All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Í júlí 2011 ollu ákafar rigningar því að hluti Kaupmannahafnar lagðist undir vatn. Fráveitukerfi borgarinnar önnuðu ekki vatnsmagninu sem kom niður, allt að 135 mm á tveimur klst. Þar með var vandamálum Kaupmannahafnarbúa vegna vatns ekki lokið. Skömmu eftir flóðin liðu stórir hlutar borgarinnar vikum saman fyrir mengað drykkjarvatn í tengslum við viðgerðir á vatnsleiðslum. Áþekk vatnstengd vandamál þekkjast í öðrum borgum.
Meira en þrír fjórðu íbúa Evrópu búa í þéttbýli og treysta á hreint vatn í borgum. U.þ.b. fimmtungur heildarferskvatns sem aflað er í Evrópu fer til opinberra kerfa - þ.e. vatn sem veitt er til heimila, lítilla fyrirtækja, hótela, skrifstofa, sjúkrahúsa, skóla og sumra atvinnugreina.
Það er ekki einfalt verkefni að tryggja stöðugt framboð hreins vatns til almennings. Vatnskerfið mótast af mörgum þáttum , þ.á m. íbúafjölda og stærð íbúðarhúsa, breytingum á eiginleikum yfirborðs lands, hegðun neytenda, efnahagslegum kröfum atvinnulífsins (svo sem athöfnum ferðamanna), efnasamsetningu vatnsins og geymslu vatns og flutningum. Það þarf einnig að móta það eftir áskorunum vegna loftslagsbreytinga sem geta verið m.a. óvænt flóð, hitabylgjur og tímabil vatnsskorts.
Til að koma í veg fyrir vatnsskort í þéttbýli þurfum við að stýra vatnsauðlindum með nýtni í huga á öllum stigum: allt frá framboði hreins vatns til mismunandi nota þess meðal neytenda. Þetta gæti falið í sér bæði að draga úr neyslu og finna nýjar leiðir til að afla og nota vatn. Einnig ætti að fella vatnsstjórnun betur inn í víðtækari þéttbýlisstjórnun þar sem tekið er tilliti til eiginleika hins staðbundna umhverfis.
Þegar hefur verið sýnt fram á að tækniframfarir og ný verðlagningarkerfi einar sér draga verulega úr því vatnsmagni sem notað er á heimilum, sem er yfirleitt 60-80% af framboði opinberra vatnsveita í Evrópu. T.d. hafa tækniframfarir heimilistækja svo sem þvottavéla og uppþvottavéla stuðlað að samdrætti í vatnsnotkun án þess að fólk hafi þurft að breyta hegðun sinni eða vitund um vatnsmálefni.
Meiri framfarir eru einnig mögulegar með breytingum á vatnsnotkun vegna persónulegs hreinlætis sem nemur nú um 60% af vatnsnotkun á heimilum. Með því að nota tæki sem koma í stað klósettkassa má t.d. með ódýrum og einföldum hætti draga úr vatnsnotkun um einn lítra í hverri niðursturtun. Minniháttar breytingar á sturtukerfum, svo sem með því að bæta lofti í vatnsflæðið, geta einnig leitt til vatnssparnaðar.
Eins og fram kemur í rammatilskipun ESB um vatn má með því að tengja vatnsverð við rúmmál neytts vatns skapa hvata fyrir sjálfbærari vatnsnotkun. Í Englandi og Wales notar fólk sem býr í húsum með vatnsmælingu að meðaltali 13% minna vatn en þeir sem ekki búa við vatnsmælingu.
Aðeins 20% vatnsnotkunar atvinnugreina sem fá vatn úr opinberri vatnsveitu er raunverulega neytt. Hinum 80% er skilað aftur til umhverfisins, aðallega sem meðhöndlað frárennslisvatn. Steyptir og malbikaðir fletir í borgum beina vanalega regnvatni til skólpkerfisins þar sem það sameinast frárennslisvatni. Þetta kemur í veg fyrir að regnvatnið komist í jarðveginn og endurnýi grunnvatnsforðann sem getur gagnast okkur síðar. Afrennsli regns og frárennslisvatn fara gjarnan í gegnum vatnshreinsistöðvar og er síðan sleppt út ár, yfirleitt langt frá borgum. Með nokkrum breytingum á vatnskerfum í þéttbýli mætti skila bæði regnvatni og minna menguðu frárennslisvatni aftur til vatnsnotenda borgarinnar.
Ein slík breyting er að endurnota grávatn. Grávatn merkir allt afrennsli frá heimilum sem kemur ekki frá salernum, svo sem frárennslisvatn frá böðum, sturtum, handlaugum og eldhúsi. Þetta vatn má meðhöndla beint á staðnum eða láta ómeðhöndlað til nota þar sem drykkjarvatnsgæði eru ekki nauðsynleg, t.d. til að sturta niður í klósettum.
Borgir gætu einnig nýtt regnvatn með því að safna regnvatni sem flæðir af þaki eða innkeyrslu í viðtökugeymi og þetta vatn gæti nýst fyrir ódrykkjarhæf not svo sem niðursturtun klósetta, bílaþvotta eða garðrækt. Það mætti einnig leiða það beint ofan í jarðveginn til að endurnýja grunnvatnsforðann. Koma má upp slíkum kerfum á heimilum eða í fyrirtækjum og þau kalla ekki á breytingar á neysluvenjum af hálfu vatnsnotenda. Hins vegar má taka fleiri skref til að bæta framboð af vatni áður en það fer inn á heimili.
Það hefur ýmsa kosti að halda vatni í borginni með því að leyfa vatni að síast inn í jarðveginn og safnast í vötn og tjarnir, m.a. af því að þannig skapast tómstundasvæði fyrir heimamenn og kælingaráhrif í hitabylgjum.
(c) ABC Open Wide Bay | flickr.com
Vatnstap vegna leka getur verið mikið; í Króatíu tapast tæplega 40% vatnsins í flutningskerfinu. Koma má í veg fyrir leka með viðhaldi og endurnýjun vatnsveitna og einnig með því að nota nýja tækni. Slík tækni getur verið m.a. skynjarar sem nema og staðsetja hljóð frá leka eða tæki sem nota útvarpsmerki til að greina nærveru rennandi vatns. Með beitingu slíkrar tækni þurfa opinberar vatnsveitur ekki lengur að takast á við aukna byrði af vatnstapi vegna leka um leið og þær uppfylla eftirspurn eftir vatni með takmörkuðu framboði. Endurnýjun vatnsveitukerfa getur hins vegar krafist mikillar fjárfestingar í grunnvirkjum.
Til að ná fram meiri sjálfbærri nýtingu opinberra vatnsveitna í þéttbýli þarf ekki aðeins að framkvæma aðgerðir eins og þær sem lýst var hér að framan, heldur einnig að auka vitund almennings um málefni vatnsverndar.
Ýmsar leiðir eru í boði til að upplýsa innlenda vatnsneytendur og vatnsneytendur meðal fyrirtækja og ferðamanna, þ.á m. vefsíður, námsleiðir í skólum, bæklingar á vegum sveitarstjórna og fjölmiðlar. Grænar merkingar tækja og grænar vottanir hótela t.d. geta einnig gegnt mikilvægu hlutverki við að auka meðvitund með því að auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir um nýtingu vatns og varðveislu.
Ekki er hægt að ná fram sannarlega sjálfbærri nýtingu ferskvatnsauðlinda okkar án frekari endurbóta á sjálfbærni vatnsnotkunar í þéttbýli.
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/vatn-i-borginni or scan the QR code.
PDF generated on 23 Dec 2024, 03:44 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum