næsta
fyrri
atriði

Aukin eftirspurn í heiminum ógnar náttúrulegum vistkerfum sem sjá fyrir þörfum okkar.

Þetta er ein aðal niðurstaða úr skýrslunni Umhverfi Evrópu – Staða og framtíðarsýn (e. The European Environment — State and Outlook 2010 - SOER 2010), aðalmatsskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (e. European Environment Agency - EEA).

Almennt staðfestir SOER 2010 að umhverfismálastefna og aðgerðir þeim tengdar, bæði í Evrópusambandinu og nærliggjandi löndum, hafa skilað sér í mun betra ástandi umhverfisins. Ennþá eru verkefnin þó næg. Það kemur sífellt betur í ljós hve náttúruauðlindir  í vistkerfum okkar eru mikilvægar fyrir heilsu okkar, vellíðan og velmegun. Þær sjá okkur fyrir ýmsu sem eflir efnahagslíf okkar og skapa skilyrði fyrir sjálft lífið – hreinsa vatn, frjóvga akra, brjóta niður úrgang og tempra loftslagið, til að nefna fáein dæmi.

SOER 2010 leiðir í ljós að langvarandi kröfur til náttúruauðlinda til að fæða, klæða, hýsa og flytja fólk aukast sífellt vegna alþjóðlegs þrýstings. Þeim eru einnig ætluð ný hlutverk, svo sem við framleiðslu efna úr jurtaríkinu og til notkunar í lífrænt eldsneyti í stað kolefnis­eldsneytis. Saman ógna þessar auknu kröfur á náttúruauðlindirnar efnahagi Evrópuríkja og þjóðfélagslegri samstöðu.

SOER 2010 sýnir aukinn skilning okkar á tengslum milli loftslagsbreytinga, líffræðilegrar fjölbreytni, notkunar auðlinda og heilsufars og hvernig þetta bendir allt til aukins álags á land, fallvötn og hafsvæði. Þessi flóknu tengsl – bæði innan Evrópu og á heimsvísu – auka óvissu og áhættu hvað varðar umhverfið.

Þessi vandamál eru umtalsverð en Evrópubúar eiga samt möguleika á að varðveita náttúrulegar auðlindir sínar. Evrópulönd þurfa nauðsynlega að bæta skilvirkni í auðlindanýtingu og uppfylla betur grundvallarmarkmið Lissabon-samkomulagsins í umhverfisvernd. Leggja þarf meiri rækt við að meta umhverfið til fjár og láta það endurspeglast í verðlagningu, t.d. með umhverfissköttum. Við þurfum að auka skilning okkar á ástandi umhverfisins og framtíðarhorfum þess. Við ættum einnig að fá mismunandi hópa til að taka þátt í að byggja þekkingargrunn og koma að stefnumótun í umhverfismálum almennt. Allt þetta er þáttur í stærri grundvallarumbreytingu úr kolefnisdrifnu atvinnulífi yfir í raunverulega „grænt“ atvinnulíf í Evrópu.

Við þurfum að auka viðleitni á öllum sviðum

Þegar við skoðum hvert forgangsstefnumál Evrópusambandsins á umhverfissviðinu út af fyrir sig, er niðurstaðan sú sama í megindráttum. Okkur fer fram en ef við sýnum ekki meiri viðleitni, stofnum við velferð okkar og framtíðarkynslóða í hættu.

Hvað varðar loftslagsbreytingar, þá höfum við minnkað losun gróðurhúsalofttegunda og við erum á góðri leið með að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar vegna Kyoto-sáttmálans. Evrópusambandinu er ætlað að ná því takmarki að minnka losunina um 20% fyrir 2020 ef núverandi löggjöf er framfylgt. Við notum einnig í æ meira mæli endurnýtanlega orkugjafa og erum á áætlun með að ná því takmarki að 20% af allri orkunotkun komi úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Ef til vill er þó mikilvægast  að alþjóðlegar aðgerðir til að minnka losun gróðurhúsa­lofttegunda eru langt frá því að vera nægar til að halda meðaltalsaukningu hlýnunar í heiminum fyrir neðan 2°C. Þetta er lykilatriði, þar sem meiri aukning en tvær gráður eykur óvissu og áhættu með tilliti til náttúrunnar sem og stærðargráðu umhverfisbreytinga og getu okkar til að aðlagast.

Hvað varðar náttúruna og líffræðilega fjölbreytni, hefur Evrópa útvíkkað Natura 2000, sem er net verndarsvæða. Nú nema þau u.þ.b 18% af landi ESB. Við höfum náð árangri í að stöðva tap á líffræðilegri fjölbreytni, t.d. eru algengar fuglategundir ekki lengur í hættu. Gæði ferskvatns hafa almennt batnað og löggjöf varðandi losun í lofti og legi hafa minnkað álag á líffræðilega fjölbreytni.

Hins vegar mun ESB ekki ná takmarki sínu fyrir 2010 um að stöðva alveg tap á líffræðilegri fjölbreytni. Mengun og ofveiði hafa haft mikil áhrif á lífríkið í hafinu. Vegna mikillar veiði eru 30% evrópskra fiskistofna (sem upplýsingar eru til um) veidd meira en talið er öruggt og síðan 1985 hefur afli almennt minnkað. Vistkerfi á landi og í ferskvatni eru enn undir miklu álagi í mörgum löndum þrátt fyrir minni mengun. Skógar, sem eru mjög mikilvægir fyrir líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa, eru mjög ofnýttir.Það að auki hefur  aukinn landbúnaður haft veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Hvað varðar náttúrlegar auðlindir og úrgang, hefur úrgangsstjórnun í Evrópu færst smám saman frá því að urða úrgang yfir í endurvinnslu og forvarnir. Samt sem áður var helmingur af 3 milljörðum tonna úrgangs í ESB-27 urðaður árið 2006.

Auðlindanýting vex stöðugt,  en aukningin er þrátt fyrir það minni en aukning efnahags kerfisins. Þessi hlutfallslega aftenging er lofandi en Evrópubúar nota auðlindir samt í æ meira mæli. Í ESB-12 hefur t.d.notkun auðlinda aukist um 34% milli 2000 og 2007.  Ennþá verra er að við neytum meira en við framleiðum þar sem um 20% auðlinda sem notuð eru í Evrópu eru innflutt (sérstaklega eldsneyti og afurðir úr námum). Afleiðingin er sú að neysla Evrópubúa hefur veruleg áhrif á umhverfi þeirra landa og svæða sem flytja út þessar vörur. Aftur á móti er vatnsnotkun í Evrópu stöðug eða á niðurleið en vatnsauðlindir eru þó ofnýttar í sumum löndum og afrennslissvæðum áa (og hætta er á að þetta versni enn).

Á sviði umhverfis, heilsu og lífsgæða er ljóst að mengun vatns og lofts hefur minnkað. Merkjanlegur árangur hefur náðst í minnkun brennisteinstvísýrings (SO2) og kolmónoxíðs (CO) í lofti, einnig hefur magn nituroxíðs (NOX) minnkað verulega. Magn blýs hefur einnig minnkað umtalsvert með tilkomu blýlauss eldsneytis.

Hins vegar er  loft- og vatnsgæðum  enn ábótavant og áhrif þessa á heilsufar eru algeng. Of margir þéttbýlisbúar þurfa að búa við óhóflega mikla mengun. Of mikið svifryk og ósón (O3)  í lofti valda ennþá heilsufarsvandamálum en afleiðingar þeirra eru styttri meðalævilengd, bráðir eða langvarandi öndunar-, hjarta- og æðasjúkdómar, skertur þroski lungna í börnum og minni fæðingarþyngd. Útbreiðsla margra mengandi efna og efnasambanda, ásamt áhyggjum af langtímaskaða á heilsufari íbúa, gefa tilefni til stórtækara aðgerða á sviði mengunarvarna.

Umhverfisvandamál Evrópu eru flókin og ekki hægt að skilja þau án víðtækara samhengis.

Við lifum í, og erum háð, mjög samtengdum heimi sem samanstendur af mörgum tengdum kerfum – umhverfislegum, þjóðfélagslegum, efnahagslegum o.s.frv. Þessi samtenging þýðir að ef einn þáttur raskast, getur það haft óvænt áhrif annars staðar, raskað heilu kerfi eða jafnvel eyðilagt það alveg. Sem dæmi má nefna að þegar hitastigið hækkar, er meiri hætta á því farið sé yfir ákveðin mörk þ.a. öðrum meiriháttar breytingum er hrundið af stað, t.d. hraðari bráðnun íshellunnar á Grænlandi.  Nýlegt alþjóðlegt efnahagshrun og ringulreiðin sem skapaðist í flugsamgöngum vegna eldgoss á Íslandi sýna hvernig atvik á einu sviði geta haft áhrif á heilu kerfin.

Evrópskir stjórnmálamenn þurfa ekki aðeins að fást við flókin kerfistengsl innan álfunnar. Umbreytingaröfl á heimsvísu eru einnig á ferð sem geta haft áhrif á framtíð umhverfismála í framtíðinni – mörg hver utan áhrifasvæðis Evrópu. Til dæmis er spáð að jarðarbúar verði fleiri en níu milljarðar árið 2050 og um leið munu æ fleiri vinna sig út úr fátækt til meiri velmegunar og jafnframt meiri neyslu.

Slík þróun hefur gríðarleg áhrif á eftirspurn eftir auðlindum um allan heim. Borgir stækka og neysla eykst hratt. Um allan heim búast menn við áframhaldandi hagvexti. Nýjar þjóðir eiga eftir að láta meira að sér kveða í efnahagsmálum. Aðilar utan stjórnvalda gætu orðið áhrifameiri í stjórnmálum á heimsvísu. Gert er ráð fyrir að tækniframfarir verði æ hraðari. Þetta færir okkur fleiri tækifæri en felur einnig í sér nýjar hættur.

Aðgerðarleysi gæti haft alvarlegar afleiðingar en tækifæri gefast til að varðveita náttúruauðlindir og þjónustu vistkerfa.

Náttúrulegar auðlindir í heiminum fara nú þegar þverrandi. Á næstu árum gæti aukin eftirspurn og minnkandi framboð aukið samkeppni um auðlindir um allan heim. Þetta eykur álag á vistkerfi á heimsvísu og reynir á getu þeirra til að sjá stöðugt fyrir mat, orku og vatni.

Þrátt fyrir að  SOER 2010 bendi ekki til að hrun vistkerfa sé alveg á næsta leiti, sýnir það samt að við erum að fara út fyrir ákveðin hættumörk. Neikvæð þróun í umhverfismálum gæti að lokum leitt til stórkostlegrar og óafturkræfrar eyðileggingar á sumum vistkerfum og þjónustu sem við göngum að sem gefnum.

Nú er tímabært að hrinda mörgu að fullu í framkvæmd sem lengi hefur verið talið nauðsynlegt að gera. Evrópsk stefnumörkun í umhverfismálum hefur nú þegar haft margs konar jákvæð áhrif á efnahagslega og félagslega velferð í mörgum löndum. T.d. hefur heilsufar fólks batnað og áætlað er að um fjórðungur allra starfa í Evrópu tengist umhverfismálum. Ýtrasta eftirfylgni við umhverfisstefnu Evrópu er því mjög mikilvæg þar sem enn á eftir ná mörgum markmiðum.

Með því að sýna fram á tengsl milli ýmissa vandamála, bæði í umhverfismálum og á öðrum sviðum, hvetur SOER 2010 til þess að samþætta stefnumörkum á mismundandi sviðum til að hámarka árangur þessarar viðleitni. T.d. geta sumar aðgerðir til að minnka loftmengun einnig hjálpað í baráttunni við loftslagsbreytingar, á meðan aðrar aðgerðir geta beinlínis aukið breytingarnar. Við þurfum greinilega að einbeita okkur að aðgerðum sem styðja hvor aðra og minnka aðgerðir með neikvæðum hliðarverkunum.

Við þurfum líka að gæta betur jafnvægis milli þess að varðveita náttúruauðlindir og að nýta þær til að reka efnahagskerfið . Lykilatriðið varðandi aukna nýtni við notkun auðlinda er ‘samþætt viðbrögð’. Við þurfum að viðurkenna að núverandi neysla er ekki sjálfbær og þurfum að vinna betur úr því sem við höfum. Sem betur fer, fara hagsmunir umhverfisins og atvinnulífsins saman hér; gengi fyrirtækja fer eftir því hvernig þeim tekst að hámarka nýtingu aðfanga, á sama hátt og verndun náttúrunnar og velferð fólks byggir á því að nýta takmarkaðar auðlindir betur.

Permalinks

Skjalaaðgerðir