All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Umhverfisstofnun Evrópu fylgist með helstu umhverfisbreytingum í Evrópu og birtir niðurstöður sínar til að styðja við stefnumörkun. Matsgerðir okkar eru allt frá sérsviðagreiningum yfir í kerfisbundnar greiningar og ná yfir fyrri þróun og spár í sumum tilvikum allt fram til 2100. Heildarniðurstöðurnar eru skýrar: samanborið við áttunda áratug síðustu aldar búa Evrópubúar við hreinna loft og vatn og umhverfisvænni hagkerfi þar sem endurvinnsla og endurnýjanleg orka fer vaxandi. Þrátt fyrir að verulegu hafi verið áorkað er heildarstaðan áfram ósjálfbær. Vaxandi ásókn í auðlindir, loftslagsbreytingar og uppsöfnun mengunarvalda í náttúrunni eru allt atriði sem grafa undan heilbrigði plánetunnar og velferð okkar.
Hægt er að útskýra vandamálið með einföldum hætti: efnahagsstarfsemi hefur fjölbreyttan ávinning í för með sér en losar einnig mengun út í náttúruna og gengur á endurnýjanlegar og óendurnýjanlegar auðlindir. Þessir mengunarvaldar geta verið skaðlegir lífríkinu, þar á meðal heilbrigði okkar. En betri skoðun leiðir flókin vandamál í ljós, kjarnann í umræðum um umhverfisstefnu í Evrópu. Öllum lausnum fylgir kostnaður sem kemur sumum samfélögum til góða en þvingar önnur til aðlögunar. Til dæmis getur umbreyting í átt að hreinni orkugjöfum dregið úr mengun og styrkt endurnýjanlega orkugeirann en einnig leitt til atvinnumissis í kolanámusamfélögum.
Evrópusambandið er með einhverja hæstu umhverfisstaðla í heiminum og tekur á þessum flóknu umhverfisvandamálum með yfirgripsmiklum lagagerðum. Meðal þessara lagagerða eru markvissar tilskipanir um loftgæði, meðhöndlun á frárennslisvatni í borgum og náttúruvernd ásamt heildarlögum þvert á geira um loftslag og orku og hringrás í efnahagskerfinu.
Hjartað í umhverfisstefnum Evrópusambandsins er meginreglan um að mengunarvaldurinn greiði. Meginreglan var formlega innleidd með Rómarsáttmála Evrópusambandsins og er henni hrundið í framkvæmd með margvíslegum hætti, þar á meðal með efnahagslegum hætti með vegatollum fyrir ákveðin ökutæki eða grænum sköttum til að hvetja notendur til að velja græna valkosti.
En það er ekki alltaf auðvelt að koma auga á hverjir séu mengunarvaldar og hversu miklum skaða þeir valda. Hversu mikið ættu þeir þess utan að greiða?
Í ákveðnum tilvikum erum við með töluvert ítarlegar upplýsingar um mengunaruppsprettur. Til dæmis veitirE-PRTR skráningarkerfið (e. European Pollutant Release and Transfer Register) aðgang að upplýsingum um mengunarlosun yfir 30.000 iðnfyrirtækja í Evrópu. Í öðrum tilvikum á mengunin sér dreifðar rætur til að mynda í flutningum og landbúnaði. Staðreyndin er sú að öll efnahagsstarfsemi sem notar auðlindir, þar á meðal orku, hefur áhrif á umhverfið. Og allir njóta að lokum einhvers ávinnings af vörum og þjónustu efnahagslífsins. Því menga allir umhverfið. Einstaklingar hafa áhrif á umhverfið, en það er breytilegt eftir því hvaða mataræði, flutningastarfsemi og húsakostir eru ríkjandi auk almenningsþjónustu (t.d. aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum, endurvinnslustaðir, flutningskerfi) þar sem við búum.
Mengunarvaldar sem losaðir eru út í náttúruna geta breytt um form og samsetningu, hreyfst til, safnast upp í náttúrunni, borist yfir í fæðukeðjuna og haft áhrif á heilbrigði manna. Til dæmis getur kvikasilfur[1] sem losnar út í andrúmsloftið sem gastegund færst með veðri og vindum og borist síðar í vatn. Þegar það berst í vatn geta vatnaplöntur tekið það upp og dýr borðað það og þannig safnast það upp eftir því sem það færist upp fæðukeðjuna og endar á borðum okkar. Það getur tekið nokkur hundruð ár fyrir suma mengunarvalda að „hverfa“ eða falla út á stöðum þar sem þeir verða ekki lengur á vegi manna.
Reyndin er sú að áhrif mengunarvalda á heilsu okkar fer eftir útsetningu — hversu mikið, hversu lengi og hvernig við komumst í snertingu við mengunarvalda. Það getur dregið verulega úr lífslíkum að búa í mengaðri borg með mikla loftmengun og drekka mengað vatn daglega. Lífslíkur velta líka á veikleikum okkar, aldri og heilsufarsstöðu. Þótt heilsufarsáhrif útsetningar í stuttan tíma á kemískum mengunarvaldi í mjög litlu magni geti haft óveruleg áhrif á heilbrigði ungmenna gæti hún haft alvarlegar afleiðingar á fóstur á þroskaskeiði.
Þrátt fyrir mismunandi útsetningarstig eða varnarleysi er kostnaðurinn við umhverfismengun, þar á meðal áhrif loftslagsbreytinga, mjög verulegur. Matsgerðir okkar sýna að einn stakur loftmengunarvaldur, þ.e. fínt svifryk (PM2.5), veldur ótímabærum dauðsföllum um 400 000 Evrópubúa árlega. Uppsöfnun mengunarvalda í náttúrunni, þar á meðal plastefna í heimshöfunum, ofnýting auðlinda eða áþreifanlegar breytingar á kjörlendi veldur verulegu tjóni og breytingum sem hafa áhrif á allt vistkerfið. Sumar af þessum breytingum eru óafturkræfar. Skýrt hefur verið frá því að öfgar í veðri og loftslagi í Evrópu hafi valdið efnahagslegu tapi upp á meira en 450 milljarða evra á tímabilinu 1980–2016, 40% tapsins var af völdum flóða, 25% af völdum storma. Rétt yfir þriðjungur tjónsins var greiddur af tryggingum.
Í því samhengi berum við öll kostnaðinn að einhverju leyti. Auk þess er mesti kostnaðurinn ekki endilega greiddur af stærstu „mengunarvöldunum“. Loftslagsbreytingar eru alþjóðlegt vandamál þar sem sum af löndunum með minnstu losun gróðurhúsalofttegunda verða fyrir hvað mestu áhrifunum af hækkandi sjávarstigi. Hvað varðar loftmengun verður fólk í þéttbýli fyrir henni í meira magni, aðallega vegna flutningastarfsemi. Þó að fólk búi í sömu borginni verður fólk nálægt stórum umferðaræðum almennt fyrir meiri loft- og hávaðamengun en þeir sem búa nærri grænni svæðum. Að sama skapi á fólk á flóðasvæðum meira á hættu að verða fyrir tjóni af völdum flóða, rétt eins og eldra fólk og börn eru berskjaldaðri fyrir hitabylgjum. Að sama skapi býr fólk í hreinna umhverfi við betra heilbrigði. Félagslegur ójöfnuður[2] er sannarlega þáttur dr, brt að hafa í huga þegar mat er lagt á áhrif mengaðs eða hreins umhverfis á mismunandi samfélög.
Kynslóðir framtíðarinnar munu einnig þurfa að greiða kostnað við val okkar og aðgerðir. Þó að við stöðvum alla losun í dag munu sumir mengunarvaldar, sem losnuðu út í umhverfið í dag, enn vera til staðar í náttúrunni og meðalhitastig mun halda áfram að hækka áður en það nær stöðugleika. Áhrifin munu finnast í áratugi og jafnvel um aldir.
Öll þess atriði hafa í för með sér erfiðar ákvarðanir á sviði stefnumörkunar í dag. Til að hjálpa Evrópu við að marka sér sem besta stefnu taka matsgerðir Umhverfisstofnunar Evrópu á erfiðum spurningum, svo sem hvað eigi sér stað, af hverju það á sér stað, hverjir verða fyrir breytingunum, hvernig aðstæður munu líta út í framtíðinni og hvernig við getum bætt þær. Með slíka þekkingu að vopni eru stjórnmálamenn betur í stakk búnir til að velja sjálfbærustu lausnirnar og aðstoða þá sem verst verða úti.
Hans Bruyninckx
Framkvæmdastjóri EEA
Þessi ritstjórnargrein birtist í fréttabréfi EEA, tölublaði 2018/2, 15. júní 2018
[1] Umhverfisstofnun Evrópu mun birta skýrslu um kvikasilfur í umhverfinu síðar á árinu 2018.
[2] Umhverfisstofnun Evrópu vinnur að mati um félagslegan ójöfnuð og umhverfisáhrif, sem ráðgert er að verði gefið út síðar á árinu 2018.
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/breytingar-i-umhverfinu-thekking-er or scan the QR code.
PDF generated on 26 Nov 2024, 02:09 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum