næsta
fyrri
atriði

Article

Þurrausinn brunnur - Um vatn og aðlögun að loftlagsbreytingum

Breyta tungumáli
Article Útgefið 14 Apr 2009 Síðast breytt 11 May 2021
'Það er lokað fyrir vatnið okkar einu sinni eða tvisvar í mánuði, stundum oftar,' segir Barış Tekin í íbúð sinni í Beşiktaş, sem er eitt af gömlu hverfunum í Istanbúl, þar sem hann býr með konu sinni og dóttur. 'Við höfum tiltæka 50 lítra af vatni í flöskum heima hjá okkur, fyrir þvotta og þrif, svona til öryggis. Þegar við erum án vatns mjög lengi í einu förum við til föður míns eða til tengdaforeldra minna,' segir Barış sem er prófessor í hagfræði við háskólann í Marmara.

Í þessari gömlu íbúð er ekki vatnsgeymir svo að Tekin hjónin eru beintengd við vatnsveitu borgarinnar. Miklir þurrkar hafa verið í Vestur-Tyrklandi síðastliðin tvö ár og því gerist það oft að borgaryfirvöld skrúfa fyrir vatnið, jafnvel allt að 36 klukkustundir í senn.

Vatnsskortur er ekkert nýtt fyrirbrigði – Barış man eftir vatnsleysi alveg frá því hann var barn. Þótt kerfið hafi verið bætt og minna vatn fari til spillis, kemur það að litlu haldi því þurrkarnir sem nú hrjá íbúana eru mjög slæmir og 'vatnsskömmtun' er daglegt brauð á sumrin fyrir þær 12 milljónir manna sem búa í borginni.

Áhrif loftlagsbreytinga

Ofboðslegir hitar og þurrkar, regn og flóð hrjáir fólk víða í Evrópu.

Í sumar sem leið birtust í spænska dagblaðinu El Pais myndir af þurrum árfarvegum, en á sama tíma voru stórfyrirsagnir í enska blaðinu Guardian um mikil flóð í Bretlandi. Meðan yfirvöldin í Barcelona voru að undirbúa vatnsflutninga með skipum til borgarinnar voru bresk stjórnvöld önnum kafin við að meta öryggi flóðavarna sinna.

Orsakirnar eru margvíslegar en viðbúið er að loftlagsbreytingar verði til þess að atburðum af þessu tagi fjölgi og að afleiðingarnar verði alvarlegar. Jafnvel þótt dregið verði úr losun mun uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu í gegnum tíðina samt leiða til meiri eða minni loftlagsbreytinga sem aftur orsaka munu margvísleg áhrif. Af þessum sökum komumst við ekki hjá að laga okkur að nýjum aðstæðum – við verðum að finna hvar skóinn kreppir að og gera viðeigandi ráðstafanir til að draga úr áhættunni. Í eftirfarandi umfjöllun um aðlögun að loftlagsbreytingum verður athyglinni einkum beint að málefnum er snerta vatn, en þó einkum að vatnsskorti, þ.e. þurrkum.

Vatnsskortur og þurrkar

Eftir því sem hitinn vex gengur meira á vatnsbirgðir Suður-Evrópu. Á sama tíma eykst vatnsþörf landbúnaðar og ferðamannaiðnaðar, einkum á heitustu og þurrustu stöðunum.

Hækkandi vatnshiti og minna rennsli ánna í suðurhluta álfunnar spillir jafnframt vatnsgæðunum. Við það að meira verður um mjög miklar rigningar og skyndileg flóð eykst hættan á mengun af flóðum vegna yfirfullra flóðfarvega og neyðarlosunar úr skólphreinsistöðvum.

Vorið 2008 var vatnsborðið orðið svo lágt í vatnsbólum Barcelona að menn fóru að huga að því að fá vatn með stórum skipum. Gerðar voru ráðstafanir til að fá sex skipsfarma af vatni og skyldi hver duga fyrir tíu ólympíusundlaugar. Vatnið átti að koma frá Tarragona í Suður-Katalóníu, Marseille og Almeria – einu þurrasta héraði Suður-Spánar. Allt átti þetta að kosta um 22 milljónir evra. Þá brá svo við – til allrar hamingju – að mikið rigndi í maímánuði, vatnsbólin fylltust og allar áætlanir um vatnsflutninga voru lagðar á hilluna. Hinsvegar tóku menn aftur upp fyrri umræður um það að beina vatni frá ám eins og Ebro og jafnvel fljótinu Rhône í Frakklandi (1).

Óskaplegir þurrkar eru á Kýpur. Vatnsþörfin hefur aukist síðastliðin 17 ár og er nú meira en 100 milljónir rúmmetra (m3) ferskvatns ári. Á síðastliðnum þremur árum voru til ráðstöfunar einungis 24 milljónir rúmmetra fyrsta árið, 39 í hitteðfyrra og 19 í fyrra.

Til að milda áhrifin var nú í sumar sótt vatn í tankskipum til Grikklands. Í september voru 29 vatnsskip búin að koma, en vatnsskortur í Grikklandi háði þessum flutningum. Stjórnvöld á Kýpur hafa gripið til neyðarráðstafana eins og þeirra að minnka vatnsframboðið um 30%.

Í Tyrklandi lækkaði vatnsborðið stöðugt í sumar sem leið, samkvæmt upplýsingum vatnsveitustofnunar ríkisins. Í vatnsbólum Istanbul voru ekki nema 28% af því drykkjarvatni sem þau eiga að geta lagt til. Í vatnsbólum Ankaraborgar, sem hefur fjórar milljónir íbúa, var ekki nema 1% af því drykkjarvatni sem áður fékkst úr því.

Í skýrslu frá vatnsyfirvöldum á Krít koma fram ískyggilegar upplýsingar um grunnvatnsstöðuna þar. Vatnsborð í vatnsberandi jarðlögum hefur lækkað um 15 metra frá 2005 vegna þess að of miklu vatni er dælt upp. Nú er meira að segja svo komið að sjór er farinn að seytla inn í bergið og mengar það vatn sem fyrir er.

Aðgerðir til að hægja á loftlagsbreytingum  og aðlögun að þeim

Gróðurhúsalofttegundir breyta loftslaginu. Gert er ráð fyrir að hiti hækki og þurrkar verði tíðari í Suður-Evrópu, en líklega verður veðurlag mildara og rakara í norður- og norvesturhluta Evrópu. Hiti mun halda áfram að hækka um allan heim.

Aðildarríkjum ESB landanna ber saman um að hækkun hita á heimsvísu megi ekki verða meira en 2 °C hærri en hann var fyrir iðnbyltinguna, því annars sé hætta á að slæmar breytingar verði á loftslagi.

Þetta er aðaltilgangurinn með aðgerðum ESB landanna til að hægja á loftlagsbreytingunum. Aðgerðirnar beinast fyrst og fremst að því að draga úr losun 'gróðurhúsalofttegunda'. Til að koma í veg fyrir að hitastigið hækki um meira en 2 °C þarf að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50% um allan heim fyrir árið 2050.

En jafnvel þótt losun hætti í dag, halda loftslagsbreytingarnar áfram lengi enn vegna þess að svo mikið hefur safnast saman af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu. Greinilegar breytingar hafa orðið nú þegar á norðurskautssvæðunum, svo að dæmi sé tekið. Við komumst ekki hjá því að fara að laga okkur að komandi breytingum. Í því felst að við verðum að kortleggja hvar mannskepnan og hin náttúrlegu kerfi eru veikust fyrir.

Aðgerðir til að hægja á loftlagsbreytingum og aðlögun að þeim eru náskyld atriði. Eftir því sem aðgerðir okkar til að hægja á loftlagsbreytingunum draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda, eftir því þurfum við minni aðlögun.

Neyðarviðbrögð eru ekki sama og aðlögun

Eitthvað verður að gera, og það fljótt, í sambandi við þá þurrka og þann vatnsskort sem nú ber svo mikið á, því tryggja þarf að fólk fái vatn. En það verður einnig að móta stefnu fyrir aðlögun til lengri tíma litið. Landsyfivöld og sveitarstjórnir gera allt sem hægt er til að tryggja nægilegt vatn: Það er verið að smíða vatnsgeyma, leggja vatnsleiðslur og reisa stöðvar sem ná saltinu úr sjónum og gera hann drykkjarhæfan.

Í Miðjarðarhafslöndunum verða menn sífellt háðari því að hreinsa salt úr sjó til að fá drykkjarvatn. Á Spáni eru nú 700 hreinsistöðvar sem vinna nóg vatn fyrir 8 milljónir manna dag hvern. Gert er ráð fyrir að salthreinsun tvöfaldist á næstu fimmtíu árum á Spáni.

Vatnsskortur er ekki einskorðaður við Suður-Evrópu. Verið er að reisa fyrstu afsöltunarstöðina í austurhluta Lundúna. Kostnaðurinn verður 200 milljónir sterlingspunda og framleiðslugetan 140 milljónir litra á dag, en það dugir fyrir 400.000 heimili. Það er hinsvegar dapurleg staðreynd að vatnsveita borgarinnar, sem stendur fyrir þessum framkvæmdum, glutrar niður mörgum milljónum lítra á dag af hreinu vatni vegna lekra vatnslagna og lélegrar uppbyggingar.

Afsöltun kann að vera raunhæfur kostur við vatnsöflun þegar til lengri tíma er litið, en vinnsla drykkjarvatns með þeim hætti er því miður mjög orkufrek. Í sumum afsöltunarstöðvum er notuð sólarorka sem verður að teljast jákvæð þróun, en það er líka dýr aðferð. Auk þess er ekki auðvelt að losna við pækilinn, sem er aukaafurð vinnslunnar, með skaðlausum hætti fyrir umhverfið.

Umsjón vatnsbirgða

Hitinn er oft yfir 40 °C hérna á sumrin og loftrakinn er stundum mjög mikill,' segir Barış frá Istanbúl. 'Yfirvöldin hérna eru miklu duglegri við að láta okkur vita núorðið hve lengi við þurfum að bíða eftir vatninu þegar þau skrúfa fyrir það – við getum skipulagt hlutina núna. Hinsvegar virðast þau gera lítið til að uppræta sjálfan vatnsskortinn – líklega geta þau ekki látið rigna meira,' segir hann að lokum.

Landsyfirvöld og sveitarstjórnir í Tyrklandi og hvarvetna í Evrópu ættu að vanda sig betur við 'stjórnun' vatnsbirgða.

Í því felst að taka til hendinni til að draga úr og hafa áhrif á eftirspurnina í stað þess að einblína á að það þurfi að auka framboðið.

Rammatilskipun um vatn (Water Framework Directive, WFD), sem er sú löggjöf sem fjallar um vatn í Evrópu og skyldar aðildarríkin til að beita verðlagningu (gjaldtöku) fyrir þjónustu sem tengist vatni, því það dugir mjög vel sem vopn í baráttunni gegn vatnssóun. Reyndar er gjaldtaka það sem best dugir til að hafa áhrif á neyslumynstur vatns, en til að tryggja virka umsjón vatnsmálanna verður einnig að grípa til sértækra ráða til að draga úr vatnstöpum og upplýsa fólk um skynsamlega notkun vatns.

Fullkomnar upplýsingar auðvelda aðlögun

Water exploitation indexVatnsöflunarvísitala (Water Exploitation Index, WEI), er gott dæmi um það hverskonar upplýsingar þarf svo að fólk fái góða yfirsýn yfir umfang og staðsetningu þess vanda sem við okkur blasir.

Í stuttu máli sýnir vísitalan það vatn sem aðgangur er að í viðkomandi landi/ svæði, borið saman við vatnsnotkunina. Þegar vísitalan er yfir 20% bendir það oftast til vatnsskorts. Eins og sést á þessu grafi teljast níu lönd vera illa haldin af 'vatnsstreitu': Belgía, England og Wales, Búlgaría, Fyrrverandi júgóslavneska lýðveldið Makedónía, Ítalía, Kýpur, Malta, Spánn og UK.

Í WEI gögnum frá Englandi kemur fram að ástandið er verst í suðausturhluta landsins og þar með í London. Upplýsingar af þessu tagi skipta verulegu máli því án þeirra verður öll aðlögun að loftlagsbreytingum miklu erfiðari. Ef við vitum hve mikið vatn er að finna á tilteknu svæði, hvaðan það kemur og hverjir nota það, gengur okkur betur að setja saman skynsamlegar aðlögunaráætlanir fyrir íbúana.

 

Horfum fram á veginn

Í væntanlegri skýrslu EEA er fjallað um Alpafjöllin, sem oft eru nefnd 'vatnsturn Evrópu' vegna þess að 40% af ferskvatni Evrópu kemur frá þeim. Hitastig hefur hækkað þar um 1,48 C° á einni öld – tvöfalt heimsmeðaltal. Skriðjöklarnir bráðna, snjólínan hækkar, og smám saman verða breytingar á því hvernig þessi fjallgarður bætir á sig vatni á veturna og losar sig við það í sumarhitunum, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni.

Alparnir hafa gífurlega þýðingu vegna vatnsins sem frá þeim kemur, ekki einungis í löndunum átta sem þeir teygja sig um, því mjög stór hluti meginlandsins er háður þeim vegna vatnsins sem fyllir stórárnar. Þannig séð má líta á Alpafjöllin sem tákngerving hins mikla aðsteðjandi vanda og þeirra aðgerða sem við þurfum að grípa til. Stefnumótun fyrir aðgerðir og aðlögun verður að fara fram á einstökum svæðum, ná yfir landamæri og allra ESB landanna. Atvinnuvegi og þjónustu sem í fljótu bragði virðast ekki eiga neitt sameiginlegt , eins og til dæmis landbúnað og ferðamannaiðnað, orkugeirann og heilbrigðiskerfið, verður að fjalla um í einu lagi.

Þegar allt kemur til alls fylgir það aðlöguninni að við verðum að ákveða upp á nýtt hvar við ætlum að búa, bæði núna og í framtíðinni. Hvaðan kemur vatnið okkar? Hvað getum við gert okkur til bjargar þegar skaðvænlega viðburði ber að höndum?

Athuganir EEA hafa leitt í ljós að yfirleitt er mest byggt á strandsvæðum. Í EEA skýrslu sem nefnist 'Hin nýja ásýnd strandhéraða Evrópu' er fjallað um það sem nefnt hefur verið Miðjaðarðarhafsveggurinn ( Med Wall á ensku) og tengist því að byggingar standa við 50% Miðjarðarhafsstranda. Þegar er farið að bera töluvert á vatnsskorti og þurrkum á mörgum þessara svæða. Meira íbuðarhúsnæði, fleiri ferðamenn og fleiri golfvellir: allt kallar þetta á meira vatn. Sömuleiðis er nú mikil uppbygging í strandhéruðum Norður- og Vestur-Evrópu, þar sem gert er ráð fyrir að sífellt verði meira um flóð, byggjast nú hratt upp

Lítið hefur miðað að koma aðlögunarmálunum að við stefnumótun ESB. Reyndar er væntanleg hvítbók frá Framkvæmdastjórn Evrópu um þetta efni á árinu 2009. Í nýlegri EEA skýrslu er tekið fram að einungis sjö af 32 EEA löndum hafi í raun tekið upp Aðlögunaráætlanir einstakra landa (National Adaptation Strategies) enn sem komið er. Hinsvegar eru öll ESB ríkin að vinna við það að útbúa, þróa áfram og koma í gang aðgerðum með tilliti til aðstæðna í hverju landi fyrir sig.

Ekki er enn búið að þróa nema að litlu leyti sameiginleg ráð til að tryggja árangursríka aðlögun, en vinna við það er að komast betur í gang en verið hefur.


Heimildir

IPCC, 2007. IPCC report, Climate Change Impacts, Adaptation and Vulnerability, April 2007.

EEA, 2006. The changing faces of Europe's coastal areas. EEA Report No 6/2006.

EEA, 2008. Impacts of Europe's changing climate — 2008 indicator-based assessment. EEA Report No 4/2008.

EEA, 2009. Adaptation to water shortages in the Alps (in preparation).

 

Footnotes

(1) Hinn 27. maí 2008 tilkynnti Umhverfisráðuneyti spænska héraðsins Katalóníu að nýafstaðnar stórrigningar hefðu komið á eftir þurrkum í héraðshöfuðborginni Barcelona, og því væru líkur á að stjórnvöld gætu aflétt takmörkunum á vatnsneyslu. Vatnshlutfall í geymum hafði verið 20% í mars en var orðið 44%.

 

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir