All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Þann 2. desember 2015 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögu um nýja löggjöf um hringrænt hagkerfi. Löggjöfin tekur til mismunandi stiga á lífsferli vöru, frá framleiðslu og neyslu til úrgangsstjórnunar og markaðs fyrir endurunnin hráefni. Tillögurnar eru hannaðar til að koma bæði umhverfinu og efnahagnum til góða og að hámarka virði og notagildi hráefna, vara og úrgangs, stuðla að orkusparnaði og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Síðastliðinn áratug hefur löggjöf um umhverfisvernd þróast úr því að bregðast við einstökum vandamálum yfir í heildstæðari og kerfisbundnari lausnir. Löggjöfin um hringrænt hagkerfi er eitt nýjasta dæmið um slíka stefnu og er mikilvægt skref í átt að markmiði Evrópusambandsins um að lifa innan þolmarka plánetunnar.
Umhverfið okkar í Evrópu: State and Outlook 2015 (SOER2015) fjallar um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í tengslum við sjálfbærni. Neysla okkar og auðlindanotkun, bæði í Evrópu og annars staðar, er meiri en jörðin getur bætt upp fyrir hverju sinni. Umsvif í efnahagslífinu auka vissulega lífsgæði okkar og draga úr fátækt. Hins vegar menga þau umhverfið, auka gróðurhúsaáhrif, skaða heilsu manna og minnka getu plánetunnar til að sjá fyrir okkur. Loftlagsbreytingar og spár um fólksfjölgun kalla á tafarlausar og almennar aðgerðir.
Þó svo að ekkert land hafi ennþá náð að tileinka sér „lífsgæði“ innan náttúrulegra þolmarka eru samt jákvæð teikn á lofti. Evrópusambandið er byrjað að rjúfa tengslin á milli hagvaxtar og orku- og efnislegrar neyslu. Evrópubúar eru farnir að endurvinna stærri hluta af borgarsorpi og minni hluti er settur í landfyllingar. Vistvænn iðnaður (t.d. endurvinnanleg orkuframleiðsla, vatnshreinsun, mengunarvarnir í andrúmslofti o.s.frv.) hefur aukist til muna síðasta áratug og búið til störf þrátt fyrir nýliðna efnahagslægð.
Hringrænt hagkerfi stuðlar að því að minnka „innflæði“ nýrra auðlinda, einkum óendurvinnanlegra, og leggja áherslu á nýtingu, endurnýtingu og viðhaldi auðlinda í hagkerfinu, eins framarlega og unnt er, og lágmarka „útflæði“ útblásturs og úrgangs.
Skilaboðin eru skýr: Möguleg minnkun úrgangs hefur jákvæð áhrif á hagkerfið og heilsu fólks. Með því að halda öllum auðlindum sem þegar er búið að vinna í notkun myndi það ekki aðeins draga úr hráefnaþörf (hvort sem þær eru teknar innanlands eða fluttar inn), heldur myndi samkeppnishæfni aukast og umhverfisáhrif minnka. Bráðabirgðagreining Umhverfisstofnunar Evrópu sýnir að þjóðir Evrópu eru þegar farnar að grípa til aðgerða til að bæta auðlindanýtingu sína, einkum vegna efnahagslegra ástæðna vegna á hráefnisskorti.
Minni úrgangslosun, endurvinnsla og bætt almenn úrgangsstjórnun gegna lykilhlutverki við að lágmarka flæðið í og úr hagkerfinu. Aftur á móti er ekki nóg að loka hráefnishringrásinni til að koma í veg fyrir áframhaldandi umhverfisáhrif og áhrif á heilsu fólks og lífsgæði. Aðgerðir í átt að hringræns hagkerfis mega ekki einskorðast við úrgangsstjórnun og að flýta innleiðingu græns hagkerfis. Við þurfum að endurhugsa framleiðsluaðferðir okkar, neyslumynstur og förgun.
Í fyrsta lagi er visthönnun mikilvæg í tengslum við endurvinnslumöguleika og lengri líftíma vara. Við getum hannað vörur þannig að hægt sé að gera við þær með auðveldum hætti, þar sem aðeins skemmdum hlutum er skipt út og hægt er að flokka íhluti auðveldlega til að bæta endurvinnsluferlið.
Við þurfum líka að vera meðvituð um áhrif efna sem eru í vörunum okkar á heilsu og umhverfi. Visthönnun stuðlar einnig að því að efnum sem hafa mikil umhverfisáhrif er skipt út fyrir betri valkosti. Það er til dæmis ljóst að nálægð við hættuleg efni getur haft alvarleg áhrif á heilsu fólks. Við getum innleitt hreina efnahringrás til að koma í veg fyrir að fólk komist í snertingu við hættuleg efni og til að vernda vistkerfi gegn efnamengun.
Eins má nota lífræn efni, t.d. tré, korn eða trefjar, við framleiðslu fjölda vara og við orkuframleiðslu. Samt sem áður þarf að skoða innleiðingu lífrænna efna í samræmi við viðeigandi vistkerfi og heilsuáhrif. Það eru til dæmis takmörk fyrir því hversu mikinn skóg má höggva og viðarbrennsla getur haft áhrif á loftgæði.
Vistvæn nýsköpun og rannsóknir sem stuðla að nýstárlegum lausnum gegna mikilvægu hlutverki í innleiðingu hringræns hagkerfis. Nýsköpun er ekki aðeins einskorðuð við framleiðsluferlið. Það má einnig móta viðskiptalíkön með nýjum hætti. Nú þegar eru mörg dæmi um nýstárlegar lausnir sem snúa að þjónustu í stað þess að selja vörur. Þú þarft til dæmis ekki að eiga bíl til að komast leiðar þinnar. Slík þjónustumiðuð viðskiptalíkön gætu notið góðs af nýjum fjáröflunaraðferðum, þar sem fjárfesting og arðsemi fylgja ólíkum tímalínum.
Opinberir sjóðir víða um Evrópu eru þegar farnir að styrkja vistvæna nýsköpun, en þeir gætu spilað enn stærra hlutverk í þessum málaflokki. Það væri hægt að nýta fjárfestingar í innviðum, rannsóknum og borgum til að flýta fyrir innleiðingu græns hagkerfis. Áhersla á sjálfbærni ásamt skýrum fjárhags- og regluramma sendir réttu skilaboðin til allra hagsmunaaðila.
Það er ljóst að ákveðnir hópar og atvinnugeirar munu njóta góðs af innleiðingu græns, hringræns hagkerfis á meðan það mun setja þrýsting á aðra. Stefnumótandi aðilar þurfa að taka tillit til jöfnuðar, bæði í Evrópu og um heim allan, og bjóða fram hjálp til að auðvelda og stýra þeim félagshagfræðilegu umskiptum sem þörf er á.
Hans Bruyninckx
Framkvæmdastjóri EEA
Leiðari birtist í fréttabréfi EEA tölublaði nr. 2016/1, mars 2016
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/ur-urgangsstjornun-yfir-i-graent-hagkerfi or scan the QR code.
PDF generated on 22 Jan 2025, 02:56 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum