All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Þriðjungur vatnsnotkunar í Evrópu fer til landbúnaðar. Landbúnaður hefur áhrif bæði á magn og gæði þess vatns sem er í boði til annarra nota. Í sumum hlutum Evrópu er mengun frá varnarefnum og áburði sem notaður er í landbúnaði ennþá ein algengasta orsök rýrra vatnsgæða.
Atvinnugreinar okkar, lífsstíl og persónulegar þarfir vaxandi íbúafjölda keppa við náttúruna um hreint vatn. Loftslagsbreytingar auka á óvissuna um framboð vatns. Með spáðum breytingum á úrkomumynstri er búist við að sumsstaðar í Evrópu verði meira og annarsstaðar minna ferskvatn fáanlegt í framtíðinni. Í ljósi vaxandi eftirspurnar og loftslagsbreytinga munu margir notendur, þ.á m. náttúran, eiga erfitt með að uppfylla vatnsþarfir sínar. Þegar vatn er af skornum skammti geta atvinnugreinar og heimili þróað leiðir til að nota minna vatn, en hin vatnsháðu vistkerfi eiga á hættu að skaðast varanlega. Þetta hefði áhrif á mun fleira en dýra- og plöntulífið í kringum tiltekið vatn eða á. Það hefði einnig áhrif á okkur.
Með því að beita réttum aðferðum í landbúnaði og framkvæma stefnulausnir getum við bætt nýtingu vatns í landbúnaði verulega, sem myndi þýða að meira vatn yrði í boði til annarra nota, einkum handa náttúrunni.
Eitt svið þar sem nýjar aðferðir og stefnur geta aukið nýtingu vatns verulega er vökvun akurplantna. Í Suður-Evrópulöndum eins og Grikklandi, Ítalíu, Portúgal, Kýpur, Spáni og Suður-Frakklandi gera þurr eða hálfþurr skilyrðin að verkum að vökvun er nauðsynleg. Á þessum svæðum felast tæp 80% vatnsnotkunar landbúnaðar í vökvun.
Vökvun þarf hinsvegar ekki að vera svo vatnsfrek. Nú þegar tekst að nýta vatn betur um alla Evrópu bæði með bættri nýtingu í flutningum (það hlutfall vatns sem aflað er sem skilar sér út á akurinn) og bættri nýtingu vatns á akrinum (það vatn sem akurplönturnar nýta sem hlutfall af heildarmagni vatns sem dælt er á akurinn). Í Grikklandi t.d. hefur aukin nýting í flutningi og dreifingu leitt til áætlaðrar 95% aukningar í vatnsnýtingu miðað við eldri vökvunaraðferðir.
Stefnumörkun gegnir mikilvægu hlutverki við að hvetja landbúnaðinn til að taka upp nýtnari vökvunaraðferðir. Áður fyrr hvatti vatnsverðlagningarstefnan í sumum Evrópulöndum bændur ekki endilega til að nýta vatn vel. Bændur þurftu sjaldnast að greiða raunverulegt verð fyrir vatnið í ljósi umhverfis- og auðlindakostnaðar. Auk þess hvöttu niðurgreiðslur til landbúnaðar í krafti hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu (SLS) ESB og aðrar ráðstafanir bændur óbeint til að framleiða vatnsfrekar akurplöntur með ónýtnum aðferðum. Í héraðinu Cordoba t.d. jókst nýting vökvunar bómullarakra um u.þ.b. 40% eftir að niðurgreiðslur voru að hluta aftengdar bómullarframleiðslu árið 2004. Líklegt er að með vatnsverðlagningarkerfum sem ívilnar nýtnum notendum og niðurfellingu skaðlegra niðurgreiðslna til landbúnaðar náist fram veruleg minnkun vatns sem notað er til vökvunar í landbúnaði.
Auk breyttrar vökvunartækni má einnig ná fram sparnaði í vatnsnotkun og kostnaði með þjálfun og þekkingarmiðlunaráætlunum sem fræða bændur um vatnsnýtnari starfshætti. Á Krít t.d. náðist fram 9-10% vatnssparnaður með vökvunarráðgjafarþjónustu. Þjónustan upplýsir bændur í síma um hvenær og hvernig sé best að vökva akrana á grundvelli daglegs mat á skilyrðum plantnanna.
Með starfsháttabreytingu í landbúnaði má einnig bæta gæði vatnsins sem stendur öðrum vatnsnotendum til boða á hagkvæman hátt. Með notkun ólífræns og lífræns áburðar og varnarefna má t.d. taka á mörgum vatnsmengunarvandamálum frá landbúnaði. Að auki eru umtalsverðir möguleikar á að auka vatnsgæði um alla Evrópu með litlum eða engum áhrifum á arðsemi eða framleiðni með því t.d. að draga úr varnarefnanotkun, laga til víxlræktunaraðferðir og hanna varnarræmur meðfram vatnsföllum.
Með notkun frárennslisvatns í landbúnaði er hægt að veita meira ferskvatni til annarra þarfa, þ.m.t. náttúrunnar og heimila. Ef gæðum endurheimta vatnsins er stýrt á réttan hátt getur meðhöndlað frárennslisvatn verið gagnlegur valkostur til að uppfylla eftirspurn landbúnaðar eftir vatni.
Notkun meðhöndlaðs frárennslisvatns í landbúnaði skapar nú þegar verulegan ávinning fyrir vatnsstýringu í sumum Evrópulöndum. Á Kýpur t.d. samsvara markmiðin fyrir endurunnið vatn fyrir 2014 um 28% af vatnsþörf landbúnaðarins árið 2008. Á Gran Canaria koma 20% af vatni sem notað er í öllum atvinnugreinum frá meðhöndluðu frárennslisvatni, þ.m.t. vökvun 5.000 hektara tómataplantekra og 2.500 hektara bananaplantekra.
Fyrir framtíð þar sem er nóg vatn í boði til að mæta þörfum vistkerfisins og jafnframt nóg eftir fyrir neyslu okkar sjálfra þurfum við að marka rétta stefnu sem styður aðgerðir í þágu bættrar nýtingar. Rammatilskipun ESB um vatn (RTV) hefur stuðlað að þessum árangri með því að hvetja til breytinga á starfsháttum í landbúnaði sem getur bætt bæði vatnsmagn og -gæði í Evrópu, en frekari þróunar sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar og innlendra vatnsverðlagningarkerfa er enn þörf til að tryggja að þau styðji einnig við markmið RTV. Í Áætlun að verndun vatnsauðlinda Evrópu, sem framkvæmdastjórnin hyggst gefa út fyrir lok þessa árs, verður lögð áhersla á leiðir til að auka nýtingu vatnsauðlinda og samsvarandi stefnuvalkosti. Vatnsstjórnun í landbúnaði myndi sannarlega njóta góðs af sterkari áherslu í sameiginlegu landbúnaðarstefnunni á bætta nýtingu auðlinda og þjónustu vistkerfa.
Bætt nýting vatnsauðlinda í landbúnaði er aðeins eitt af þeim skrefum sem við þurfum að taka í því skyni að draga úr áhrifum okkar á umhverfið. Án þess skrefs getum við ekki náð fram auðlindanýtnu hagkerfi eða byggt upp sjálfbæra framtíð.
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/vatn-til-landbunadar or scan the QR code.
PDF generated on 23 Nov 2024, 01:35 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum