All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Canakkale-hérað liggur beggja vegna Hellusunds, sem tengir Marmarahaf og Eyjahaf, og telst til bæði Evrópu og Asíu. Skáldið Hómer segir í Ilíonskviðu að hér hafi Trójuborg staðið og verið sigruð með frægum tréhesti sem kenndur var við nafn hennar, og 130 000 hermenn létu lífið í fyrri heimsstyrjöldinni á Gallipoli-skaganum í Evrópuhluta héraðsins. Nú til dags má sjá margar og litríkar snekkjur í bátahöfn Canakkale þar sem sjófarendur hafa gjarnan viðdvöl til að skoða sig um á þessum sögulegu og fornfrægu slóðum.
Í Behramkale, fáeinum kílómetrum norðar við ströndina, hittum við Saim Erol. Hann er einn fárra fiskimanna sem eftir eru í þessu litla sjávarþorpi sem stendur við hinn stórfenglega Edremit-flóa þar sem hið fræga musteri Aþenu stóð. „Í gær lagði ég yfir 700 metra af netum. Heildaraflinn var fjórir sæskeggjar. Það dugir ekki einu sinni fyrir eldsneytiskostnaði!” segir Saim, sem hefur stundað veiðar á svæðinu í yfir 20 ár.
Það er óþægileg staðreynd að nytjafiskum fækkar en fiskibátunum ekki. Saim lítur á sex metra langan bátinn sinn og síðan á stærra fiskiskip á sjónum úti fyrir ströndinni og bætir við „ég gjörþekkti ströndina hérna og hvar best væri að veiða og hvenær. En nú er tíðin önnur. Kunnátta mín virðist ekki eiga við lengur. Sjórinn hefur breyst.”
Undanfarin 20 ár hefur svæðið breyst í vinsælan ferðamannastað. Flestir fiskimenn hafa hætt veiðum og vinna nú fyrir sér með því að flytja ferðamenn til afskekktra stranda sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. „Þannig fá þeir alltént eitthvað af peningum til að framfleyta sér yfir veturna”, segir Hasan Ali Özden, kennari á eftirlaunum og áhugaveiðimaður. „Í um átta kílómetra fjarlægð til vesturs er þorpið Sivrice þar sem fiskimennirnir eru lánsamari. Af og til finna þeir sverðfisksvöður og sú veiði gefur vel af sér. En það eru mörg ár síðan virkilega vel áraði.”
Fiskveiðar eru mjög háðar því að hefðbundin vistkerfi verði ekki fyrir röskun en breytt loftslag veldur því að hlutirnir virka ekki sem fyrr.
Nuran Ünsal prófessor við Istanbúlháskóla bendir á breytt farmunstur og áhrif þess á fiskistofna. Flökkutegundir sem hafa mikið efnahagslegt gildi, t.d. rákungur, svartþorskur eða makríll, halda suður til Miðjarðarhafs á haustin og norður til Svartahafs á vorin, þar sem þær hrygna. Með hverju ári sem líður fara þó sífellt færri fiskar um tyrknesku sundin.
„Breytingar á hitastigi sjávar og árstíðabundnum vindum hafa truflað ferðamynstrin. Þessir þættir gegna lykilhlutverki við að koma á nauðsynlegum sjávarstraumum ”, segir Ünsal prófessor, „flökkutegundir þurfa að geta reitt sig á rétt hitastig sjávar, nóg framboð af réttu æti og nægan tíma til þess að hrygna.
Fyrir tuttugu árum fóru þessar tegundir suður í september. Nú þegar hitastig Svartahafs hefur hækkað er óþarfi fyrir þær að halda suður á bóginn fyrr en um miðjan október eða snemma í nóvember. Það þýðir að dvöl þeirra í Miðjarðarhafi er styttri og þar af leiðandi eru fiskarnir færri og minni þegar þeir snúa aftur norður.”
Fiskar í hlýrri sjó lenda í vanda þar sem aðlögun þeirra að breyttum aðstæðum kemur fram í hraðari efnaskiptum. Þeir vaxa hraðar en verða oft minni sem fullvaxnir einstaklingar. Til þess að viðhalda hraðari efnaskiptum þurfa þeir meiri fæðu og meira súrefni. Þegar sjór hlýnar minnkar að sama skapi súrefnisinnhald hans. Margar fisktegundir lenda þar með í svokallaðri „súrefnisþröng“ þar sem þörf þeirra fyrir súrefni eykst á sama tíma og súrefnisbirgðir sjávarins minnka.
Loftslagsbreytingar hafa einnig áhrif á seltu og sýrustig sjávar og á eðlilega lagskiptingu hans. Neikvæð áhrif þessa gætu orðið skelfileg, meðal annars eyðilegging kóralrifja, aukin útbreiðsla innrásartegunda og sjúkdóma og fækkun rándýra efst í fæðukeðjunni. Að endingu gæti jafnvel öll fæðukeðja sjávar hrunið.
Skömmu fyrir 1990 hrundu ansjósustofnar Svartahafsins vegna áhrifa af ýmsu tagi. Má þar nefna ofveiði, mengun af völdum næringarefna (einkum frá Dóná), hækkun hitastigs sjávar vegna loftslagsbreytinga og innrás nýrrar tegundar inn á svæðið. Þessi tegund var amerísk risahvelja, Mnemiopsis leidyi, kambhveljutegund sem upphaflega kom frá norðvesturhluta Atlantshafs.
Þessi kambhveljutegund hefur líklega borist til Svartahafs með kjölfestuvatni flutningaskipa. Hveljurnar veiða fiskiseiði sér til matar og einnig aðrar lífverur sem ansjósur lifa á. Á síðasta áratug síðustu aldar barst önnur kambhveljutegund frá norðvesturhluta Atlantshafs, Beroe ovata, fyrir slysni inn í vistkerfi Svartahafs. Helsta bráð þessarar nýju tegundar er einmitt M. leidyi. Áhrif þessa rándýrs sem herjaði á amerísku risahveljuna, ásamt lækkandi hitastigi á árunum 1991 til 1993, minnkandi næringarefnamengunar og minni sjósóknar dró nokkuð úr álaginu á ansjósustofninn. Síðan þá hefur vistkerfi Svartahafs sýnt nokkur merki um að það sé að ná sér á strik að nýju.
Svipaðrar hliðrunar í vistkerfi hefur einnig orðið vart í Eystrasalti. Ofveiði og loftslagsbreytingar hafa orðið til þess að ríkjandi fisktegundir svæðisins eru nú síld og brislingur í stað þorsks.
Utanaðkomandi tegundir geta oft valdið truflunum innan vistkerfa bæði plantna, dýra og manna, hvort sem þær eru fluttar á nýjan stað af ráðnum hug eða fyrir slysni. Talið er að þau vandamál sem geta skapast vegna innrása framandi tegunda muni fara versnandi á nýrri öld vegna loftslagsbreytinga, aukinna viðskipta og ferðamennsku.
Höf jarðar mynda gríðarstóra geymslu fyrir kolefni þar sem í þeim er bundið mikið koldíoxíð. Í reynd er hafið stærsta kolefnisgeymsla plánetunnar og geta náttúrunnar til þess að binda kolefni á þurrlendi, þ.m.t. í skógum, er mun minni. Þessar náttúrulegu geymslur hafa virkað vel árþúsundum saman og verndað jörðina gegn skyndilegum loftslagsbreytingum af völdum gróðurhúsalofttegunda. Nú á dögum eykst magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu aftur á móti hraðar en svo að land og haf geti dregið það í sig jafnóðum.
Meiri upptaka koldíoxíðs úr andrúmsloftinu hefur almennt aukið súrnun hafsins. Þegar árið 2100 rennur upp er líklegt að höfin verði orðin súrari en þau hafa nokkurn tíma verið á síðustu 20 milljón árum. Súrnun veldur því að minna er um kolefnisjónir sem nauðsynlegar eru til þess að mynda aragonít og kalkspat, en svo nefnast tvær tegundir kalsíumkarbónats sem margar sjávarlífverur þurfa á að halda til þess að mynda skeljar sínar og stoðgrindur.
Í Evrópu eru rannsakendur farnir að taka eftir breytingum á skeljum og stoðgrindum örvera sem mynda grunninn að fæðukeðju hafsins. Kalkmyndun hefur minnkað og mun það líklega þegar farið að hafa slæm áhrif á lífsmöguleika þeirra sem og á þær fjölmörgu dýrategundir sem nærast á þeim.
Kórallar eru einkum í hættu þar sem stoðgrindur þeirra byggjast á kalkmyndun. Þannig verður til það sem við köllum kóralrif. Kóralrif eru einnig heimkynni allt að tveggja milljóna tegunda sjávarlífvera og við þau veiðist fjórðungur alls fisks sem veiddur er í þróunarlöndum víðs vegar í heiminum. Bein áhrif á kalkmyndun sjávarlífvera eru fjarri því einu afleiðingar súrnunar. Súrara vatn getur haft mikil áhrif á öndun hjá kalklausum tegundum eins og til dæmis smokkfiski (11). Þótt ekki sé búið að meta allar afleiðingar af súrnun hafsins hefur verið áætlað að allt að sjö hundraðshlutar af þessari „bláu kolefnisgeymslu“ glatist ár hvert, og er það sjöfalt á við það sem var fyrir 50 árum.
Vistkerfi hafsins gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum á sama hátt og skógar gera á þurrlendi. Ef annar hvor þessara þátta yrði óvirkur yrðu afleiðingarnar skelfilegar. Okkur er þó ekki enn fyllilega ljóst hversu fljótt lífið í höfunum gæti breyst.
Ofveiði er helsta orsök þess að skortur er á fiski í höfunum. Í Evrópu er útlitið afar slæmt; nærri níu af hverjum tíu fiskistofnum, sem nýttir eru í norðausturhluta Atlantshafsins, á Eystrasalti og í Miðjarðarhafinu, eru ofveiddir. Um þriðjungur stofnanna eru svo illa staddir að hætta er á því að þeir glati endurnýjunarhæfni sinni.
Á undanförnum áratug einum saman hefur heildarafli í Evrópusambandinu minnkað um þriðjung(12) og lagareldi í Evrópu hefur ekki dugað til að jafna þann mismun. Fiskneysla á heimsvísu hefur meira en tvöfaldast síðan 1973, meðaltalsneysla Evrópubúa af fiskafurðum er 21 kíló á mann á ári, sem er aðeins meira en sem nemur meðaltalinu á heimsvísu sem er 17 kíló. Í Bandaríkjunum, Kína og Kanada neytir hver íbúi 25 kílóa af fiskafurðum á ári. Innan Evrópusambandsins er fiskneysla afar breytileg, allt frá 4 kílóum árlega á hvern einstakling í Rúmeníu til 57 kílóa í Portúgal.
Til þess að mæta eftirspurn eftir fiski í Evrópu eru um tveir þriðju hlutar hans innfluttir(13). Evrópubúar hafa því áhrif á fiskistofna og lagareldisframleiðslu víðs vegar í heiminum. Nú á síðustu árum eru neytendur, vinnslufólk og söluaðilar að verða sífellt meira uggandi yfir ofveiðum og krefjast oft vottunar á því að fiskurinn sem á að neyta og selja sé afrakstur ábyrgra og sjálfbærra veiða. Slíkar tryggingar er hins vegar erfitt að veita hvað varðar flesta fiskistofna á evrópskum hafsvæðum.
Í Evrópu er nú verið að endurmeta sameiginlegu fiskveiðistefnuna(14) á þann hátt að skoða fiskveiðar á breiðari grundvelli og taka tillit til bæði hafsins og umhverfisins í heild sinni(15). Mun ríkari áhersla mun verða lögð á vistfræðilega sjálfbærni fiskveiða utan Evrópu og þörfina á því að stjórna náttúruauðlindum og nýta þær á ábyrgan hátt án þess að stofna tilvist þeirra í framtíðinni í hættu. Mikilvægt verður að öðlast reynslu af því hvernig þessi nýja nálgun til þess að tryggja fiskveiðar í Evrópu muni falla að núverandi stjórnun á heimsvísu og að því ferli sem lagt hefur verið til að notað verði til þess að leggja mat á umhverfi hafsins í hnattrænu samhengi.
Unnið að hnattrænu mati á hafinu og vistkerfum þessÁrið 2002 voru í framkvæmdaáætlun leiðtogafundarins um sjálfbæra þróun lögð fram ákveðin markmið varðandi stjórnun fiskveiða. Meðal þeirra var að koma fiskistofnum aftur á það stig að þeir geti skilað hámarksafla á sjálfbæran hátt fyrir árið 2015. Einnig var skilgreind þörfin á því að koma á „reglulegu ferli” innan Sameinuðu þjóðanna varðandi alþjóðlega skýrslugjöf og alþjóðlegt mat á ástandi hafsins og vistkerfa þess, þar sem einnig væri tekið tillit til félags- og hagfræðilegra þátta, bæði þeirra sem nú eru til staðar og þeirra sem búast má við að hafi áhrif í framtíðinni. ,Mat þetta skal byggt á því svæðisbundna mati sem þegar hefur farið fram. Í þessum mikilvæga áfanga sást vel þörfin fyrir samstillt átak á alþjóðavísu sem þjónaði þeim tilgangi að vernda og stjórna sameiginlegum auðlindum heimsins á sjálfbæran hátt. Þar mátti greina upphaf að heildstæðu og aðgerðastýrðu ferli með það að markmiði að tryggja að lönd skuldbindi sig til þess að taka þátt í hnitmiðaðri vinnu að þessum málum til lengri tíma. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna studdi þessa tillögu árið 2005(16) og 2009 viðurkenndi það gildi starfa sérfræðihóps varðandi vísindalegan grundvöll hnattræna matsins. Líkt og gildir um öll alþjóðleg ferli má þó búast við að það taki nokkur ár að koma þessu ferli varðandi hnattræna skýrslugerð og mat í framkvæmd.(17) |
11. "Our Endangered Oceans", Dr. Richard Moss, WWF
12. Eurostat, European Commission, Commission working document ‘Reflections on further reform of the Common Fisheries Policy’
13. European Commission Statistics: http://ec.europa.eu/trade/creating-opportunities/economic-sectors/fisheries/statistics/#stats
14. The EU treaties establish fisheries management as one of the exclusive competences of the Community. This is because fish move across national jurisdictions and fishermen have followed them long before Exclusive Economic Zones were introduced and the Common Fisheries Policy born. In 2009, the CEC published a green paper outlining the changes needed to address some of the most critical problems facing European fisheries. Reform of the Common Fisheries Policy, Brussels, 22.4.2009. COM(2009)163 final
15. Directive 2008/56/EC of the European Parliament and of the Council of 17 June 2008 establishing the framework for Community action in the field of marine environmental policy (Marine Strategy Framework Directive) (OJ L 164, 25.6.2008)
16. Resolution 60/30 of the General Assembly on Oceans and the Law of the Sea
17. Resolution 61 of the General Assembly on Oceans and the Law of the Sea
For references, please go to https://eea.europa.eu./is/articles/hafid or scan the QR code.
PDF generated on 23 Nov 2024, 01:24 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum