All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
„Í gær fylgdi ég hópi fjallgöngumanna upp á Matterhornfjall í Sviss. Við fórum upp Hornlihrygginn. Það er fræg leið sem fyrst var klifin árið 1865 og ég fer þá leið á hverju sumri. Þessar algengu leiðir verða sífellt hættulegri og nokkrum þeirra hefur þegar verið lokað. Sífrerinn hefur haldið berginu saman í hundruð þúsunda ára, en nú er hann að bráðna. Hann bráðnar á daginn og frýs að næturlagi, og þetta veldur því að bergið molnar. Sífreramörkin í fjöllunum færast ofar ár frá ári, ástandið breiðir úr sér upp fjöllin.
Sebastian Montaz býr í þorpinu Saint Gervais í Chamonix-héraðinu í Frakklandi. Hann er fjallaleiðsögumaður og ólst upp í frönsku Ölpunum. Hann fylgir skíðafólki og fjallgöngufólki um fjalllendi á öllu Alpasvæðinu.
„Venjan er að fjöll breytist hægt. Hérna í Ölpunum liggur hins vegar við að sjá megi breytingar því sem næst um hver árstíðaskipti. Þetta er afar ólíkt því ástandi sem ég minnist úr æsku og það er með öllu óvíst hvert ástand Alpanna verður þegar dóttir mín verður fullveðja.
Síðustu fimm árin hefur ekki verið hægt að stunda blandað klifur, þ.e. þegar klifið er á snjó og ís, í júní- og júlímánuði. Nú til dags eru þannig ferðir ekki öruggar frá því í júní þar til í lok september. Í fyrravetur fengum við mesta snjó sem við höfum fengið í níu ár en slíkir vetur teljast til undantekninga nú”, segir Sebastian.
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á Alpana. Það sýnir sig á ástandi sífrerans, sem heldur berginu saman, sömuleiðis á magni og gæðum snævar. Jöklar hopa og ís- og snjóbrýr eru að hverfa. Leiðsögustarfið tekur breytingum eftir því sem öryggi á hefðbundnum göngu- og klifurleiðum minnkar. Sumir jöklar sem hægt var að ganga yfir fyrir fimm árum hafa breyst. Ísinn er horfinn og bergið í farvegi þeirra blasir við.
Alparnir eru eitt af táknum Evrópu. Fjallgarðurinn er einn helsti áfangastaður ferðamanna í álfunni, en mikilvægi hans er ekki bara fólgið í aðdráttarafli fyrir ferðamenn. Fjörutíu prósent af ferskvatni Evrópu á uppruna sinn þar. Þetta vatn nægir til þess að sjá tugmilljónum Evrópubúa láglendisins fyrir neysluvatni. Það er því engin furða þótt Alparnir séu stundum kallaðir „vatnsgeymar Evrópu”.
Þetta ferskvatn er ekki eingöngu mikilvægt þeim átta löndum sem Alpafjöllin tilheyra heldur einnig stórum hluta af meginlandi Evrópu. Í nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunnar Evrópu, „Svæðisbundnar loftslagsbreytingar og aðlögun – Alparnir og breytingar á vatnsauðlindum”, er fjallað um þau áhrif sem loftslagsbreytingar hafa á framboð og eftirspurn ferskvatns á mikilvægum svæðum í Ölpunum.
Í brennidepli: Áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi AlpafjallaÁhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi Alpanna takmarkast ekki við áhrif á drykkjarvatnsforða. Fyrir hverja eina gráðu sem meðalhiti hækkar, færist snælínan um 150 metra ofar í fjöllunum. Afleiðingin er sú að æ minni snjór safnast fyrir í neðan til í fjöllum. Það veldur því að um helmingur allra skíðastaða í Sviss, og jafnvel enn frekar í Þýskalandi, Austurríki og í Pýreneafjöllum, mun í framtíðinni eiga í erfiðleikum með að laða til sín ferðafólk og vetraríþróttafólk. Plöntutegundir eru einnig að færast norðar og upp á við. Svokallaðar „frumkvöðlategundir” eru að færast ofar í hlíðar. Plöntur sem hafa aðlagast kulda eru nú að hverfa af náttúrulegum útbreiðslusvæðum sínum. Útbreiðsla ýmissa evrópskra plöntutegunda kann að hafa færst um hundruð kílómetra norðar á bóginn þegar síga fer á seinni hluta 21. aldarinnar og 60% af fjallaplöntutegundum gætu orðið í útrýmingarhættu. Skráð og áætluð minnkun á sífrera mun einnig að öllum líkindum auka hættu á náttúruhamförum og skaða náttúruleg grunnkerfi í mikilli hæð. Hitabylgjan sem varð í Evrópu árið 2003 sýnir þau alvarlegu áhrif sem hækkun hitastigs og þurrkur gæti haft á heilsu manna og á þá hluta hagkerfisins sem eru háðir vatni (t.d. orkuframleiðslu). Jöklar Alpanna minnkuðu um einn tíunda vegna bráðnunar á því ári einu og tugþúsundir fólks létu lífið í Evrópu. Í Ölpunum má sjá dæmi um þær ógnir sem munu í framtíðinni steðja að vistkerfum, búsvæðum og stofnum lífvera í Evrópu og veröldinni allri. Í eftirfarandi sögu um Norðurskautssvæðið heyrum við frá fólki sem býr norðan heimskautsbaugs í Evrópu og um það hvernig loftslagsbreytingar hafa nú þegar áhrif á líf þeirra. |
Fjöll breytast yfirleitt hægt, eins og Sebastian Montaz segir. Loftslag Alpanna hefur aftur á móti tekið verulegum breytingum á síðustu hundrað árum, þannig að hitastig hefur hækkað um 2°C eða sem nemur tvöföldu meðaltali á heimsvísu. Afleiðingin er sú að jöklar Alpanna eru að bráðna. Þeir hafa glatað um helmingnum af ísmagni sínu frá árinu 1850 og bráðnun hefur aukist ört frá því á miðjum níunda áratug síðustu aldar.
Snælínan færist einnig upp á við og úrkomumynstur (regn, snjór, hagl og slydda) er einnig að breytast. Mikill fjöldi meðalstórra og lítilla jökla munu líklega hverfa á fyrri hluta þessarar aldar. Talið er að á svæðum þar sem nú fellur snjór muni þess í stað rigna á veturna í auknum mæli, þannig að þeim dögum þegar jörð er snævi þakin muni fækka. Þetta breytir vatnsbúskap fjallanna, snjórinn sem safnast þar fyrir á veturna minnkar og þar með minnkar líka vatnsmagnið sem losnar og dreifist í sumarleysingum. Það er því búist við að afrennsli aukist á veturna og minnki á sumrin.
Vatn safnast fyrir og geymist á formi snævar og íss í jöklum, vötnum, grunnvatnshlotum og jarðvegi Alpanna á veturna. Síðan losnar það hægt þegar ísinn og snjórinn bráðna yfir vor- og sumartímann, og flæðir í ár eins og Dóná, Rín, Pó og Rón, sem allar eiga sér upptakasvæði í Alpafjöllum. Á þennan hátt verður vatn aðgengilegt þegar vatnsbirgðir, sem láglendið geymir, taka að minnka en sumareftirspurnin er í hámarki.
Þeim viðkvæmu víxlverkunum sem liggja til grundvallar þessu forna ferli geymslu og losunar er nú ógnað af loftslagsbreytingum. Hvernig áhrifum munu vistkerfi Alpanna verða fyrir vegna loftslagsbreytinga? Hvernig mun vistkerfaþjónustan taka breytingum? Hvað er í okkar valdi að gera?
Vissir þú að... (5)vatnasvið er landsvæði þaðan sem allt yfirborðsvatn rennur eftir kerfi lækja, áa og hugsanlega einnig stöðuvatna til sjávar á einum stað Umsýsla vatnasviðs er það fyrirkomulag kallað þegar á er vernduð allt frá upptökum til ósa, að meðtöldu svæðinu umhverfis hana. Oft koma margir aðilar og yfirvöld að slíkri vernd, en hún er nauðsynleg til að tryggja vatnsuppsprettur og magn og gæði vatnsins. |
„Vatnsgeymar” Alpanna eru afar viðkvæmir og geta auðveldlega skaddast vegna breytinga á veðurfræðilegum og loftslagstengdum ferlum, landslagi og vatnsnotkun mannfólksins. Breytingar geta haft áhrif á gæði og magn þess vatns sem veitt er til tugmilljóna Evrópubúa.
Loftslagsbreytingar eru líklegar til að valda alvarlegum breytingum á hringrás vatns í Ölpunum. Breytingar á úrkomu, snjómagni og vatnsheldni jökla munu líklega breyta því hvernig vatn flyst milli staða. Það mun hafa í för með sér meiri þurrk á sumrin, flóð og jarðvegshrun á veturna og meiri sveiflur í vatnsmagni yfir árið. Gæði vatns munu einnig breytast.
Vatnsskortur og tíðari náttúruhamfarir að viðbættri síaukinni þörf fyrir vatn (t.d. til að vökva landbúnaðarsvæði eða koma til móts við aukna umferð ferðamanna) mun líklega skaða vistkerfaþjónustu og hafa áhrif á efnahag. Slæmra áhrifa mun gæta á heimilum, í landbúnaði, við orkuframleiðslu og skógrækt, í ferðamennsku og ársiglingum. Vandamál gætu sprottið upp í tengslum við vatnsbirgðir og gæti það leitt til átaka meðal notenda bæði á Alpasvæðinu og annars staðar. Einkum má eiga von á því að í suðurhluta Evrópu verði þurrkar tíðari.
Vatn hefur oft verið talin auðlind sem ganga má að sem vísri en nú gæti það farið að breytast með breyttu loftslagi.
„Vatnið sem við fáum í Vínarborg fer a.m.k. 100 kílómetra leið frá uppsprettum sínum í fjöllunum”, segir Dr. Gerhard Kuschnig, yfirmaður lindaverndar hjá Vatnsveitu Vínarborgar. Dr. Kuschnig er í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð frá heimili Sebastians fjallaleiðsögumanns í Ölpunum. Loftslagsbreytingar honum einnig ofarlega í huga.
„Eins og staðan er núna þá eru engin vandamál tengd magni eða gæðum vatnsins en ekki er öruggt að þannig verði það í framtíðinni. Að takast á við loftslagsbreytingar þýðir að takast verður á við ýmsa óvissuþætti. Við viljum vera viss um að við séum að spyrja réttu spurninganna”, bætir Dr. Kuschnig við.
Tvær milljónir manna í Vínarborg og Graz og á nærliggjandi svæðum reiða sig á að ákveðinn hluti austurrísku Alpanna sjái þeim fyrir vatni. Þess vegna eru uppsprettur ferskvatns á svæðinu verndaðar með lögum. Vatnsberar (mettuð berglög sem vatn getur auðveldlega flætt um) á þessum fjallasvæðum eru afar viðkvæmir vegna jarðfræðilegrar samsetningar bergsins, loftslags og landnýtingar sem hafa í veruleg áhrif á magn og gæði vatnsins sem fáanlegt er.
Hvað varðar aðlögun að loftslagsbreytingum þá felst eitt helsta viðfangsefnið á þessu svæði í því að vernda magn og gæði ferskvatns. Til lengdar er því aðeins hægt að tryggja gott vatn að landið sem vatnið rennur um njóti verndar. Hvers konar breytingar á landinu, þ.m.t. nýjar landbúnaðaraðferðir og byggingaframkvæmdir, geta haft áhrif á gæði og magn vatns. Fjallalindir í nágrenni Vínarborgar hafa verið verndaðar í yfir 130 ár, og borgin hefur smám saman öðlast eignarhald á stórum landsvæðum þar sem finna má vernduð vatnasvæði og friðlönd. Vatnsverndarsvæðið nær yfir um 970 ferkílómetra svæði í Steiermark-héraði og í norðausturhluta Austurríkis.
„Vatnið rennur í gegnum yfirborðslög bergsins, og fer í vissa hringrás inni í fjallinu. Þegar það kemur að vatnsþéttum berglögum rennur það í lindir sem síðan renna aftur upp á yfirborðið”, útskýrir Dr. Kuschnig.
Tíminn sem líður milli þess að vatn fellur sem regn og síast niður í jörðina og kemur aftur upp á yfirborðið sem lind, er mjög skammur. Stórrigningar eða mjög mikil leysing geta valdið því að mikið af jarðvegskornum berst í vatnið og það hefur áhrif á gæði þess. Oft ná jarðlögin ekki að sía úr vatninu allt það grugg sem í það hefur borist við slíkar aðstæður á þeim stutta tíma sem líður áður en vatnið kemur aftur upp á yfirborðið. Loftslagsbreytingar auka líkurnar á miklum rigningum og leysingum sem geta spillt vatni á þann hátt sem ofan greinir.
Loftslagsbreytingar á svæðinu, t.d. hækkandi hitastig, munu hafa áhrif, bæði á aðgengi að vatni og gæði þess vegna beinna áhrifa af aukinni uppgufun og breytingu á úrkomu. Loftslagsbreytingar hafa einnig óbein áhrif á vatnslindir vegna breytinga sem verða á gróðri.
Tveir þriðju hlutar verndarsvæðisins eru skógi vaxnir. Líkt og gildir um jarðræktina þá er skóglendi svæðisins stjórnað með það að markmiði að vernda drykkjarvatn. „Mesta ógnin sem við nú stöndum frammi fyrir af völdum loftslagsbreytinga er aukið jarðvegsrof sem er slæmt fyrir skógana. Án trjáa og trjákróna mun jarðvegurinn skolast burt og það er einmitt jarðvegurinn sem hreinsar vatnið. Hækkun hitastigs mun hafa í för með sér útbreiðslu nýrra trjátegunda. Loftslagsbreytingar jafngilda óvissu og nýjum áhrifaþáttum – og slíku fylgir alltaf áhætta”, segir Dr. Kuschnig.
Fræðsla er mikilvægt verkefni fyrir vatnsveituna. Undanfarin 13 ár hefur vatnaskóli kennt börnum á svæðinu um mikilvægi vatnsins og landslagsins sem lætur það í té. Boðið er upp á reglulegar ferðir til fjallalindanna svo að nemendur geti öðlast betri skilning á því hvaðan vatnið þeirra kemur. Upplýsingar eru einnig mikilvægar fyrir bændasamfélagið sem nýtir beitiland hátt uppi í Ölpunum. Það er einnig á þeirra ábyrgð að vernda landið umhverfis vatnsuppspretturnar, einkum með tilliti til úrgangs frá búfénaði.Vatnsveita Vínarborgar hefur nú þegar ráðist í verkefni sem leiða saman aðra aðila í vatnsgeiranum til viðræðna um áhrif loftslagsbreytinga og aðlögun að þeim. Til dæmis koma átján samtök frá átta löndum að verkefninu sem nefnist CC-WaterS, deila reynslu sinni og ræða sameiginlegar leiðir til aðlögunar.
„Stefnumótun í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum ræðst oft af viðbrögðum við aftakaveðrum og afleiðingum þeirra segir Stéphane Isoard úr „Veikleika- og aðlögunarteyminu (Vulnerability and Adaption team) hjá Umhverfisstofnun Evrópu.
„Hitabylgjan árið 2003 er dæmi um slíkt. Nauðsynlegt er að gera aðlögunaráætlanir sem byggja á kerfisbundinni greiningu á viðkvæmum svæðum, íbúum þeirra og atvinnumynstri og hrinda þeim fljótlega í framkvæmd ef þær eiga að geta gegnt vel því hlutverki í framtíðinni að takast á við óumflýjanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Aðlögun að loftslagsbreytingum og þeim vanda sem steðjar að vatnsuppsprettum og vatnsbúskap krefst stýringar í svæðis- og landsbundnu samhengi og einnig samræmingar innan Evrópusambandsins”, segir hann.
Lykilatriði er að koma á skilvirkri stýringu vatnasviða yfir landamæri ríkja. Sem dæmi má nefna að hingað til hefur verið afar lítið samstarf milli landa þegar bregðast þarf við vatnsskorti á vatnasviðum sem eiga uppruna sinn í Ölpunum eða fá vatn sitt þaðan. Evrópusambandið er í sterkri stöðu til að styðja við slíkt ferli með því að bæta skilyrði slíks samstarfs.
Mildun áhrifa loftslagsbreytinga felst í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og forðast þannig sem mest hin óviðráðanlegu áhrif þeirra. Hins vegar ber að hafa í huga að jafnvel þótt slík losun hætti strax í dag myndu loftslagsbreytingar halda lengi áfram vegna uppsafnaðs magns gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Við verðum því að byrja á því að aðlagast. Aðlögun að loftslagsbreytingum felst í því að leggja mat á og bregðast við viðkvæmum þáttum náttúrulegra og manngerðra kerfa gagnvart áhrifum flóða, þurrka, hækkunar sjávarmáls, sjúkdóma og hitabylgna svo nokkur dæmi séu nefnd. Þegar allt kemur til alls hefur aðlögun í för með sér að við verðum að hugsa upp á nýtt hvar og hvernig við búum nú og í framtíðinni. Hvaðan mun vatnið okkar koma? Hvernig munum við verja okkur gegn náttúruvá? Frekari upplýsingar um þau málefni sem rædd eru í Merkjum er að finna á vefsíðu okkar: www.eea.europa.eu. |
6. The Water Framework Directive: http://ec.europa.eu/environment/water/water-framework/index_en.html
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/alparnir or scan the QR code.
PDF generated on 23 Dec 2024, 08:26 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum