All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Kvikasilfur kemur fram náttúrulega í umhverfinu en venjulega er það á öruggum stað inni í steinefnum og skapar ekki neina verulega hættu. Vandamálið kemur fram vegna athafnasemi manna, sem leiðir til þess að mikið magn af kvikasilfri er losað út í umhverfið, og þetta kvikasilfur getur haldið áfram að berast um umhverfið í þúsundir ára. Kvikasilfur í vatni og setlögum er helsta áhyggjuefnið, þar sem það er í mjög eitruðu formi og dýr geta tekið það upp með auðveldum hætti, og þannig kemst það inn í fæðukeðju manna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur tilgreint 10 efni sem eru meiriháttar áhyggjuefni varðandi lýðheilsu og fjögur þessara efna eru þungmálmar: kadmíum, kvikasilfur, blý og arsen.
Notkun manna á kvikasilfri í gegnum tíðina hefur leitt til þess að hundruð þúsund tonna af kvikasilfri hafa verið losuð út í umhverfið. Magn kvikasilfurs í andrúmsloftinu er núna allt að 500% fyrir ofan náttúrulegt magn. Í höfunum er magn kvikasilfurs um það bil 200% fyrir ofan náttúrulegt magn.
Núverandi notkun á kvikasilfri er breytileg um heiminn. Í Evrópu er notkun á kvikasilfri mjög takmörkuð og helsta notkunin á næstu árum verður í raun í tannfyllingum þar sem notkun á kvikasilfri í iðnaði hefur verið bönnuð. Í öðrum heimshlutum er enn mikil notkun á kvikasilfri í iðnaði og í námuvinnslu á gulli sem er smá í sniðum.
Ein af helstu uppsprettum kvikasilfursmengunar í Evrópu og annarsstaðar en brennsla á eldsneyti í föstu formi — svo sem kolum, mó og viði — bæði í iðnaði og á heimilum. Slíkt eldsneyti inniheldur lítið magn af kvikasilfri og þegar það er brennt er kvikasilfrið losað út í umhverfið. Þessi losun er helsta uppspretta kvikasilfurslosunar í Evrópu og nær yfir starfsemi eins og orkuframleiðslu, sementsframleiðslu og framleiðslu á málmum.
Mikilvægasta leiðin fyrir útsetningu fólks er fiskur og aðrar sjávarafurðir. Þegar sjávardýr taka inn kvikasilfur hefur það tilhneigingu til að vera áfram í líkömum þeirra og aukast með tímanum. Stærri ránfiskar hafa tilhneigingu til að vera með meira magn af kvikasilfri þar sem þeir éta minni dýr sem þegar innihalda kvikasilfur. Að borða stærri ránfiska mun þar af leiðandi að jafnaði leiða til meiri inntöku á kvikasilfri samanborið við það að borða minni fiska, sem eru neðar í fæðukeðjunni.
Áhrifin á heilsuna tengjast skömmtum en helsta áhyggjuefnið eru áhrifin á fóstur og ung börn. Útsetning fyrir kvikasilfri getur átt sér stað í leginu, sökum neyslu móður á fiski og öðrum sjávarafurðum. Þetta getur haft veruleg og ævilöng áhrif á hinn vaxandi heila barnsins og taugakerfi þess, og haft áhrif á minni, málfar, athygli og aðra færni. Í Evrópu einni saman, er talið að meira en 1,8 milljónir barna fæðist á hverju ári sem eru með kvikasilfursmagn sem er fyrir ofan ráðlögð öryggismörk.
Evrópa hefur sögulega verið stórtæk þegar kemur að notkun og losun á kvikasilfri en löggjöf á síðustu 40 árum hefur dregið verulega úr notkun og losun út í umhverfið. Annarsstaðar í heiminum hefur notkun og losun á kvikasilfri aukist með tímanum, sem tengist viðvarandi efnahagsþróun og iðnvæðingu, þar sem helstu uppsprettur eru m.a. kolabrennsla og einnig námuvinnsla á gulli sem er smá í sniðum og óvélvædd.
Í október 2013 var fyrsti alþjóðlegi samningurinn á heimsvísu, Minamatasamningurinn um kvikasilfur, samþykktur til að takast á við kvikasilfursvandamálið. Samningurinn hefur verið staðfestur af 98 aðilum og hann tók gildi árið 2017. Það er of snemmt að meta áhrif Samningsins, en hann er mjög mikilvægt skref í þá átt að tryggja að það séu sameiginlegar aðgerðir á heimsvísu til að draga úr kvikasilfursmengun.
Námuvinnsla á kvikasilfri er ekki lengur stunduð í Evrópu og eftirspurn í Evrópu mun halda áfram að dragast saman á næstu árum. Losun á kvikasilfri í Evrópu verður mestmegnis vegna losunar frá brennslu, aðallega frá brennslu á eldsneyti í föstu formi eins og kolum, mó, brúnkolum og viði.
Stærsta uppspretta kvikasilfurs á heimsvísu er í námuvinnslu á gulli sem er smá í sniðum. Slík námuvinnsla er stunduð af einstaklingum eða litlum hópum, sem vinna gull á tiltölulega einfaldan og kostnaðarlítinn hátt, yfirleitt í umhverfi sem lög og reglur ná ekki yfir. Það er áætlað að yfir einn þriðji af losun á heimsvísu tengist þessari uppsprettu, þess vegna gæti það að kynna tæknilega öruggari valkosti á þessu sviði námuvinnslu leitt til umtalsverðrar minnkunar á notkun og losun.
Þrátt fyrir fyrri minnkun í notkun á kvikasilfri og losun á svæðum eins og Evrópu og Norður-Ameríku, mun magnið í umhverfi okkar líklega haldast mikið í langan tíma, sökum langs líftíma kvikasilfurs í umhverfinu og einnig vegna þess að losun kvikasilfurs er að aukast í öðrum heimshlutum. Þessar losanir geta einnig dreifst um langa vegu. Í raun á um helmingur þess kvikasilfurs sem kemur niður í Evrópu uppruna utan heimsálfunnar.
Við söfnum upplýsingum um losun á kvikasilfri í loft og vatn vegna iðnaðarstarfsemi í gegnum Evrópuskrána um losun og flutning mengunarefna (E-PRTR) og metum losun í loft á víðari grundvelli samkvæmt bæði löggjöf Evrópusambandsins og alþjóðlegum samningum.
Umhverfisstofnun Evrópu safnar einnig gögnum um mengunarmagn í vatnshlotum samkvæmt rammatilskipun um vatn. Síðustu tiltæku gögnin sem Umhverfisstofnun Evrópu gaf út sem hluta af „stöðu vatns" skýrslunni gefa til kynna að nálægt 46.000 yfirborðsvatnshlot í Evrópu uppfylli ekki þau viðmiðunarmörk á kvikasilfri sem tilgreind eru í tilskipuninni.
Umhverfisstofnun Evrópu er einnig samstarfsaðili að verkefninu Lífvöktun á mönnum í Evrópusambandinu (e. Human Biomonitoring for EU), sem hefur það að markmiði að þróa betri gögn um raunverulega útsetningu borgara fyrir efnum, þar á meðal kvikasilfri, og möguleg áhrif á heilsu.
Allar þessar upplýsingar hjálpa okkur að fylgjast með þeim árangri sem núverandi stefnumörkun í Evrópu hefur náð og þær eru einnig upplýsandi þegar kemur að þróun á nýjum stefnum á þessu sviði eins og varðandi reglugerðir um iðnað og efni, og styður einnig markmið Minamatasamningsins.
Þessi gögn eru kynnt í nýju skýrslunni sem Umhverfisstofnun Evrópu gaf út, „Kvikasilfur í umhverfinu", en þar er að finna yfirlit yfir öll þessi heilsu- og umhverfismál sem og stefnur sem tengjast kvikasilfri.
Við getum öll gert hluti til að draga úr útsetningu okkar fyrir kvikasilfri og einnig til að koma í veg fyrir losun kvikasilfurs út í umhverfið. Til dæmis bjóða innlend yfirvöld á sviði matvælaöryggis oft upp á sérstakar ráðleggingar varðandi það hvernig borgarar geta hámarkað heilsuávinning af því að borða fisk og á sama tíma takmarkað útsetningu fyrir kvikasilfri. Þetta nær yfir leiðbeiningar um neyslu á fiski fyrir barnshafandi konur og ung börn.
Fólk getur einnig rekist á búnað sem inniheldur kvikasilfur, eins og rafhlöður, lampa og rafmagnsbúnað. Við þurfum einnig að tryggja að við meðhöndlum og förgum þessum efnum á réttan hátt þannig að hægt sé að endurheimta kvikasilfrið sem þau innihalda á öruggan máta og koma í veg fyrir að það endi í umhverfinu. Við getum einnig dregið úr losun á kvikasilfri með því að brenna ekki eldsneyti í föstu formi við húshitun, þar sem aðrir valkostir eru í boði. Kvikasilfurslausar fyllingar eru einnig fáanlegar fyrir tannlækningar og með því að velja að nota slíkar fyllingar mun draga enn frekar úr notkun á kvikasilfri.
Ian Marnane
Sérfræðingur á sviði sjálfbærrar notkunar á auðlindum og iðnaðar
Umhverfisstofnun Evrópu
Viðtalið birtist í september 2018 útgáfu Fréttabréfs Umhverfisstofnunar Evrópu 03/2018
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/kvikasilfur-thralat-ogn-vid-umhverfid or scan the QR code.
PDF generated on 22 Nov 2024, 09:01 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum