All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Press Release
FRÉTTATILKYNNING
Kaupmannahöfn/Brussel, 23. maí 2002
Átak til að draga úr umhverfisálagi í Evrópu gengur illa
Átak til að draga úr umhverfisálagi í Evrópu gengur skrykkjótt. Álagið heldur áfram að aukast á sumar náttúruauðlindir, einkum fiskistofna og land, samkvæmt nýjasta árlegu mati Umhverfisstofnunar Evrópu.
Umhverfis-vísbendingar 2002, sem kynntar verða í dag með ýmsum hætti í Brussel, benda í heild til jákvæðrar þróunar í öllum löndum ESB hvað snertir losun skaðlegra gróðurhúslofttegunda og tilurð úrgangs. Einnig er staðfest að vatns- og loftmengun hefur minnkað.
Losun gróðurhúsalofttegunda er 3,5% minni en 1990, jafnvel þótt tekin sé með í reikninginn lítilsháttar aukning árið 2000. Losun allmargra loftmengandi efna hefur minnkað verulega, og þótt heildarmagn úrgangs sé enn að vaxa er vöxturinn ekki eins ör og hagvöxturinn. Tilkoma margra nýrra skolphreinsistöðva dregur úr mengun í ám og vötnum.
Hins vegar kemur fram í skýrslunni að þessi heildarminnkun er í mörgum tilvikum fyrst og fremst fólgin í samdrætti í losun í örfáum löndum eða atvinnugreinum. Mörg lönd hafa alls ekki lagt neitt fram til þessarar jákvæðu þróunar og því eru framfarirnar ekki eins jafnar og æskilegt væri.
Nokkur tími líður þar til minni losun kemur fram í bættu ástandi umhverfisins. Þetta atriði og bakgrunnsmengun frá fyrri tíð og mengun frá öðrum svæðum veldur því að menn hafa enn áhyggjur af þessum málum.
Af þessum sökum eru víðlend landbúnaðarhéruð og stór náttúrleg búsvæði enn undirlögð súrnun. Fátt bendir til að eitthvað sé að draga úr ofauðgun á grunnsævi, og þeir sem búa í borgum Evrópu mega upp til hópa þola mikið af skaðlegu ósóni við jörðu og smágerðum ögnum í andrúmsloftinu.
Álagið á sumar auðlindir náttúrunnar eykst stöðugt. Þetta á einkum við um fiskstofnana. Þótt dregið hafi úr heildargetu veiðiflotans, heldur ofveiðin áfram og margar mikilvægar evrópskar fisktegundir eru í mikilli hrunhættu.
Auðlindir á landi verða enn sem fyrr fyrir miklu álagi, meðal annars vegna útþenslu borga og umferðarmannvirkja.
Á undanförnum tveimur áratugum hafa byggð svæði í helstu löndum Austur- og Vestur-Evrópu stækkað um 20 af hundraði eða þar um bil, þ.e. miklu hraðar en íbúafjöldinn (6%). Afleiðingarnar eru skemmdir eða tap náttúrlegra svæða og veruleg sundurstykkjun búsvæða dýra og gróðurs víða í Evrópu.
Domingo Jiménez-Beltrán, framkvæmdastjóri EEA, hefur þetta að segja um þessi alvarlegu mál:
"Enn er langt í það að umhverfismálin fái eðlilegt vægi þegar ákvaðanir eru teknar og enn vantar mikið á að þeim sé sýnd sama virðing og félags- og efnahagsmálunum.”
"Þess vegna skiptir svo miklu máli að umhverfisupplýsingar eins og til dæmis þessi árlega endurskoðun á ástandi umhverfismála komist til skila svo að stefnumörkun og annað sem gert er á þessu sviði sé jafnóðum lagað að breytingum og nýrri þróun. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að starfið gagnist hinu endanlega markmiði sem er sjálfbær þróun í Evrópu.”
Jiménez-Beltrán hélt áfram og bætti við:
"Árleg endurskoðun umhverfismála leiðir að jafnaði ekki í ljós neinar stórkostlegar breytingar í ástandi þeirra. Gagnsemi endurskoðunar er fólgin í því að hún afhjúpar þær ástæður sem að baki liggja og þær breytingar sem vænta má. Þá er hægt að vara við hættunum og grípa til ráðstafana.”
"Skýrsla þessa árs sýnir mismikinn árangur í þeim málum sem hún fjallar um. Ekki er hægt að benda á neinar meiri háttar breytingar í ástandi umhverfismála á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan Umhverfis-vísbendingar komu út fyrst fyrir tveimur árum.”
"Að vísu sjást þess nú nokkur merki að breytingar séu að koma fram á hinu stjórnmálalega sviði í ESB. Þetta má þakka því að farið var af stað með Sóknaráætlun fyrir sjálfbæra þróun, því að lokið var við Sjöttu framkvæmdaáætlun Evrópusambandsins fyrir umhverfismál (6EAP), og því að haldið var áfram með átak til að innlima umhverfismálin í stefnumörkun hinna ýmsu geira atvinnulífsins. Því miður verður að játa að árangurinn hefur ekki alltaf verið beysinn.”
Þrjár helstu niðurstöður Umhverfis-vísbendinga 2002 eru þessar að mati Jiménez-Beltrán:
- Sumt af því álagi sem umhverfið verður fyrir heldur áfram að vera nátengt efnahagsþróuninni. Sem dæmi má nefna losun gróðurhúsalofttegunda í sambandi við samgöngur og ferðamennsku, jarðvegsrof og rýrnun jarðvegs, orku- og efnissóun heimilanna svo og eyðingu fiskistofna vegna ofveiði. Annarskonar álag, svo sem úrgangur frá iðnaði og námugreftri, vex hægar en sem nemur hagvextinum, en eykst samt í tölum talið.
Heildartexti Umhverfis-vísbendinga 2002 ásamt yfirliti, er aðgengilegur fyrir niðurhleðslu á vef EEA http://reports.eea.europa.eu/environmental_assessment_report_2002_9/.
Leiðbeiningar fyrir ritstjóra
Um EEA
Hjá Umhverfisstofnun Evrópu er helsta uppspretta upplýsinga fyrir stefnumörkun ESB í umhverfismálum Það er markmið Umhverfisstofnunarinnar að styðja við sjálfbæra þróun og að veita þá aðstoð sem þarf til að koma á verulegum og mælanlegum framförum í umhverfismálum Evrópu með þvi að miðla tímabærum, hnitmiðuðum, hlutlægum og öruggum upplýsingum til allra sem starfa að stefnumótun og til alls almennings. Evrópusambandið setti Umhverfisstofnun Evrópu á stofn árið 1990 og hefur hún starfað í Kaupmannahöfn frá 1994. Stofnunin er stærsti aðili Evrópska netkerfisins fyrir umhverfisupplýsingar og umhverfisvöktun (EIONET), netkerfis um 600 stofnana af ýmsu tagi víðsvegar í Evrópu. Umhverfisstofnunin bæði safnar og dreifir upplýsingum og gögnum um umhverfismál í gegnum EIONET.
Umhverfisstofnunin er opin öllum þjóðum sem styðja markmið hennar. Aðildarríkin eru nú 29 alls, þ.e. ESB ríkin 15, Ísland, Noregur og Liechtenstein sem eru á Efnahagssvæði Evrópu og 11 af 13 ríkjum Mið- og Austur-Evrópu svo og ríkjum við Miðjarðarhafið, sem sækja um aðild að ESB -- Búlgaría, Kýpur, Lýðveldið Tékkland, Eistland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Rúmenía, Slóvenía og Lýðveldið Slóvakía. Umhverfisstofnun Evrópu er fyrsta stofnun ESB sem tekur við umsóknarríkjunum. Gert er ráð fyrir að ríkin tvö sem eftir eru, Pólland og Tyrkland, staðfesti aðildarsamninga sína á næstu mánuðum. Við það verða aðildarríkin 31 samtals. Aðildarviðræður við Sviss standa yfir.
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/pressroom/newsreleases/signals_2002-is or scan the QR code.
PDF generated on 23 Dec 2024, 07:54 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum