All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
News
Umferð ökutækja er helsti orsakavaldur hávaðamengunar í Evrópu, samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu, „Noise in Europe – 2020“, (hávaði í Evrópu – 2020) (LINK), og næsta áratuginn er talið að hávaðastig muni hækka bæði í þéttbýli og dreifbýli vegna aukinnar þéttbýlismyndunar og aukinna krafna um hreyfanleika. Lestir, loftför og iðnaður eru aðrar helstu uppsprettur hávaðamengunar.
Skýrslan inniheldur uppfært yfirlit yfir hávaðamengun frá tímabilinu 2012–2017. Hún inniheldur einnig hávaðaspá fyrir næstu ár ásamt tengdum áhrifum á heilbrigði í Evrópu, á grunni nýrra reglna Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um þau áhrif sem hávaði hefur á heilbrigði. Skýrslan byggir á fyrra mati Umhverfisstofnunar Evrópu á hávaða frá árinu 2014 í umfjöllun um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til við að stýra og draga úr váhrifum frá hávaða og þann árangur sem náðst hefur við að uppfylla markmið Evrópusambandsins um hávaðamengun sem fram koma í löggjöf Evrópusambandsins, þar á meðal tilskipun um hávaðamengun og sjöundu aðgerðaáætlun Evrópusambandsins í umhverfismálum.
Langvarandi váhrif frá hávaða hafa veruleg áhrif á heilbrigði. Á grunni nýrra upplýsinga frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni áætlar Umhverfisstofnun Evrópu að slík váhrif valdi 12.000 ótímabærum dauðsföllum og hafi áhrif á 48.000 ný tilvik blóðþurrðarsjúkdóma í hjarta (vegna þrenginga í kransæðum hjartans) á ári í Evrópu. Stofnunin áætlar einnig að 22 milljónir einstaklinga verði fyrir miklum og viðvarandi óþægindum og 6,5 milljónir einstaklinga þjáist af miklum og viðvarandi svefntruflunum. Samkvæmt heimildum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar byrjar hávaði að hafa áhrif á heilbrigði undir tilkynningaskyldum mörkum hávaðatilskipunar Evrópusambandsins og því er þessi tala líklega vanáætluð. Þar að auki ná upplýsingar frá þeim löndum sem falla undir ESB-tilskipunina ekki til allra þéttbýlissvæða, vega, lestarteina og flugvalla.
Fyrir utan áhrif á mannfólk er hávaðamengun einnig vaxandi ógn við villt dýralíf bæði á láði sem og legi. Hávaði getur dregið úr frjósemi, hækkað dánartíðni og hrakið dýr á hljóðlátari staði.
Þrátt fyrir nokkurn árangur aðildarríkja ESB í skrásetningu og eftirliti með fleiri hávaðasömum svæðum innan Evrópu hefur meginstefnumarkmiðum um hávaða ekki verið náð. Þar ber helst að nefna að ekki tekst að ná markmiðum fyrir árið 2020 í sjöundu aðgerðaráætluninni í umhverfismálum sem kveða á um að draga skuli úr hávaðamengun og færa hana nær ráðlögðum mörkum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um váhrif frá hávaða. Samkvæmt spám mun hávaðamengun þvert á móti aukast vegna aukinnar þéttbýlismyndunar og aukinna krafna um hreyfanleika.
Yfir 30% þeirra gagna sem áskilin eru samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins eru enn ekki fyrirliggjandi eftir að lögfestur tilkynningarfrestur rann út árið 2017. Þessar miklu tafir gefa til kynna að lönd hafi ekki gripið til viðeigandi ráðstafana gegn hávaðamengun. Í skýrslunni kemur einnig fram að skerpa þurfi á innleiðingu — sem rennir stoðum undir niðurstöður annars nýlegs mats á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á innleiðingu tilskipunarinnar.
Í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu kemur fram að lönd hafi þegar gripið til ýmissa aðgerða til að draga úr og stýra hávaðastigi en aftur móti reynist erfitt að meta ávinning af þeim þegar kemur að jákvæðum áhrifum á heilbrigði. Á meðal algengra aðgerða til að lækka hávaðastig í borgum er að skipta eldra malbiki út fyrir sléttara malbik, taka upp skilvirkari stjórnun umferðarflæðis og lækka hámarkshraða í 30 km/klst. Einnig hefur verið reynt að vekja almenning til vitundar um vandann og fólk hefur verið hvatt til að nýta hljóðlátari samgöngumáta, s.s. hjólreiðar, göngu eða rafknúin ökutæki.
Fjöldi landa, borga og svæða hefur einnig innleitt svokölluð hljóðlát svæði, oftast eru það almenningsgarðar eða önnur græn svæði sem fólk getur sótt til að komast undan ys og þys borgarinnar. Í skýrslunni segir að leggja þurfi aukna áherslu á að búa til og verja hljóðlát svæði utan borga og auka aðgengi að slíkum svæðum innan þeirra.
Váhrif hávaða á fólk eru mæld samkvæmt tilskipun um hávaðamengun (END) út frá tvenns konar viðmiðunarmörkum; mælikvarða fyrir dag, kvöld og nótt (Lden) sem mælir váhrif frá hávaðastigi sem tengt er „óþægindum“ og mælikvarða fyrir nótt (Lnight) sem ætlað er að meta truflun á svefni. Þessi viðmiðunarmörk eru hærri en ráðlögð gildi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og sem stendur er ekki til staðar fyrirkomulag sem býður upp á mælingar á árangri fyrir lægri gildin.
Frekari upplýsingar um tilskipun um hávaðamengun: https://ec.europa.eu/environment/archives/noise/directive.htm
Aðgangur að gögnum í gegnum hávaðaeftirlits- og upplýsingaþjónustu fyrir Evrópu (The NOISE Observation & Information Service for Europe): http://noise.eea.europa.eu/
Upplýsingablöð um hávaða eftir löndum:
https://www.eea.europa.eu/themes/human/noise/noise-fact-sheets
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/highlights/buist-vid-ad-fjoldi-evropubua or scan the QR code.
PDF generated on 05 Nov 2024, 12:20 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum