All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Catherine, af hverju vinnur EEA á sviði heilbrigðis- og umhverfismála? Hver er stærsta áhættan fyrir velferð okkar?
Heilbrigði manna og heilbrigði vistkerfisins eru samtengd með óaðskiljanlegum hætti. Líkami okkar þarf hreint loft, vatn og mat á hverjum degi til að virka. Við þrífumst sem einstaklingar og samfélög með því að verja tíma í náttúrunni við hreyfingu, samvistir við annað fólk og afslöppun. Á sama tíma þjáist bæði líkaminn og sálin ef við lifum lífinu, sækjum skóla og sinnum leik og störfum í menguðu umhverfi. Náttúruvernd snýst ekki um að vernda plánetuna. Hún snýst um að tryggja heilbrigði og velferð okkar og barnanna okkar. Mengunarforvarnir eru lýðheilsumál.
Stærsta hættan, sem steðjar að heilbrigði okkar, er loftmengun og hávaði, einkum í borgum. Til langs tíma litið skapa loftslagsbreytingar hættu gegn tilvist okkar og lífsháttum. Þar á meðal með beinum mannskaða af völdum hitabylgna, skógarelda og flóða ásamt ógn til lengri tíma fyrir matvælaframleiðslu vegna breytinga á veðráttu. Við sjáum einnig breytingar á dreifingu smitsmjúkdóma eftir því sem skordýr, sem eru smitberar, færa sig lengra norður með hitnandi loftslagi. Við vitum einnig að viss íðefni eru hættuleg heilsunni.
Hvað hefur EEA gert fram að þessu á þessu sviði?
Við vinnum að því að átta okkur betur á umhverfisáhrifum á heilsu okkar og velferð. Við söfnum upplýsingum um hvernig fólk í Evrópu er útsett fyrir mismunandi umhverfishættum, þar á meðal loftmengun, hávaða, loftslagsmengun og íðefnum. Í nýlegri skýrslu Healthy environment, healthy lives: how the environment influences health and well-being in Europe — European Environment Agency fjöllum við um nýjustu upplýsingar og leggjum mat á heilsufarsáhrifin. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að eitt af átta dauðsföllum í Evrópu stafi af umhverfismengun. Koma má í veg fyrir þessi dauðsföll meðal annars með bættum umhverfisgæðum.
Við skoðum líka hvernig umhverfisáhætta dreifist í samfélaginu og komumst að því að berskjaldaðasta fólkið í samfélaginu okkar verður mest fyrir streituvöldum í umhverfinu. Mengun hefur meiri áhrif á fátæk samfélög. Fátækt fólk, börn, aldraðir og sjúkir finna meira fyrir neikvæðum áhrifum skaðvalda í umhverfinu en aðrir. Þessi ójafna áhættudreifing eykur enn á heilsufarsójöfnuð í Evrópu.
En á jákvæðu nótunum skoðum við líka ávinninginn sem náttúran færir okkur. Þar ber sérstaklega að nefna að mikill meirihluti fólks í Evrópu hefur aðgang að mjög góðu drykkjarvatni og baðvatn í Evrópu er framúrskarandi og gerir fólki kleift að stunda hreyfingu og afslöppun.
Hvernig styður vinna EEA við Grænu efnahagsstefnu Evrópu?
Vinna EEA á sviði umhverfis- og heilbrigðismála dregur saman tiltækar upplýsingar um það hvaða áhrif mengun, loftslag og spilling vistkerfa hefur á heilsufar. Nýleg skýrsla okkar Umhverfismál Evrópu — Ástand og horfur 2020 (SOER 2020) lýsir því hvernig núverandi lifnaðarhættir okkar hvað varðar framleiðslu og neyslu, orkunotkun, ferðalög og matvælakerfi stuðlar að umhverfisspillingu. Þessi þekkingargrunnur stuðlar að breytingum á þeirri dýnamík með nauðsynlegum breytingum samkvæmt Grænu efnahagsstefnu Evrópu.
Alberto, af hverju eru loftgæði svona mikilvæg fyrir heilsu Evrópubúa?
Loftmengun er talin stærsta einstaka umhverfishættan í Evrópu. Samkvæmt nýjustu tölum okkar, var útsetning fyrir fínum efnisögnum (sá mengunarvaldur sem hefur skaðlegustu áhrifin á heilsufar manna) völd að yfir 400 000 fyrirbyggjanlegum dauðsföllum í Evrópu árið 2018. Þessi dauðsföll voru aðallega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og krabbameins. En fyrir utan þessa grafalvarlegu sjúkdóma eru vaxandi vísbendingar um að útsetning fyrir loftmengun tengist öðrum sjúkdómum. Þar á meðal má nefna sykursýki 2, kerfisbólgur eða geðsjúkdóma eins og Alzheimers sjúkdóminn og elliglöp.
Loftmengun hefur einnig áhrif á umhverfið, dregur til dæmis úr líffræðilegum fjölbreytileika í tilteknum vistkerfum og hefur áhrif á vöxt gróðurs og uppskeru. Hún hefur einnig áhrif á byggingar og skemmir til dæmis menningarminjar okkar.
Hvernig hefur ástandið batnað á síðastliðnum árum? Hvaða vandamál eru enn óleyst?
Innleiðing á staðbundnum, innlendum og Evrópusambandsstefnum og úrræðum hefur leitt til minnkunar á losun á öllum mengunarvöldum í lofti, minnkun á útsetningu almennings en það hefur dregið úr heilsufarsáhrifunum.
Losunin er mismunandi eftir mengunarvöldum og efnahagsgeirum. Til að mynda er landbúnaður og notkun á eldsneyti til íbúðahitunar þeir tveir geirar þar sem mestur möguleiki er á því að minnka losun enn frekar. Annað vandamál, sem enn er til staðar þrátt fyrir stöðuga minnkun, er að fyrirbyggjanleg dauðsföll eru enn óþolandi mörg. Aukin áhrif loftslagsbreytinga á myndun tiltekinna mengunarvalda eins og ósons er sömuleiðis áhyggjuefni og sama á við þörfina á því að finna samvirkni í stefnum til að berjast bæði gegn loftmengun og loftslagsbreytingum.
Eulalia, af hverju er oft horft framhjá hávaðamengun og hvað er EEA að gera á þessu sviði?
Margir átta sig ekki á því að hávaðamengun er stórt vandamál. Hún hefur áhrif á heilbrigði okkar. Þegar við hugsum um að hávaði hafi áhrif á heilbrigði okkar hugsum við um tónleika eða að vera of nálægt háværri vél sem skemmir heyrn okkar. En það sem fólk áttar sig ekki á er að stöðugur hávaði frá umferð, til dæmis, getur valdið öðrum áhrifum sem tengjast ekki heyrnarskaða; og þau eru alvarleg eins og blóðþurrðarsjúkdómar, hár blóðþrýstingur, offita, sykursýki, o.s.frv. Yfirvöld átta sig á því að hávaði sé vandamál, það er þess vegna sem við höfum Evróputilskipun um umhverfishávaða frá 2002 og nýjar viðmiðunarreglur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Vandamálið snýr frekar að aðgerðum og fjárhagslegu bolmagni til að taka þær. Þetta er erfitt mál því borgir og úthverfi verða sífellt þéttbýlli og fólk krefst aukins hreyfanleika.
Vinna stofnunarinnar á sviði hávaða snýst um að leggja mat á áhrif hávaðamengunar í Evrópu. Við leggjum mat á áhrif útsetningar fyrir hávaða á heilsufar Evrópubúa út frá nýjustu gögnum frá Evrópu.
Hverjar eru helstu niðurstöður samantektarinnar? Hvað sker hana frá skýrslu EEA sem gefin var út fyrr á þessu ári?
Skýrsla EEA Environmental Noise in Europe var gefin út í mars. Nú höfum við gefið út samantekt sem lýsir þeim áhættuþáttum sem útsetning fyrir umhverfishávaði í Evrópu getur haft á heilbrigði. Samantektin lýsir þeim vísum, sem stuðst verður við, við þróun frekari markmiða til að draga úr áhrifum hávaða á heilsufar. Hvað varðar tiltekin áhrif á heilsufar er það mat okkar að langvarandi útsetning fyrir hávaða stuðli að 48 000 nýjum tilvikum hjartasjúkdóma og 12 000 ótímabærra dauðsfalla á hverju ári í Evrópu. Að auki þjást 22 milljónir af mikilli og langvarandi gremju og 6,5 milljónir þjást af miklum og langvarandi svefntruflunum.
Hvaða breytingar sérð þú á starfssviðum þínum á næstu árum?
Við gerum ráð fyrir aukinni þátttöku EEA á þessum sviðum. Við vonumst til þess að Græna efnahagsstefna Evrópu muni valda umbyltingu í Evrópu og leiða til aukinnar meðvitundar um umhverfismál eins og loft- og hávaðamengun og stuðla að betri stefnumótun.
Auk Grænu efnahagsstefnunnar gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin nýlega út viðmiðunarreglur fyrir umhverfishávaða og eru nýjar viðmiðunarreglur um loftgæði í farvatninu. Við sjáum fyrir okkur að útgáfa þessara viðmiðunarreglna muni varpa frekara ljósi á vandamál hávaða- og loftmengunar.
Catherine Ganzleben
Teymisstjóri — loftmengun, umhverfi og heilsa
Alberto González
Sérfræðingur EEA á sviði loftgæða
Eulalia Peris
Sérfræðingur EEA á sviði hávaðamengunar
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/heilsufar-og-umhverfi-thar-a or scan the QR code.
PDF generated on 23 Dec 2024, 08:43 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum