enn beinskeyttari ef okkur á að takast að halda magni CO2 í andrúmsloftinu stöðugu.
'Kostnaðurinn af aðgerðaleysi gagnvart loftlagsbreytingunum er gífurlegur, bæði fjárhagslega og siðferðilega. Fátæklingar munu þjást fyrstir en að lokum munu allir verða fyrir áföllum,' sagði prófessor Jacqueline McGlade, framkvæmdastjóri EEA.
'Loftlagbreytingar virða engin venjuleg stjórnsýsluleg eða fjárhagsleg mörk. Þær eru ekki lengur málefni eins eða tveggja ráðherra. Þær eru málefni sem æðstu leiðtogar þurfa að sinna og það þarf að taka á þeim með tilliti til þess,' bætti hún við.
Heimildir
The Global Carbon Project, 2008. Carbon Budget 2007.
EEA, 2008a. Annual European Community greenhouse gas inventory 1990–2006 and inventory report 2008, EEA Technical No 6/2008.
EEA, 2008b. Greenhouse gas
emission trends and projections in Europe 2008, EEA Report No
5/2008.
(1) Hinar ýmsu lofttegundir hafa mismunandi 'grunnár' samkvæmt Kyoto. Fyrir koldíoxíð, metan og köfnunarefnisoxíð (99% allrar losunar) er 1990 það 'grunnár' sem miðað er við í öllum ESB-15 aðildarríkjunum. Hvað varðar flúorgös geta löndin valið annað ár í staðinn. Tólf ESB lönd hafa valið árið 1995.
(2) ESB-15 hafa sameiginlegt Kyoto markmið. Innan þess hefur hvert ESB-15 land sérstakt lækkunarmarkmið: sum verða að minnka losun en öðrum leyfist lítilsháttar aukning. Ný aðildarríki ESB hafa mismunandi markmið nema Kýpur og Malta sem hafa engin markmið
(3) Ef litið er fram til 2020, sést að í skýrslunni er langtímaspá um ástand losunarmála í Evrópu. Þetta er á sérlega við ef málið er skoðað í tengslum við 'loftlags- og orkupakkann' sem Framkvæmdastjórn Evrópu gerir tillögu um með markmiðum fyrir 2020.
(4) Borið saman við Kyoto 'grunnár'.
(5) Eins og er heyra losanir frá alþjóðaflugi og siglingum ekki undir Kyoto bókunina eða ESB lög.
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/ekki-bara-hiti-i-lofti-alfejodlegar-samningavidredur-og-leitin-ad-arftaka-kyoto-bokunarinnar or scan the QR code.
PDF generated on 23 Jan 2025, 12:04 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum