All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Jarðvegur er mikilvæg tenging milli hnattrænna umhverfisvandamála á borð við loftslagsbreytingar, vatnsbúskapar og glötun líffræðilegs fjölbreytileika
José Luis Rubio, formaður jarðvegsverndunarsamtaka Evrópu
Óhreinindi, leðja, leir, mold, jarðvegur: við nefnum hann mörgum nöfnum en fá þeirra lýsa honum réttilega. Í þeirri nútímaveröld sem við byggjum hafa mörg okkar glatað raunverulegum tengslum við jarðveginn. En hann er samt eins konar lifandi húð jarðarinnar, hann þekur berggrunninn og gerir líf á jörðinni mögulegt. Líkt og loft og vatn þá er jarðvegur hluti kerfisins sem nærir lífið.
Forfeður okkar voru í mun nánari tengslum við jarðveginn. Margir þeirra unnu með hann á hverjum degi. Þá sem nú gegndi jarðvegur mikilvægu hlutverki við ræktun fæðu. Það sem ekki var vitað áður fyrr var það að jarðvegurinn gegnir lykilhlutverki í loftslagsbreytingum því hann er gríðarstór náttúruleg kolefnisgeymsla.
Jarðvegur er takmörkuð auðlindHugsum okkur að jörðin sé epli(7). Skerum eplið í fjóra jafnstóra hluta og fleygjum þremur hlutum burt. Sá fjórðungur af eplinu sem eftir er táknar þurrlendi jarðar. Helmingur þessa þurrlendis er eyðimörk, heimskautssvæði eða fjalllendi* — þar sem er of heitt, of kalt eða of hálent til að rækta mat. Skerum nú fjórðunginn sem táknar þurrlendi í tvennt. Fjórir tíundu af því sem eftir er tákna svæði sem eru of grýtt eða brött eða þar sem jarðvegur er of lítill, of lélegur eða of blautur til þess að þar sé hægt að rækta matvæli. Ef við fjarlægjum líka þennan hluta er mjög lítið eftir af eplinu. Veitið eftirtekt hýðinu sem heldur utan um og verndar yfirborð eplisins. Þetta þunna lag táknar þann grunna jarðveg sem hylur jörðina. Ef hýðið er flysjað burt gefur það ákveðna hugmynd um hversu lítið það magn er af frjósömum jarðvegi sem við reiðum okkur á til að fæða allt mannkynið. Þessi frjósami jarðvegur þarf að keppa um rými við byggingar, vegi og urðunarsvæði. Hann er líka viðkvæmur fyrir mengun og áhrifum loftslagsbreytinga þannig að jarðvegurinn bíður oft lægri hlut. *Eins og lesa má hér á eftir þá gegnir stór hluti þess jarðvegs sem ekki hentar til matvælaframleiðslu samt mikilvægu hlutverki við að draga í sig CO2. |
Jarðvegur geymir tvöfalt meira magn lífræns kolefnis en gróður. Í jarðvegi í Evrópusambandsríkjunum er að finna yfir 70 milljarða tonna af lífrænu kolefni, eða sem nemur um 7% af heildarmagni kolefnis í heiminum(8). Meira en helming þess kolefnis sem bundið er í jörðu í ríkjum Evrópusambandsins er að finna í mómýrum Finnlands, Írlands, Svíþjóðar og Bretlands.
Þetta magn má skoða í samhengi við þá staðreynd að árlegur heildarútblástur kolefnis frá aðildarríkjum Evrópusambandsins nemur 2 milljörðum tonna. Því er augljóst að jarðvegur gegnir mikilvægu hlutverki þegar loftslagsbreytingar eru annars vegar. Ef jafnvel svo örlítill hluti sem 0,1% af kolefni í jarðvegi Evrópu losnaði út í andrúmsloftið myndi það jafngilda kolefnisútblæstri frá 100 milljónum fleiri bifreiðum í umferðinni. Sú aukning myndi jafngilda um helmingi þess bílaflota sem nú er til staðar í Evrópusambandinu.
Vissir þú að...
|
Efnið sem gegnir lykilhlutverki í tengingunni milli jarðvegs og kolefnisbindingar er svo kallað lífrænt efni í jarðvegi (‘soil organic matter’, SOM). Þetta er heildarmagn lifandi og dauðs efnis í jarðvegi og til þess teljast plöntuleifar og örverur. Þetta er afar verðmæt auðlind sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir bæði umhverfi og hagkerfi sökum þess að hér er um heildstætt vistkerfi að ræða.
Lífrænt efni í jarðvegi er mikilvægur þáttur í frjósemi ræktunarlands. Það virkar sem lífgjafi, einkum hvað varðar plöntur. Það bindur næringarefni í jarðveginum, geymir þau og gerir aðgengileg fyrir plöntur. Lífræna efnið er heimkynni lífvera í jarðveginum, allt frá örverum til orma og skordýra og gerir þeim kleift að umbreyta plöntuleifum og varðveita næringarefni sem plöntur og fóðurjurtir geta nýtt sér. Einnig viðheldur það uppbyggingu jarðvegsins og bætir þannig vatnssíun, dregur úr uppgufun, eykur getu jarðvegsins til að geyma vatn og kemur í veg fyrir þéttingu hans. Þar að auki flýtir lífrænt efni í jarðvegi fyrir niðurbroti mengunarefna og getur bundið þau við agnir sínar og þannig dregið úr hættunni á mengun í afrennsli.
Allar plöntur nota ljóstillífun til að nýta sér koltvísýring úr andrúmsloftinu til þess að byggja upp eigin lífmassa. Hafa ber í huga að á sama hátt og plöntur vaxa úr jörðu fyrir augum okkar fer fram álíka mikill vöxtur neðanjarðar sem við sjáum ekki. Rætur losa í sífellu ýmis konar lífræn efnasambönd út í jarðveginn og fóðra þannig örverurnar sem þar lifa.
Þetta hefur í för með sér aukna líffræðilega virkni í jarðveginum og örvar niðurbrot lífrænna efna sem þar er að finna. Þá losna steinefni sem plöntur þurfa einnig á að halda til þess að vaxa. Þetta virkar einnig í gagnstæða átt: ákveðið magn kolefnis flyst í stöðug lífræn efnasambönd sem binda það og halda því fjarri andrúmsloftinu í hundruð ára.
Það fer eftir tegund jarðvegs, loftslagi og því hvaða ræktunaraðferðum er beitt hvort árangur líffræðilegu virkninnar, sem að ofan er lýst, hefur í för með sér góðar eða slæmar afleiðingar fyrir lífrænu efnin í jarðveginum. Aukning lífrænna efna í jarðvegi myndar langtíma geymslusvæði fyrir kolefni úr andrúmsloftinu (til viðbótar við önnur jákvæð áhrif). Þegar lífrænt efni fer minnkandi hefur það hins vegar í för með sér að koltvísýringur losnar og stjórnunaraðferðir okkar hafa aukið við heildarútblástur af mannavöldum.
Þær aðferðir sem við veljum til landnýtingar hafa því mikil áhrif á samspil jarðvegs og kolefnis. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að kolefni losnar úr jarðvegi þegar graslendi, vernduðum skógarsvæðum eða náttúrulegum vistkerfum er breytt í ræktarland.
Eyðimerkurmyndun – þegar nothæfur og heilbrigður jarðvegur er þurrausinn næringu þar til hann getur ekki lengur viðhaldið lífverum og kann jafnvel að fjúka burt – er afar sterkt dæmi um einn þann vanda sem jarðvegur í allri Evrópu stendur frammi fyrir.
„Náttúrulegu aðstæðurnar: þurrkar, breytileg rigningarmynstur og úrhelli og viðkvæmur jarðvegur ásamt miklu álagi af mannavöldum hefur í för með sér að á stórum svæðum í suðurhluta Evrópu má sjá áhrif eyðimerkurmyndunar”, segir José Luis Rubio, formaður jarðvegsverndunarsamtaka Evrópu og stjórnandi jarðvegsrannsóknateymis sem starfar á vegum Valenciaháskóla og Valenciaborgar.
Í suður-, mið- og austurhluta Evrópu má nú sjá mikla tilhneigingu til eyðimerkurmyndunar á 8% landsvæðisins, eða á um 14 milljónum hektara. Þetta svæði eykst í yfir 40 milljónir hektara ef svæði í heldur minni hættu eru einnig tekin með. Þau Evrópulönd sem verða fyrir mestum áhrifum eru Spánn, Portúgal, suðurhluti Frakklands, Grikkland og suðurhluti Ítalíu(10).
„Hægfara hrörnun jarðvegs vegna veðrunar, minna innihalds lífræns efnis, aukinnar seltu í jarðveginum eða eyðileggingar á samloðun hans hefur áhrif á aðra hluta vistkerfisins – vatnslindir, útbreiðslu gróðurs, dýralíf og örverur í jarðveginum.Þannig verður til ferill sem að endingu leiðir til auðnar.
Oft er erfitt fyrir fólk að gera sér grein fyrir eyðimerkurmyndun eða koma auga á afleiðingar hennar því yfirleitt fer hún fram á lítt áberandi hátt. Áhrif eyðimerkurmyndunar á umhverfið koma fram í ræktun matvæla, auknum kostnaði vegna flóða og aurskriðna og líffræðilegum gæðum landsins hrakar. Í heild hafa þessi neikvæðu áhrif á stöðugleika vistkerfa á landi það í för með sér að eyðimerkurmyndun er einn alvarlegasti vandinn sem steðjar að umhverfi Evrópu”, segir Rubio.
Jarðvegur er afar mikilvæg og flókin náttúruauðlind en við lítum í sífellt auknum mæli fram hjá verðmæti hans. Lög Evrópusambandsins taka ekki á heildstæðan hátt á öllum þeim ógnum sem að honum steðja og sum aðildarríkin skortir sértæka löggjöf hvað varðar verndun jarðvegs.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur í mörg ár unnið að drögum að stefnumótun varðandi jarðveg. Ekki eru þó öll aðildarríkin sátt við þau drög og stefnumótunin hefur því siglt í strand. Afleiðingin er að jarðvegur nýtur ekki verndar á sama hátt og aðrir mikilvægir þættir á borð við vatn og andrúmsloft.
Í brennidepli: Mýrar eru mikilvægarVistkerfi í mómýrum ráða yfir skilvirkustu kolefnisbindingu allra vistkerfa á þurrlendi. Mómýrar eru aðeins 3% af þurrlendi jarðar, en þær geyma 30% af öllu jarðvegskolefni í heiminum. Það þýðir að mómýrar eru skilvirkasta og langvirkasta kolefnisgeymslan á jörðinni. Athafnir manna og áhrif þeirra geta þó auðveldlega truflað náttúrulegt jafnvægi framleiðslu og eyðingar og breytt mýrunum í svæði sem losa frá sér kolefni. Koldíoxíðsútblástur vegna þurrkunar, mómýra, brennslu og annarrar nýtingar er nú talinn nema a.m.k. 3000 milljón tonnum árlega – sem jafngildir yfir 10% af hnattrænum útblæstri vegna jarðefnaeldsneytis. Núverandi nýting mómýra fer yfirleitt ekki fram á sjálfbæran hátt og hefur mikil og slæm áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og loftslag (11). |
7. The Natural Resources Conservation Service, U.S. Department of Agriculture
8. European Commission: European Commission, 2008, ‘Review of existing information on the interrelations between soil and climate change’
9. http://ec.europa.eu/environment/pubs/pdf/factsheets/soil.pdf
10. Desertification Information System in the Mediterranean Basin (DISMED)
11. UNEP Report, 2011, Assessment on Peatlands, Biodiversity and Climate Change
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/jardvegur or scan the QR code.
PDF generated on 23 Dec 2024, 03:15 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum