næsta
fyrri
atriði

Niðurstöður varðandi einstök umhverfisvandamál

Page Síðast breytt 19 Apr 2016
34 min read

3. Niðurstöður varðandi einstök umhverfisvandamál


Loftslagsbreytingar

Meðallofthiti í Evrópu hefur hækkað um 0,3-0,6°C síðan árið 1900. Samkvæmt loftslagslíkönum er útlit fyrir frekari hækkanir, upp fyrir það sem var 1990, um 2°C fram til ársins 2100, og hækkunin verður meiri í Norður-Evrópu en sunnar. Meðal hugsanlegra afleiðinga er hækkun sjávarborðs, tíðari og öflugri stormar, flóð og þurrkar, breytingar á lífríki og fæðuframleiðni. Hve alvarlegar þessar afleiðingar verða fer að hluta til eftir því í hvaða mæli verður gripið til aðlögunaraðgerða á næstu árum og áratugum.

Til þess að tryggja að hiti hækki ekki meira en 0,1°C á áratug og sjávarborðið hækki ekki meira en um 2 sm á áratug (bráðabirgðamörk sem talin eru duga til sjálfbærni) verða iðnríkin að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda (koltvíoxíðs, metans, tvíköfnunarefnisoxíða og ýmissa halógensambanda) um a.m.k. 30-55% af því sem var 1990 fram til ársins 2010.

Þessi minnkun er miklu meiri en nemur þeim skuldbindingum sem iðnríkin bundust loforðum um á þriðju ráðstefnu aðila að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) í Kyoto í desembermánuði 1997, en samkvæmt þeim átti að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda í flestum Evrópuríkjum fram til ársins 2010 niður í 8% undir því sem var árið 1990. Sum ríki í Mið- og Austur-Evrópu skuldbundu sig til að minnka gróðurhúsalofttegundir um 5 til 8% fram til ársins 2010 miðað við 1990, en Rússneska sambandið og Úkraína hugðust hafa útstreymismörkin eins og þau voru árið 1990.

Óvíst er hvort ESB tekst að ná upphaflega markinu, sem sett var árið 1992 samkvæmt UNFCCC, sem fól í sér að láta útstreymi koltvíoxíðs (helstu gróðurhúsalofttegundina) ná jafnvægi árið 2000 eins og það var árið 1990, vegna þess að nú er því spáð að árið 2000 verði útstreymið 5% meira en það var árið 1990. Ennfremur gefur síðasta útspil framkvæmdastjórnar ESB, í mótsögn við Kyoto-samþykktina, um 8% minnkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2010 (varðandi sex lofttegundir, þar með talið koltvíoxíð) miðað við óbreytta þróun (fyrir Kyoto) til kynna 8% aukningu útstreymis á koltvíoxíði á tímabilinu 1990 til 2010 og verður mesta aukningin (39%) í flutningageiranum.

Tillagan um eina lykilráðstöfun á vettvangi ESB, þ.e. orku- og kolefniskatt, hefur enn ekki verið samþykkt, en sum ríki Vestur-Evrópu hafa þegar tekið upp slíka skatta (Austurríki, Danmörk, Finnland, Holland, Noregur og Svíþjóð). Ennfremur er svigrúm fyrir annars konar ráðstafanir til þess að draga úr útstreymi CO2, og um þessar mundir eru ýmis ríki í Evrópu og ESB að grípa til slíkra ráðstafana. Meðal þeirra eru orkunýtingaráætlanir, sambyggður hita- og orkubúnaður, eldsneytisskipti úr kolum í jarðgas og/eða eldivið, ráðstafanir sem beinast að áherslubreytingum í flutningum og ráðstafanir sem beinast að því að binda kolefni (auka kolefnaforðann) með skógrækt.

Notkun orku, sem mest er unnin úr jarðefnaeldsneyti, er það sem helst hefur áhrif á útstreymi koltvíoxíðs. Í Vestur-Evrópu minnkaði útstreymi koltvíoxíðs af völdum jarðefnaeldsneytis um 3% á árunum 1990 til 1995 sökum efnahagssamdráttar, endurskipulagningar iðnaðar í Þýskalandi og þess að í stað kola var farið að nota jarðgas. Orkuverð hefur verið stöðugt á undanförnum áratug og tiltölulega lágt miðað við það sem þekkst hefur, og þess vegna er mjög lítil hvatnng til að auka nýtinguna. Orkumagn (endanleg orkunotkun á hverja einingu vergrar landsframleiðslu) hefur fallið um aðeins 1% á ári síðan 1980.

Orkunotkunarmynstrið breyttist verulega á árunum frá 1980 til 1995. Orkunotkun í flutningageiranum jókst um 44%, orkunotkun í iðnaði féll um 8% og notkun annars eldsneytis jókst um 7%, sem endurspeglar í stórum dráttum vöxt í landflutningum og að horfið sé frá orkufrekum þungaiðnaði. Heildarorkunotkun jókst um 10% milli 1985 og 1995.

Framlag kjarnorku sem orkugjafa jókst úr 5% í 15% í Vestur-Evrópu á árunum 1980 til 1994, og eru Svíar og Frakkar háðir kjarnorku hvað varðar 40% af orkuþörf þeirra.

Í Austur-Evrópu minnkaði útstreymi koltvíoxíðs af völdum jarðefnaeldsneytis um 19% á árunum 1990 til 1995, einkum vegna efnahagslegrar endurskipulagningar. Orkunotkun í flutningum minnkaði um 3% í Mið- og Austur-Evrópu á þessu tímabili og um 48% í nýfrjálsu ríkjunum. Í iðnaði dró úr orkunotkun um 28% í Mið- og Austur-Evrópu og um 38% í nýfrjálsu ríkjunum. Í Mið- og Austur-Evrópu var orkumagn um þrisvar sinnum meira en í Vestur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum líklega fimm sinnum meira, svo talsverðir möguleikar eru á orkusparnaði. Miðað við óbreytta þróun er þess vænst að orkunotkun árið 2010 verði 11% minni en árið 1990 í nýfrjálsu ríkjunum og 4% meiri en árið 1990 í Mið- og Austur-Evrópu .

Framlag kjarnorku til orkubúskapar í heild jókst úr 2% í 6% í nýfrjálsu ríkjunum og 1% í 5% í Mið- og Austur-Evrópu á árunum 1980 til 1994. Í Búlgaríu, Litháen og Slóveníu er um fjórðungur allrar orku framleiddur með kjarnorku.

Útstreymi metans í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum minnkaði um 40% milli áranna 1980 og 1995. Samt sem áður er enn svigrúm til frekari minnkunar um alla Evrópu, einkum úr gasdreifikerfum og kolanámum. Einnig getur dregið úr útstreymi tvíköfnunarefnisoxíðs frá iðnaði og notkun tilbúins áburðar um alla Evrópu.

Útstreymi klórflúorkolefnissambanda (CFC) hefur minnkað hratt frá hámarki þeirra, þar eð framleiðslu þeirra og notkun hefur smám saman verið hætt. Hins vegar eykst notkun og útstreymi þeirra efna sem koma í stað þeirra, vetnisklórflúorkolefna (sem einnig eru gróðurhúsaloftegundir) og svo er einnig um lofttegundir sem tiltölulega nýlega hafa verið skilgreindar sem gróðurhúsalofttegundir, svo sem sexflúorbrennisteinsefni, vetnisflúorkolefni, flúorkolefni (SF6 , HFC og PFC) sem er hluti af þeirri „körfu" lofttegunda sem útstreymisminnkunarmörk voru samþykkt fyrir í Kyoto.

CO2 útstreymi í Evrópu, 1980-1995

CO2 útstreymi í Evrópu, 1980-1995

Heimild: Umhverfisstofnun Evrópu (EEA)– Evrópsk verkefnamiðstöð fyrir loftútstreymi (ETC/AE)

Eyðing ósons í heiðhvolfi

Alþjóðlegar pólitískar ráðstafanir til verndar ósonlaginu hafa dregið úr heimsframleiðslu ósoneyðandi efna um 80-90% af hámarksmagni. Einnig hefur dregið úr árlegu útstreymi. Hins vegar háttar svo til um verðurfarsferli í lofthjúpnum að enn sjást engar afleiðingar þessara alþjóðlegu ráðstafana hvað varðar ósonstyrkleika í heiðhvolfinu eða magn B-útfjólublárra (UV-B) geisla sem ná til yfirborðs jarðar.

Gert er ráð fyrir að mögulegur ósoneyðandi máttur allra klór- og brómtegunda (CFC, halóna o.fl.) í heiðhvolfinu nái hámarki á tímabilinu 2000 til 2010. Yfir Evrópu minnkaði ósonmagnið í lofthjúpnum um 5% milli áranna 1975 og 1995 og því áttu B-útfjólubláir geislar greiðari leið inn í neðri lög lofthjúpsins og að yfirborði jarðar.

Mikil staðbundin eyðing ósons í heiðhvolfinu á vorin hefur nýlega uppgötvast yfir Norðurskautssvæðinu. Til að mynda minnkaði heildarósonmagnið yfir Norðurheimskautinu um 40% niður fyrir venjulegt magn í mars 1997. Þessi minnkun er áþekk því sem sést hefur yfir Suðurskautssvæðinu en er ekki eins alvarleg, og undirstrikar nauðsyn þess að veita eyðingu ósons í heiðhvolfinu athygli á pólitískum vettvangi.

Flýta mætti fyrir endursköpun ósonlagsins, sem mun taka marga áratugi, með því að draga hraðar úr notkun vetnisklórflúorkolefna (HCFC) og metýlbrómíða, með því að tryggja örugga eyðingu klórflúorkolefna (CFC) í halóna í birgðageymslum og á öðrum geymslustöðum og með því að koma í veg fyrir smygl ósoneyðandi efna.

Ósoneyðandi efni í heiðhvolfinu, 1950-2100

Ósoneyðandi efni í heiðhvolfinu, 1950-2100

Heimild: RIVM, bráðabirgðagögn úr ósonskýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) 1998.


Súrnun

Nokkuð hefur dregið úr áhrifum súrnunar sem stafar af útstreymi brennisteinstvíoxíða, köfnunarefnisoxíða og ammoníaks í ferskvatn síðan Dobris-úttektin var gerð og víða sést að hryggleysingjar eru margir hverjir að ná sér á strik að nýju. Skógardauði er enn víða að aukast og þótt hann tengist ekki endilega súrnun getur langtímauppsöfnun sýru í jarðvegi hugsanlega skipt máli. Á viðkvæmum svæðum leiðir súrnun til aukins flæðis áls og þungmálma og afleiðingin er mengun grunnvatns.

Dregið hefur úr uppsöfnun sýrusambanda síðan um 1985. Hins vegar má búast við hættulegri uppsöfnun (af þeirri stærðargráðu að vænta megi skaðlegra langtímaáhrifa) á um 10% af landsvæði Evrópu, einkum í Norður- og Mið-Evrópu.

Útstreymi brennisteinstvíoxíða minnkaði um helming í Evrópu frá 1980 til 1995. Heildarútstreymi köfnunarefnis (köfnunarefnisoxíðs og ammoníaks), sem hélst svo til óbreytt milli 1980 og 1990, minnkaði um 15% milli 1990 og 1995 og er þetta ein mesta minnkun sem orðið hefur í Mið- og Austur-Evrópu og nýfrjálsu ríkjunum.

Flutningageirinn hefur orðið mesta uppspretta útstreymis köfnunarefnisoxíða, eða um 60% af heildarmagninu, á árinu 1995. Á árunum 1980 til 1994 jukust vöruflutningar á vegum um 54%; milli 1985 og 1995 jukust farþegaflutningar á vegum um 46% og í flugi um 67%.

Eftir að farið var að nota hvarfakúta í Vestur-Evrópu hefur dregið úr útstreymi í flutningageiranum. Hins vegar koma áhrif slíkra ráðstafana mjög seint í ljós vegna hægrar endurnýjunar ökutækjaflotans. Líklega er nauðsynlegt að beita skattaráðstöfunum á eldsneyti og bíla til að draga frekar úr útstreymi.

Í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum eru talsverðar líkur á aukningu einkabílaaksturs, en einnig möguleikar á að bæta orkunýtingu í flutningageiranum.

Í baráttunni gegn súrnun hafa pólitískar ráðstafanir að hluta til borið árangur:

  • Markmið samningsins um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (CLTRAP) um köfnunarefnisoxíð, þ.e. að takmarka á árinu 1994 útstreymi við það sem það var árið 1987, náðist fyrir Evrópu í heild, en svo var ekki um hvern hinna 21 aðila. Sumum samningsaðilum og einnig nokkrum án aðildar tókst hins vegar að ná talsverðri minnkun útstreymis.
  • Í Fimmtu framkvæmdaáætlun framkvæmdastjórnar ESB í umhverfismálum (5EAP) var stefnt að 30% minnkun á útstreymi köfnunarefnisoxíða á árunum milli 1990 og 2000. Aðeins hafði tekist að ná 8% minnkun um 1995 og engar líkur eru til þess að markmiðinu fyrir árið 2000 verði náð.

Búist er við að samningur um marga mengunarvalda og margs konar áhrif verði tilbúinn árið 1999. Stefnt er að því að skilgreina enn fleiri efri mörk fyrir útstreymi, á grundvelli hagkvæmni, fyrir sýruaukandi og metanlaus, rokgjörn, lífræn sambönd (NMVOC).

  • Markmið fyrsta samningsins um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa varðandi brennistein í þá veru að draga um 30% úr útstreymi á árinu 1993 miðað við 1980 náðist af öllum 21 samningsaðila og einnig af fimm sem ekki voru aðilar að samningnum. Hins vegar drógu nokkur ríki í Evrópu (t.d. Portúgal og Grikkland) ekki úr brennisteinsútstreymi í sama mæli á þessu tímabili. Hvort skammtímamarkmiðið í Öðrum brennisteinssamningnum fyrir árið 2000 næst er meira en óvíst; þörf er á frekari aðgerðum til þess að tryggja það langtímamarkmið að leyfa ekki að farið sé yfir hættumörkin.
  • Markmið Fimmtu framkvæmdaáætlunar framkvæmdastjórnar ESB í umhverfismálum varðandi breinnisteinstvíoxíð, minnkun útstreymis um 35% frá því sem það var 1985 til ársins 2000, náðist í ESB sem heild árið 1995 (40% heildarminnkun) og af flestum aðildarríkjum.

Fleiri ráðstafanir, sem beinast að því að ná langtímamarkmiði Annars samnings um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa varðandi brennistein, eru í mótun í ESB í samræmi við Fimmtu framkvæmdaáætlun framkvæmdastjórnar ESB í umhverfismálum og fela m.a. í sér minnkun brennisteins í olíuvörum, minnkun útstreymis frá stórum brennsluverksmiðjum og ákvörðun útstreymismarka fyrir ökutæki. Bráðabirgðamarkmið ESB-áætlunarinnar um súrnun, sem nú eru til umræðu, fela í sér 55% minnkun á útstreymi sýrandi efna milli áranna 1990 og 2010. Sérstaka athygli ber að veita útstreymi í flutningageiranum ef takast á að ná þessu markmiði.


Heildarsvæði þar sem uppsöfnun brennisteins og köfnunarnefnis fer yfir hættumörk.

Heildarsvæði þar sem uppsöfnun brennisteins og
köfnunarnefnis fer yfir hættumörk. Sjá kort yfir EMEP-svæðið í aðalskýrslunni

Heimild: EMEP/MSC/W og CCE


Óson í veðrahvolfi

Ósonmagnið í veðrahvolfi (frá yfirborði jarðar upp í 10-15 km hæð) yfir Evrópu er dæmigert þrisvar til fjórum sinnum meira en fyrir iðnbyltinguna, einkum vegna hinnar miklu aukningar í útstreymi köfnunarefnisoxíða frá iðnaði og farartækjum síðan á sjötta áratugnum. Veðurfræðilegur óstöðugleiki frá ári til árs kemur í veg fyrir að hægt sé að kanna hvert stefnir varðandi mikið ósonmagn á tilteknum tímabilum.

Oft er í flestum ríkjum Evrópu farið yfir þau viðmiðunarmörk sem sett hafa verið til verndar heilsu manna, gróðri og vistkerfum. Hugsanlega er hægt að rekja um 700 innlagnir á sjúkrahús í Evrópusambandsríkjum á tímabilinu mars til október 1995 (75% þeirra í Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi) til þess að ósonmagn hafi farið yfir viðmiðunarmörk sem sett hafa verið vegna heilsuverndar. Um 330 milljónir manna í Evrópusambandsríkjunum geta að minnsta kosti einu sinni á ári orðið fyrir áhrifum ósonmagns yfir hættumörkum.

Farið var fram úr hættumörkum til verndar gróðri í flestum ESB-ríkjum á árinu 1995. Nokkur lönd hafa skýrt frá því að farið hafi verið yfir mörkin lengur en 150 daga á sumum stöðum. Á sama árinu var farið yfir mörkin á öllu skóglendi og ræktanlegu landi innan ESB.

Útstreymi helstu ósonforstiga, köfnunarefnisoxíða og metanlausra, rokgjarnra, lífrænna efnasambanda (NMVOC), jókst þar til seint á níunda áratugnum og minnkaði þá um 14% milli áranna 1990 og 1994. Helsta uppspretta köfnunarefnisoxíða er í flutningageiranum. Þar er einnig helsta uppspretta metanlausra, rokgjarnra, lífrænna efnasambanda (NMVOC) í Vestur-Evrópu, en í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum er iðnaðurinn helsta uppspretta þessara sambanda.

Þótt þau mörk varðandi útstreymi köfnunarefnisoxíða, sem sett hafa verið í Samningnum um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa og í Fimmtu framkvæmdaáætluninni í umhverfismálum, væru uppfyllt mundi það aðeins fela í sér lækkun hámarksgilda ósonstyrks um 5-10%. Til þess að ná því langtímamarkmiði að aldrei sé farið yfir viðmiðunarmörk verður að draga verulega úr ósonstyrk í veðrahvolfinu í heild. Til þess að svo megi verða þarf að beita ráðstöfunum á útstreymi forstiga spilliefna (köfnunarefnisoxíða og metanlausra, rokgjarnra, lífrænna efnasambanda) yfir öllu norðurhveli jarðar. Fyrsta skrefið verður að skilgreina í hverju landi fyrir sig ný útstreymismörk samkvæmt hinum nýja samningi um margvísleg áhrif og mörg spilliefni.

Daglegt hámarksgildi ósons að sumri

Daglegt hámarksgildi ósons að sumri

Heimild: Umhverfisstofnun Evrópu (EEA)– Evrópsk verkefnamiðstöð fyrir loftútstreymir (ETC/AE)

Kemísk efni

Síðan Dobris-úttektin var gerð hefur efnaiðnaðurinn í Vestur-Evrópu haldið áfram að vaxa, og síðan árið 1993 hefur framleiðslan aukist hraðar en verg landsframleiðsla. Dregið hefur marktækt úr framleiðslu í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum síðan árið 1989 og sú þróun hefur fylgt minnkandi vergri landsframleiðslu, en síðan 1993 hefur framleiðslan að hluta náð sér á strik í sumum löndum. Niðurstaðan er sú að flæði kemískra efna um efnahagskerfi í öllum ríkjum Evrópu hefur aukist.

Gögn um útstreymi eru af skornum skammti, en kemísk efni eru dreifð um alla kima umhverfisins, að ekki sé talað um vefi manna og dýra. Á evrópska listanum yfir þekkt kemísk efni er að finna meira en 100.000 efnasambönd. Óljóst er hver hættan er sem stafar af mörgum þessara efna vegna skorts á vitneskju um styrk þeirra og hvernig þau berast um og safnast fyrir í umhverfinu og hafa síðan áhrif á menn og aðrar lifandi verur.

Nokkur vitneskja liggur þó fyrir - t.d. um þungmálma og þrávirk, lífræn efni (POP). Þótt útstreymi sumra þessara efna fari minnkandi veldur styrkur þeirra í umhverfinu enn áhyggjum, einkum á sumum mjög menguðum svæðum og í gildrum eins og Norður–Íshafinu og Eystrasalti. Enda þótt hætt sé að nota sum velþekkt þrávirk efni eru mörg önnur með áþekkum eiginleikum enn framleidd í stórum stíl.

Nýlega hafa komið upp áhyggjur vegna efna sem trufla starfsemi innkirtla: þrávirk spilliefni og nokkur lífmelmissambönd, einkum vegna þess að líkur eru á að þau trufli tímgun villtra dýra og manna. Þótt dæmi séu þekkt um slík áhrif í sjávardýrum eru enn sem komið er ekki nægar sannanir fyrir orsakasambandi milli verkana slíkra efna og áhrifa á æxlunargetu manna.

Vegna erfiðleika og kostnaðar samfara því að meta eituráhrif fjölmargra hugsanlega hættulegra kemískra efna sem notuð eru, einkum þeirra sem hugsanlega hafa áhrif á æxlunar- eða taugakerfi, beinast sumar eftirlitsáætlanir - á borð við þá sem valin var í OSPAR-sáttmálanum um verndun Norðursjávar - nú að því að minnka uppsöfnun kemískra efna í umhverfinu með því að komið verði í veg fyrir eða dregið úr notkun þeirra og útstreymi. Þess er vænst að Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna ljúki við gerð tveggja nýrra samninga um útstreymi í loft af þrem þungmálmum og sextán þrávirkum spilliefnum í Samningnum um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa frá 1998.

Síðan Dobris-matið var gert hefur í einstökum löndum og á alþjóðavettvangi verið gripið til aðgerða í því skyni að draga úr hugsanlegum áhrifum kemískra efna á umhverfið, og á það líka við um áætlanir þar sem menn draga af sjálfsdáðum úr notkun efna, skattlagningu tiltekinna kemískra efna og veitingu aðgangs að gögnum sem svipar til Eiturútstreymislistans bandaríska (US Toxic Release Inventory), eins og til dæmis í tilskipun ESB um varnir og eftirlit vegna blandaðrar mengunar. Svigrúm er til víðtækari beitingar slíkra verkfæra um alla Evrópu.

Minnkun blýútstreymis frá eldsneyti, 1990-96

Minnkun blýútstreymis frá eldsneyti, 1990-96

Heimild: Danska umhverfisstofnunin

Sorp

Heildarsorpmyndun í OECD-ríkjum Evrópu jókst um nærri 10% á árunum 1990 til 1995. Hins vegar má ætla að hluta af þessari augljósu aukningu megi rekja til bætts eftirlits og skýrslugerðar. Skortur á samræmi og ófullnægjandi gagnasöfnun valda enn erfiðleikum við það að fylgjast með hvert stefnir og að bæta mótun markmiða varðandi stefnu í sorpmálum um alla Evrópu.

Talið er að sorphirða á vegum sveitarfélaga hafi aukist um 11% í OECD-ríkjum Evrópu á árunum milli 1990 og 1995. Um 200 milljónum tonna af sorpi var safnað á vegum sveitarfélaga á árinu 1995, sem samsvarar 420 kg á mann á ári. Gögn um sorphirðu sveitarfélaga í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum eru ekki nægilega traust til þess að greina megi mynstur í þróuninni.

Þjóðverjar og Frakkar framleiddu mest af nærri 42 milljónum tonna á ári af hættulegum úrgangi sem OECD-ríki í Evrópu skýrðu frá á tímabilinu í kringum 1994. Rússneska sambandið bar ábyrgð á tveim þriðju hlutum þeirra 30 milljóna tonna af hættulegu sorpi sem framleidd voru í allri Austur-Evrópu snemma á 10. áratugnum. Þessar samtölur gefa aðeins vísbendingu vegna mismunandi skilgreininga.

Í flestum löndum grípa menn enn til ódýrasta úrræðisins við meðferð sorps, urðunar. Hins vegar er sjaldan allur kostnaður við urðun talinn með (kostnaður við að hylja sorpið er sjaldan reiknaður með) þrátt fyrir að til þessa sé varið sorpsköttum í sumum ríkjum (t.d. Austurríki, Danmörku og Stóra-Bretlandi). Sorpvarnir og -lágmörkun er í vaxandi mæli talin æskilegri sorphirðuaðferð frá umhverfissjónarmiði. Það væri allri sorphirðu til hagsbóta, einkum þegar um er að ræða hætttulegan úrgang, ef beitt væri hreinni tækni og leitast við að koma í veg fyrir sorpmyndun. Endurvinnsla er vaxandi í löndum þar sem er öflugt sorphirðukerfi er fyrir hendi.

Í mörgum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum standa menn andspænis arfleifð lélegrar sorphirðu og vaxandi sorpmyndun. Í þessum ríkjum er þörf á betri áætlanagerð og meiri fjárfestingu. Meðal mála sem leggja ber áherslu á er að bæta sorphirðu á vegum sveitarfélaga með betri flokkun sorps og betri stjórnun urðunar, hefja endurvinnslu á einstökum stöðum og beita ódýrum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir mengun jarðvegs.

Skuldbinding um að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt, lágmörkun umhverfisskaða og beiting „reglunnar um að sá sem mengar borgar skaðann" og „reglunnar um nálægð" hefur leitt til þess að ESB hefur skapað mikið úrval lagalegra verkfæra sem ætlað er að ýta undir og samræma löggjöf einstakra landa um sorp. Sum ríki í Mið-Evrópu eru að taka upp svipaðar aðferðir fyrir hvatningu aðildarferlisins að ESB. Hins vegar er löggjöf um sorphirðu enn mjög vanþróuð í flestum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum.

Hlutur ríkja með eftirfarandi verkfæri í löggjöf um sorpmál

Hlutur ríkja með eftirfarandi verkfæri í löggjöf um
sorpmál

Heimild: Umhverfisstofnun Evrópu

Fjölbreytni lífríkis

Ógnin gagnvart lífríki Evrópu er enn alvarleg og þeim tegundum fjölgar enn sem eru í hnignun. Í mörgum ríkjum er allt að helmingur þekktra tegunda hryggdýra í hættu.

Meira en þriðjungur fuglategunda í Evrópu er í hnignun, alvarlegast er ástandið í Norðvestur- og Mið-Evrópu. Þetta stafar einkum af því að búsvæði þessara tegunda hafa skaðast vegna breyttrar landnýtingar, sérstaklega vegna aukinnar þaulræktunar í landbúnaði og skógrækt, aukinna samgöngumannvirkja, vatnsöflunar og mengunar.

Hins vegar verður vart fjölgunar í stofnum nokkurra dýrategunda sem tengjast atvinnustarfsemi manna, og nokkrar tegundir plantna sem þola gnægð næringarefna eða mikla súrnun hafa aukið útbreiðslu sína. Nokkrar tegundir varpfugla hafa einnig náð að rétta við á svæðum þar sem stundaður er lífrænn landbúnaður. Aðkoma utanaðkomandi tegunda veldur vandamálum á búsvæðum við hafið, í vötnum og ám og á landi.

Rýrnun votlendis er mest í Suður-Evrópu, en mikið tapast einnig á mörgum landbúnaðar- og þéttbýlissvæðum í Norðvestur- og Mið-Evrópu. Meginástæðurnar eru landgræðsla, mengun, framræsla, afþreying og þéttbýlismyndun. Nokkur stór og mörg minniháttar enduruppbyggingarverkefni í ám, vötnum, mýrum og fenjum bæta að nokkru leyti upp þessa rýrnun, einkum þó í litlum mæli.

Útbreiðsla sandalda hefur dregist saman um 40% á þessari öld, einkum meðfram vesturströnd Evrópu; einn þriðji samdráttarins átti sér stað um miðjan áttunda áratuginn. Meginástæðurnar eru þéttbýlismyndun, notkun landsvæða til afþreyingar og skógrækt.

Skóglendi fer vaxandi í heild og svo er einnig um timburframleiðslu. Í stað dreifðrar skógræktar, sem áður var algengust, er nú í æ ríkari mæli stunduð þaulræktun undir samræmdri stjórn. Ræktun framandi tegunda eykst enn. Mikil rýrnun gamals, náttúrulegs og hálfnáttúrulegs skóglendis hefur haldið áfram. Mest af gömlum og nánast ósnertum skógum er nú að finna í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum, þótt annars staðar séu minni svæði. Skógareldar eru enn vandamál umhverfis Miðjarðarhafið, þótt svæðið hafi minnkað sem orðið hefur fyrir barðinu á þeim. Fyrirbrigðið sjálfbær skógrækt er að ryðja sér til rúms í nýtingu og stjórnun skógarsvæða, en almenn áhrif þessa á fjölbreytni lífríkis eiga eftir að koma í ljós.

Þar eð landbúnaður er orðinn æ hnitmiðaðri og plöntun trjáa hefur verið haldið áfram á svæðum sem gefa litla uppskeru eru hálfnáttúruleg búsvæði nálægt landbúnaðarsvæðum, svo sem engjar, á hröðu undanhaldi eða í hnignun. Þessi búsvæði voru áður fyrr mjög útbreidd í Evrópu og voru afsprengi dreifðrar akuryrkju þar sem lítið var um áburðargjöf. Nú verða þessi svæði fyrir barðinu á ofgnótt næringarefna og súrnun. Þegar oft ríkulegt plöntu- og dýralíf hefur horfið hefur alvarlega dregið úr fjölbreytni lífríkis á opnum landsvæðum.

Á alþjóðavettvangi og í einstökum löndum hefur verið gripið til fjölmargra ráðstafana og lagalegra úrræða í því skyni að vernda tegundir og búsvæði. Í heild hefur með þessu móti tekist að vernda umtalsverð land- og hafsvæði og bjarga fjölda tegunda og búsvæða, en beiting slíkra úrræða er oft torveld og seinvirk, og ekki hefur enn tekist að vinna gegn almennri hnignun. Á Evrópuvetttvangi er framkvæmd Natura 2000-tengslanetsverkefnisins á völdum stöðum innan ESB og fyrirhugaðs EMERALD-tengslanets í kjölfar Bernarsáttmálans annars staðar í Evrópu veigamestu aðgerðirnar um þessar mundir.

Í heild er varðveisla fjölbreytni lífríkis oft talin skipta minna máli en efnahagslegir og félagslegir hagsmunir til skemmri tíma í þeim geirum sem hafa mest áhrif á fjölbreytnina. Ein meginhindrunin fyrir því að tryggja að markmið varðveislu nái fram að ganga er enn þörfin á að sjónarmiðum varðandi fjölbreytni lífríkis sé komið á framfæri á öðrum sviðum. Mat á samanlögðum umhverfisáhrifum af völdum stefnu eða áætlana getur ásamt náttúruverndaraðgerðum verið mikilvægur liður í slíkri samþættingu.

Ástand fugla

Ástand fugla

Heimild: Umhverfisstofnun Evrópu (EEA)-Evrópsk verkefnamiðstöð fyrir náttúruvernd (ETC/NC)

Ár og vötn

Almennt hefur verið dregið úr heildarvatnstöku í mörgum ríkjum síðan árið 1980. Í flestum ríkjum hefur vatnsöflun til iðnaðarnota minnkað hægt síðan 1980 vegna þess að horfið hefur verið frá iðnaði sem notar mikið af vatni, vegna vaxtar þjónustugreina, vegna bættrar tækni og aukinnar endurvinnslu. Engu að síður er eftirspurnin á þéttbýlissvæðum enn umfram framboð og í náinni framtíð getur orðið vatnsskortur. Einnig getur vatnsbúskapur í framtíðinni orðið fyrir áhrifum af völdum loftslagsbreytinga.

Landbúnaðurinn er helsti notandi vatns í löndunum við Miðjarðarhafið, einkum til áveitu. Svæði sem njóta áveitu og svæði sem nýtt eru til flutnings á áveituvatni hafa stækkað stöðugt síðan 1980. Í löndum Suður-Evrópu eru um 60% alls vatns sem aflað er notað til áveitu. Á sumum svæðum er taka grunnvatns meiri en aðrennslið í vatnsæðina og því lækkar grunnvatnsborðið, votlendi spillist og sjór ryður sér leið inn. Meðal leiða til að draga úr eftirspurn eftir vatni í framtíðinni er að bæta nýtingu vatns, verðlagning og stefnan í landbúnaðarmálum.

Þrátt fyrir að sett hafi verið markmið varðandi vatnsgæði í ESB og athygli verið beint að gæðum vatns í Umhverfisaðgerðaáætluninni fyrir Mið- og Austur-Evrópu hefur ekki orðið nein heildarframför í gæðum áa síðan 1989/90. Í Evrópuríkjum sést að þróunin tekur mismunandi stefnu og ekkert landfræðilegt mynstur virðist vera fyrir hendi. Ástandið hefur þó skánað nokkuð síðan á áttunda áratugnum í þeim ám þar sem mengun hefur verið hvað mest.

Fosfór og köfnunarefni valda enn ofauðgun stöðuvatna. Umbætur í meðferð frárennslis og minnkun útstreymis frá stórum iðnfyrirtækjum á árunum milli 1980 og 1995 hafa valdið því að dregið hefur úr heildarútstreymi fosfórs í árnar um 40%, og 60% í nokkrum ríkjum. Fosfórmagn í stöðuvötnum minnkaði verulega, einkum í þeim vötnum þar sem ástandið hafði verið verst. Vænst er enn frekari bata vegna þess að endurbótatíminn getur, sérstaklega í vötnum, verið mörg ár. Á u.þ.b. fjórðungi athugunarstaða við ár er fosfórmagnið enn tíu sinnum meira en í ám þar sem vatnsgæði eru í lagi. Köfnunarefni, en meginuppspretta þess er landbúnaður, er ekki eins mikið vandamál í ám, en það getur valdið vandamálum þegar það berst til sjávar; þörf er á meiri stjórnun á útstreymi þess í því skyni að vernda hafið.

Gæði grunnvatns rýrna vegna aukins innihalds nítrata og skordýraeiturs úr landbúnaði. Nítratmagn er lítið í Norður-Evrópu en mikið í nokkrum ríkjum í Vestur- og Austur-Evrópu þar sem magnið fer oft yfir leyfileg mörk samkvæmt reglum ESB.

Milli áranna 1985 og 1995 dró úr notkun skordýraeiturs í ESB, en það gefur ekki endilega vísbendingu um minni umhverfisáhrif því breyting hefur orðið, á því hvaða efni eru notuð. Magn tiltekinna tegunda skordýraeiturs fer oft yfir leyfileg mörk ESB. Einnig hefur verið skýrt frá talsverðri mengun af völdum þungmálma, kolvatnsefna og vetnisklórkolefna í mörgum ríkjum.

Samþættar aðgerðir til verndar vötnum og ám eru vel á veg komnar á mörgum svæðum í Evrópu, t.d. umhverfis Norðursjó, Eystrasalt, Rín, Elbe-fljót og Dóná. Þótt margt hafi tekist vel verður betri samþætting umhverfis- og efnahagsmála ofarlega á dagskrá í framtíðinni.

Stefnan í landbúnaðarmálum verður einkum lykillinn að því að fást við áhrif frá ýmsum uppsprettum, en slíkt verður örðugt af tæknilegum og pólitískum ástæðum. Þótt umbæturnar samkvæmt sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins séu nýttar til þess að koma við aðferðum við að draga úr næringarefnum þarf að gera fleira, t.d. í því skyni að tryggja að aðferðum á borð við að hvíla akurlendi sé beitt svo að hagur umhverfisins verði sem mestur.

TilskipanirTilksipan ESB um meðferð frárennslis frá borgum og um nítrat ættu að geta skilað verulegum umbótum í gæðum, en árangurinn er háður því í hve miklum mæli aðildarríkin benda á viðkvæm og berskjölduð svæði. Í tillögu að rammatilskipun um vatn er gerð krafa um samþættar áætlanir í stjórnun og umbótum. Ef þær tilskipanir eru framkvæmdar á svipaðan hátt í öllum ríkjum Evrópusambandsins gætu þær ásamt frekari tengingu við stýringu eftirspurnar leitt til augljósra umbóta í gæðum vatns og sjálfbærrar stýringar vatnsauðlinda.

Framboð á ferskvatni í Evrópu

Framboð á ferskvatni í Evrópu

Heimild: Hagstofa ESB, OECD, Vatnafræðistofnunin


UMHVERFI Á HAFI OG VIÐ STRENDUR

Þau hafsvæði sem mesta ógn steðjar að eru Norðursjór (ofveiði, ofauðgun og spilliefni), Íberíuhafið (þ.e. sá hluti Atlantshafsins sem er meðfram vesturströnd Evrópu, þar með talinn Biscayaflói: ofveiði og þungmálmar), Miðjarðarhaf (mikið magn næringarefna á einstökum stöðum, mikið álag á ströndum og ofveiði), Svartahaf (ofveiði og hraðfara aukning næringarefna), Eystrasalt (mikið magn næringarefna, spilliefni og ofveiði).

Ofauðgun, sem einkum stafar af umframnæringarefnum úr landbúnaði, veldur miklum áhyggjum sums staðar á evrópskum hafsvæðum. Magn næringarefna er almennt það sama og það var í byrjun tíunda áratugarins. Aukning köfnunarefnisútstreymis, og þar af leiðandi aukið efnainnihald í sjónum við sumar strendur Vestur-Evrópu, virðist tengjast mikilli úrkomu og flóðum á tímabilinu 1994 til 1996. Á flestum öðrum hafsvæðum var ekki unnt að greina neinar skýrar vísbendingar um innihald næringarefna. Hins vegar bárust næringarefni frá vatnaskilum Dónár í Svartahaf og jókst næringarefnainnihald af þeim sökum u.þ.b. tífalt milli áranna 1960 og 1992.

Mengun setlaga og lífríkis af völdum kemískra efna virðist vera algeng á öllum evrópskum hafsvæðum. Aðeins takmörkuð gögn lágu fyrir og þau vörðuðu flest Vestur- og Norðvestur-Evrópu. Vart hefur orðið aukningar (umfram það sem eðlilegt er í náttúrunni) á þungmálum og fjölklórbífenýli (PCB) í fiski og setlögum og innihaldið er mikið nálægt útstreymisstöðum. Uppsöfnun þessara efna í lífríkinu getur valdið mikilli ógn við vistkerfi og heilsu manna (eins og lýst er í kaflanum um kemísk efni).

Í heild er myndin af olíumengun mjög brotakennd og ekki er unnt að greina með traustum hætti nein teikn á lofti. Aðaluppspretturnar eru á landi og efnin berast til sjávar um árnar. Þótt það gerist æ sjaldnar að olía streymi út veldur lítið og stundum mikið olíuútstreymi á svæðum með mikilli umferð báta talsverðum staðbundnum skaða, einkum vegna þess að strendur og sjófuglar verða löðrandi í olíu og sjávarafli og skelfiskur spillist. Hins vegar er engin sönnun fyrir óbætanlegum skaða á vistkerfum hafsins, hvorki af völdum mikils eða langvarandi útstreymis olíu.

Mjög víða er fiskur í sjónum ofveiddur, en alvarlegu vandamálin er einkum að finna í Norðursjó, Íberíska hafinu, Miðjarðarhafi og Svartahafi. Fiskveiðiflotinn hefur hættulega umframveiðigetu og nauðsynlegt er að draga um 40% úr veiðigetunni til þess að veiðin samsvaraði þeim fiskauðlindum sem fyrir hendi eru.


Köfnunarefnis- og fosfórútstreymi

Köfnunarefnis- og fosfórútstreymi

Heimild: Umhverfisstofnun ESB - Evrópsk verkefnamiðstöð fyrir haf og strendur (ETC/MC)

JARÐVEGSRÝRNUN

Greindir hafa verið um 300.000 staðir í Vestur-Evrópu sem hugsanlega eru mengaðir, en talið er að slíkir staðir í Evrópu sé miklu fleiri.

Þótt í Umhverfisáætlun fyrir Evrópu sé gerð krafa um úttekt á menguðum stöðum er ekki til tæmandi yfirlit í mörgum ríkjum. Erfitt er að meta umfang vandamálsins vegna skorts á samræmdum skilgreiningum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að undirbúa hvítbók um ábyrgð í umhverfismálum; forsenda fyrir því að henni sé fylgt eftir væru samræmdar skilgreiningar. Í flestum ríkjum Vestur-Evrópu hefur verið komið á rammareglum sem beinast að því að koma í veg fyrir óhöpp í framtíðinni og hreinsa upp mengun sem fyrir er.

Í Austur-Evrópu felst alvarlegasta hættan í jarðvegsmengun umhverfis yfirgefnar herstöðvar. Flest ríkjanna á svæðinu hafa hafið mat á tengdum vandamálum. Hins vegar er enn í mörgum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum eftir að móta reglur og efnahagslegan ramma sem nauðsynleg eru til að fást við mengaða staði.

Annað alvarlegt vandamál er tap á landsvæðum vegna þess að þau hyljast mannvirkjum á borð við athafnasvæði iðnfyrirtækja og samgöngu- og veitumannvirki og slíkt takmarkar möguleika manna í þessa veru í framtíðinni.

Jarðvegsrof fer vaxandi. Um 115 milljónir hektara spillast vegna vatnsrofs og 42 milljónir hektara vegna uppblásturs. Vandamálið er stærst á Miðjarðarhafssvæðinu vegna viðkvæmra umhverfisaðstæðna þar, en slík vandamál er að finna í flestum ríkjum Evrópu. Jarðvegsrof eykst þegar hætt er að nota land eða skógar brenna, einkum á jaðarsvæðum. Skortur er á áætlunum á borð við landgræðsluáætlanir í baráttunni við hraðfara jarðvegsrof.

Aukin selta í jarðvegi hefur áhrif á nærri 4 milljónir hektara lands, einkum á Miðjarðarhafssvæðinu og í ríkjum Austur-Evrópu. Aðalástæðurnar eru ofnýting vatnsauðlinda til áveitu í landbúnaði, fjölgun íbúa, þróun iðnaðar og þéttbýlis og vöxtur ferðamannaþjónustu á strandsvæðum. Megináhrifin á akurlendum eru minni uppskera og jafnvel að ræktun mistakist alveg. Í mörgum ríkjum er skortur á áætlunum í baráttunni við aukna seltu í jarðvegi.

Jarðvegsrof og aukin selta í jarðvegi hafa aukið hættuna á eyðimerkurmyndun á viðkvæmustu svæðunum, einkum á Miðjarðarhafssvæðinu. Upplýsingar eru af skornum skammti um útbreiðslu eyðimerkurmyndunar og hve alvarleg hún er; frekari vinna er nauðsynleg í því skyni að hindra óheillaþróun, hugsanlega innan ramma sáttmála Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn eyðimerkurmyndun.

Fyrirliggjandi gögn um fjölda mengaðra og hugsanlega mengaðra staða

Iðnaðarsvæði Sorphaugar Herstöðvar Hugsanlega mengaðir staðir Mengaðir staðir
yfirgefin starfandi yfirgefin starfandi sannreynt áætlaður fjöldi sannreynt áætlaður fjöldi
Albania
  •  
  •  
  •  
  •  
78
Austurríki
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
28.000 ~80.000 135 ~1.500
Belgía/flamlendska
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
4.583 ~9.000
Belgía/vallónska
  •  
  •  
  •  
  •  
1.000 5.500 60
Danmörk
  •  
  •  
  •  
  •  
37.000 ~40.000 3.673 ~14.000
Eistland
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
~755
Finnland
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
10.396 25.000 1.200
Frakkland
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
300.000 895
Þýskaland
  •  
  •  
  •  
  •  
191.000 ~240.000
Ungverjaland
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
600 10.000
Ítalía
  •  
  •  
  •  
  •  
8.873 1.251
Litháen
  •  
  •  
  •  
  •  
~1.700
Lúxemborg
  •  
  •  
616 175
Holland
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
110.000
-120.000
Noregur
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
2.300
Spánn
  •  
  •  
  •  
  •  
4.902 370
Svíþjóð
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
7.000 2.000
Sviss
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
35.000 50.000 ~3.500
Stóra-Bretl. ~100.000 ~10.000

Heimild: Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) – Evrópsk verkefnamiðstöð fyrir jarðveg (ETC/S)

ÞÉTTBÝLISUMHVERFI

Þéttbýlismyndun heldur áfram þrátt fyrir þá staðreynd að um þrír fjórðu íbúa Vestur-Evrópu og nýfrjálsu ríkjanna og tæplega tveir þriðju þeirra í Mið- og Austur-Evrópu búa nú þegar í borgum.

Mikil aukning í samgöngum með einkabílum og auðlindakrefjandi neysla eru meginógnin við þéttbýlisumhverfi og, þar af leiðandi, við heilbrigði manna og farsæld. Í mörgum borgum eru bílar notaðir við meira en 80% af tæknivæddum samgöngum. Spár um aukningu á flutningum í Vestur-Evrópu gefa til kynna að, miðað við óbreytta þróun, geti eftirspurn eftir farþega- og vöruflutningum á vegum nærri tvöfaldast á árunum 1990 til 2010, bílum fjölgað um 25-30% og akstur hvers bíls á ári aukist um 25%. Þess er vænst að flutningar í borgum og bílaeign í borgum Mið- og Austur-Evrópu aukist á næsta áratug, og samhliða eykst orkunotkun og útstreymi sem tengist flutningum.

Í heild hafa loftgæði í flestum evrópskum borgum aukist. Árlegt blýinnihald féll skyndilega á 10. áratugnum vegna minnkandi blýinnihalds í bensíni, og vísbendingar eru um að einnig dragi úr magni annarra spilliefna. Engu að síður hafa borgir í Mið- og Austur-Evrópu tilkynnt minniháttar aukningu á blýmagni á síðastliðnum fimm árum, og stafar hún af aukinni umferð. Fyrirhugað afnám blýnotkunar í bensíni getur leyst þetta vandamál.

Óson er hins vegar viðvarandi stórt vandamál í sumum borgum og er ósonmagnið mikið á stundum sumarið á enda. Flestar borgir, sem á annað borð birta upplýsingar, skýra frá því þegar magn brennisteinsoxíðs, koleinoxíðs og svifagna fer yfir viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Fá gögn eru fyrirliggjandi um bensen, en nokkuð algengt virðist vera að magnið fari yfir viðmiðunarmörk WHO um loftgæði.

Framreikningur þessara upplýsinga, miðað við allar 115 stórborgir í Evrópu, sýnir að um 25 milljónir manna verða fyrir mengunarmóðu að vetri til (farið yfir viðmiðunarmörk varðandi SO2 og svifagnir). Samsvarandi fjöldi manna, sem verða fyrir mengunarmóðu að sumri til (sem tengist ósoni), er um 37 milljónir, og nærri 40 milljónir manna verða fyrir því a.m.k. einu sinni á hverju ári að farið sé fram úr viðmiðunarmörkum WHO.

Í Vestur-Evrópu eru helstu uppsprettur loftmengunar nú vélknúin farartæki og brennsla loftkennds eldsneytis þar sem iðnrekstur og brennsla kola og fosfórríks eldsneytis voru áður ráðandi. Vegna þess að búist er við verulegri aukningu á flutningum er þess einnig vænst að útstreymi frá flutningum aukist og þá eykst loftmengun í borgum. Í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum verða svipaðar breytingar, en ekki eins hraðfara.

Um 450 milljónir manna í Evrópu (65% íbúanna) verða fyrir miklum umhverfishávaða (yfir Equivalent Sound Pressure Levels (Leq) 24h 55dB(A)). Um 9,7 milljónir manna verða fyrir óviðunandi hávaða (yfir Leq 24h 75dB(A)).

Vatnsneysla hefur aukist í nokkrum borgum Evrópu: um 60% af stórborgum Evrópu ofnýta grunnvatnsauðlindir sínar og vatnsframboð, en gæði vatns geta haft veruleg áhrif á þróun þéttbýlis í ríkjum þar sem er vatnsskortur, einkum í Suður-Evrópu. Nokkrar borgir í Norður-Evrópu drógu hins vegar úr vatnsnotkun. Almennt mætti nýta vatnsauðlindir betur, þar eð aðeins lítill hluti vatns til heimilisnota er notað til drykkjar eða matreiðslu og mikið magn (frá 5% og jafnvel meira en 25%) fer forgörðum vegna leka.

Vandamál í þéttbýli einskorðast ekki við borgirnar. Æ stærri landsvæði eru nauðsynleg til að veita íbúum þeirra allt sem þeir þurfa og taka við úrgangi og útstreymi frá þeim.

Þrátt fyrir framfarir í stýringu umhverfismála í evrópskum borgum eru mörg vandamál enn óleyst. Á síðastliðnum fimm árum hafa æ fleiri forsvarsmenn borga leitað leiða til að stuðla að sjálfbærri þróun í samræmi við hina staðbundnu stefnu í Dagskrá 21, þar sem er að finna ráð til að draga úr notkun vatns, orku og efnis, skipuleggja nýtingu lands og flutninga betur og beita efnahagslegum ráðstöfunum. Fleiri en 290 borgir hafa nú þegar gengið til liðs við átakið Sjálfbærar borgir og bæir í Evrópu.

Enn skortir gögn um marga þætti í borgarumhverfinu - t.d. vatnsneyslu, sorphirðu á vegum sveitarfélaga, meðhöndlun frárennslis, hávaða og loftmengunar – og þau nægja t.d. ekki til viðtæks mats á breytingum í umhverfismálum borga í Evrópu.

Árlegt meðalmagn NO2, 1990-95

Árlegt meðalmagn NO2, 1990-95

Heimild: Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) -–Evrópsk verkefnamiðstöð fyrir loftgæði (ETC-AQ)

SLYS AF TÆKNILEGUM EÐA NÁTTÚRULEGUM ORSÖKUM

Í Evrópusambandinu hefur árlegur fjöldi meiriháttar slysa í iðnrekstri, sem skráð eru á hverju ári, verið í stórum dráttum stöðugur síðan 1984. Þar eð endurbætur hafa orðið á tilkynningum um slys, og iðnrekstur hefur aukist, er líklegt að slysum hafi fækkað miðað við hverja rekstrareiningu. Ekki eru fyrirliggjandi gögn um slys í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu eða nýfrjálsu ríkjunum.

Samkvæmt alþjóðlegri skrá um kjarnorkuslys (INES) á vegum Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar hafa ekki orðið nein „slys" (INES–stig 4-7) í Evrópu síðan 1986 (Tsérnobil - INES stig 7). Flest skráðra atvika hafa verið „frávik" (INES–stig 1), og nokkur „slys" (INES–stig 2-3).

Um allan heim hefur á síðastliðnum áratug dregið verulega úr stórum olíumengunarslysum. Á síðastliðnum árum hafa þrjú stærstu olíumengunarslysin í heiminum til þessa orðið í Vestur-Evrópu. Hið mikla olíuútstreymi sem varð í þeim var mikill hluti heildarolíuútstreymisins.

Viðvarandi uppgangur er í margs konar starfsemi, sem getur stuðlað að stórslysum, og ýmis starfsemi af þessu tagi og mannvirki henni tengd standa æ berskjaldaðri gagnvart slysum af völdum náttúrunnar. Í Seveso II-tilskipuninni, sem er víðtæk og alhliða í umfjöllun sinni, er athyglinni beint að því að koma í veg fyrir slys og þar er að finna margt í því stoðkerfi sem nauðsynlegt er fyrir betri áhættustjórnun. Nú þarf að koma því í gagnið í iðnrekstri og hjá stjórnvöldum og skipulagsyfirvöldum. Þar er einnig að finna líkan fyrir Austur-Evrópu þar sem ekkert slíkt almennt stoðkerfi er til á landsvísu. Hins vegar er einnig almenn þörf á að fjalla um aðra áhættu en þá sem stafar af iðnaði.

Óvenju mörg flóð hafa orðið á tíunda áratugnum sem valdið hafa mikilli eyðileggingu og manntjóni. Langlíklegasta skýringin eru náttúrulegar breytingar á vatnsflæði, en áhrifin kunna að hafa magnast fyrir afskipti manna af hringrás vatnsins.

Olíumengunarslys í Evrópu, 1970-1996

Olíumengunarslys í Evrópu, 1970-1996

Heimild: Samtök olíuskipaeigenda um mengun ITOPF

------------

Top
To general conclusions

Permalinks

Skjalaaðgerðir