næsta
fyrri
atriði

Article

Hreinna loft er betra fyrir heilsu manna og loftslagsbreytingar

Breyta tungumáli
Article Útgefið 26 Jan 2018 Síðast breytt 11 May 2021
6 min read
Photo: © Maria Cristina Campi, NATURE@work/EEA
Þökk sé löggjöf, tækni og færslu í átt frá mjög mengandi jarðefnaeldsneyti í mörgum löndum hafa loftgæði Evrópu farið batnandi á nýliðnum áratugum. Engu að síður verður fólk enn fyrir neikvæðum áhrifum frá loftmengun, sérstaklega í borgum. Vegna þess hversu flókin baráttan gegn loftmengun er krefst hún samhæfðra aðgerða á mörgum sviðum. Nauðsynlegt er að gefa borgurum tímalega upplýsingar á aðgengilegan hátt til að virkja þá. Nýútgefinn loftgæðavísir okkar gerir nákvæmlega það. Betri loftgæði myndu ekki aðeins bæta heilsu okkar heldur einnig hjálpa til að takast á við loftslagsbreytingar.

Loftgæði Evrópu hafa batnað umtalsvert síðan Evrópusambandið og aðildarríki þess mörkuðu stefnu og gripu til ráðstafana til að tryggja betri loftgæði á áttunda áratug síðustu aldar. Losun loftmengunarvalda frá mörgum helstu upprunastöðum þeirra, þ.m.t. frá samgöngum, iðnaði og raforkuframleiðslu er núna stjórnað með reglugerðum og fer almennt minnkandi, en ekki alltaf að því marki sem búist var við. Mikil loftmengun hefur enn markverð áhrif á heilsu Evrópubúa. Svifryk og köfnunarefnistvíoxíð valda mestum skaða.

Nýjasta loftgæða ársskýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu sýnir að flest fólk sem býr í evrópskum borgum er enn útsett fyrir loftmengun í magni sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur vera skaðlegt. Samkvæmt skýrslunni bar magn fíngerðs svifryks (<2,5μm) ábyrgð á áætluðum 428.000 ótímabærum dauðsföllum í 41 Evrópulöndum árið 2014, en um 399.000 þeirra voru í aðildarríkjum ESB.

Slæm loftgæði hafa líka umtalsverð efnahagsleg áhrif, auka lækniskostnað, draga úr framleiðni starfsmanna, og skemma jarðveg, uppskeru, skóga, vötn og ár. Þó að loftmengun sé oft tengd mengunartoppum og atvikum, hefur langtímaútsetning fyrir lægri skömmtum jafnvel enn alvarlegri áhrif á heilsu manna og náttúruna. 

Ef dregið er úr loftmengun hjálpar það til við að berjast gegn loftslagsbreytingum

Koltvísýringur á ef til vill einna stærstan þátt í gróðurhúsaáhrifunum og loftslagsbreytingum en er alls ekki eina orsökin. Mörg önnur gas- eða agna-efnasambönd, svo kallaðir „Loftslagskeyrarar“, hafa áhrif á magn sólarorku (þ.m.t. hita) sem jörðin varðveitir.

Til dæmis er metan mjög kraftmikill loftslagskeyrari auk þess að vera loftmengunarvaldur sem tengist landbúnaði og er nátengdur búfjárframleiðslu og kjötneyslu. Efnisagnir eru annar mengunarvaldur, sem hefur bæði áhrif á loftslagsbreytingar og loftgæði. Þær gætu haft hvort sem er kælandi eða hitandi áhrif á staðbundið og hnattrænt loftslag, en það fer eftir samsetningu þeirra. Til dæmis gleypir kinrok, eitt innihaldsefna svifryks sem verður til vegna ófullkomins bruna eldsneytis, í sig sólar- og innrauða geislun í andrúmsloftinu og hefur þannig hitunaráhrif.

Ráðstafanir til að draga úr útblæstri skammlífra loftslagskeyrara svo sem kinroks, metans, ósons eða undanfara ósons hefur bæði góð áhrif á heilsu manna og loftslagið. Gróðurhúsalofttegundir og loftmengunarvaldar deila sömu losunar upptökum. Þess vegna getur það borgað sig að takmarka losun þeirra.

Engu að síður, hafa ráðstafanir sem hafa verið kynntar þannig að þær berjist gegn loftslagsbreytingum, haft óviljandi slæm áhrif á loftgæði. Til dæmis hafa mörg lönd ýtt undir notkun díselknúinna ökutækja sem komið hefur í ljós að losa mikið af loftmengunarvöldum. Á svipaðan hátt hefur kynning á brennslu á endurnýjanlegum viði á sumum svæðum Evrópu því miður leitt til mikils magns svifryks í andrúmslofti á þeim svæðum. Við þurfum að læra af slíkum dæmum og tryggja að við skiljum að fullu og tökum tillit til afleiðinganna af þeim ráðstöfunum sem við ákveðum að innleiða.

Tengingin á milli loftslagsbreytinga og loftgæða er ekki takmörkuð við algenga mengunarvalda sem koma út í andrúmsloftið frá sömu upptökum. Loftslagsbreytingar geta einnig aukið á vandamál vegna loftmengunar. Á mörgum svæðum heimsins er búist við að loftslagsbreytingar hafi áhrif á staðbundið veðurfar, þ.m.t. tíðni hitabylgja og tímabil staðnaðs lofts. Meira sólarljós og hærra hitastig lengir ef til vill ekki aðeins tímabilin sem óson stig eru hækkuð, heldur gæti það einnig aukið hámarks þéttni ósons enn frekar. Þetta eru vissulega ekki góðar fréttir fyrir hluta Evrópu, sem upplifa oft tímabil með of miklu magni ósons við yfirborð jarðar.

Samhangandi aðgerðir teknar frá hinu staðbundna til hins hnattræna

Loftmengun er ekki eins allstaðar. Mismunandi mengunarvaldar eru losaðir út í andrúmsloftið frá ýmiskonar upprunastöðum. Vegaflutningar, landbúnaður, orkuver, iðnaður og heimili eru stærstu losarar loftmengunarvalda í Evrópu. Þegar þeir eru komnir út í andrúmsloftið, breytast þessir mengunarvaldar í nýja mengunarvalda og dreifast. Hönnun og innleiðing stefnumörkunar sem tekur á þessum margbreytileika er ekki auðvelt verk.

Að gefnum fjölbreytileika uppruna bæði þegar kemur að landfræðilegri dreifingu og atvinnustarfsemi, þurfa aðgerðir að vera gerðar á mismunandi stigum frá hinu staðbundna til hins hnattræna. Alþjóðlegir sáttmálar geta miðað að því að draga úr losun mengunarvalda út í andrúmsloftið, en án staðbundinna aðgerða — svo sem upplýsingaherferða, útilokun ökutækja sem menga mikið í borgum, eða svæðisskipulagsákvarðana — fengjum við ekki jafn mikið út úr fyrirhöfn okkar og annars. Þessi fjölbreytileiki þýðir einnig að það er ekki til nein ein-stærð-hentar-öllum lausn þegar kemur að loftmengun. Til að draga meira úr váhrifum og meðfylgjandi skaða, þurfa yfirvöld að aðlaga ráðstafanir sínar til að taka staðbundna þætti með í reikninginn, s.s. uppruna, lýðfræði, samgönguinnviði og staðbundinn hagkerfi.

Til að auka samheldnina á milli aðgerða sem gripið er til á staðar-, lands-, Evrópu- og alþjóðavísu, kallaði Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins saman mismunandi hagsmunaðila frá allri Evrópu á Hreint loft umræðufundinum í nóvember. Umræðufundurinn sem haldin var í París, einblíndi ekki aðeins á loftgæði í borgum, heldur líka á loftmengun frá landbúnaðarvinnslu. Hann beindi líka kastljósinu að nýjungum og viðskiptatækifærum sem tengjast aðgerðum til að tryggja hreint loft.

Upplýsingalykill til að lágmarka váhrif

Umhverfisstofnun Evrópu vinnur með aðildarríkjunum við að safna sambærilegum upplýsingum um loftgæði yfir tíma. Við byggjum á gögnunum og mælum framfarir, greinum stefnur og leitum að tengslum á milli uppruna svo sem vegaflutninga og raunverulegra mælinga á loftgæðum.

Þegar þess þarf verða mælingar frá mælingararstöðum bættar upp með gervihnattamyndum. Undir Evrópsku jarðfjarkönnunaráætluninni Copernicus setti ESB nýjan gervihnött á sporbraut með það að markmiði að fylgjast með loftmengun, og er hann nú þegar farinn að senda inn myndir. Þessum upplýsingum er síðan reglulega deilt með almenningi og stefnumótandi aðilum. Það er mikilvægt að taka fram að Stofnunin fjallar einungis um loftgæði utandyra, en ekki gæði loftsins sem við öndum að okkur heima eða í vinnunni, sem hefur einnig bein áhrif á heilsu okkar. 

Sem hluti af viðleitni okkar við að gefa nýjustu upplýsingarnar, þróuðum við ásamt Framkvæmdastjórn ESB nýja netþjónustu: Evrópska loftgæðavísinn. Evrópski loftgæðavísirinn, sem kynntur var á Hreint loft umræðufundinum, gefur upplýsingar um núverandi stöðu loftgæða miðað við mælingar frá meira en 2.000 loftgæðamælum um alla Evrópu. Loftgæðavísirinn gerir borgurum kleift að nota gagnvirkt kort til að skoða loftgæði á hverri stöð fyrir sig, miðað við fimm helstu mengunarvalda sem eru heilsuspillandi og skaða umhverfið: nefnilega svifryk (bæði PM2.5 og PM10), óson við yfirborð jarðar, köfnunarefnistvíoxíð og brennisteinstvíoxíð. Þetta verkfæri gerir okkur kleift að deila þessum upplýsingum með öllum Evrópubúum sem hafa áhuga á að takast á við loftmengun. Við getum öll athugað loftgæði þar sem við erum og gripið til varúðarráðstafana til að draga úr váhrifum okkar frá mengun.

Upplýsingar eru sannarlega frumskilyrði þess að takast á við loftmengun og draga úr skaðlegum áhrifum hennar. Engu að síður, til að bæta loftgæði og mæta langtíma lágkolefnismarkmiðum ESB, þurfum við að takast á við losun frá öllum atvinnuvegum og kerfum s.s. hreyfanleika, orku eða mat, og skilja framleiðslu- og neyslumynstur sem framleiða þessa losun. Það er eina leiðin fram á við. EEA er tilbúið, sem þekkingarfélagi, að hjálpa til við að ná þessum langtímamarkmiðum. 

 

Hans Bruyninckx

Framkvæmdastjóri EEA

Þessi ritstjórnargrein birtist í fréttabréfi EEA 2017/4, 15. desember 2017

 

 

Permalinks

Geographic coverage

Temporal coverage