næsta
fyrri
atriði

Article

Vefur lífsins

Article Útgefið 22 Mar 2010 Síðast breytt 21 Mar 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki – líflína vistkerfisins

Náttúran notar aðeins lengstu þræðina til að vefa mynstur sín, þannig að sérhver bútur vefsins sýnir skipulag hans alls

Richard P. Feynman, eðlisfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi

Rithöfundurinn Aldous Huxley sagði snemma á 7. áratug síðustu aldar að vegna fækkunar söngfugla, plöntutegunda og skordýra í umhverfinu væru skáld að glata helmingi yrkisefnis síns.”

Huxley var þá nýbúinn að lesa áhrifamikla nýja bók, Raddir vorsins þagna (Silent Spring) eftir bandaríska líffræðinginn Rachel Carson. Bókin kom fyrst út árið 1962. Hún var víða lesin og gagnrýnd og varð til þess að auka vitund almennings um notkun skordýraeiturs, mengun og umhverfið í heild sinni. Markmið Huxleys var ekki að gera lítið úr því sem var að gerast heldur náði hann, með ummælum sínum um menningarlega rýrnun, að vekja athygli á mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika, en það er hugtak sem við eigum oft erfitt með að útskýra.

Hugtakið líffræðilegur fjölbreytileiki er myndað úr tveimur orðum: „líffræði” og „fjölbreytileiki”. Hugtakið nær til fjölbreytileika allra lífvera innan hverrar tegundar og á milli tegunda. Þegar allt kemur til alls er líffræðilegur fjölbreytileiki náttúran í öllum birtingarmyndum sínum.

Vistkerfi er samfélag plantna, dýra og örvera og samverkan þeirra við umhverfið. Hvort sem litið er til samskipta býflugu og blómstrandi plöntu í haga undir skínandi sumarsól eða þess hvernig loft, vatn og jarðvegur tengjast sín á milli á mikilfenglegan og stöðugan hátt,-  vistkerfin mynda grungvöll lífsins á jörðinni.

Þegar býflugur safna hunangslegi flytja þær einnig frjókorn milli blóma og fræva þau. Afraksturinn er ný blóm sem hafa víxlverkandi áhrif á loftið í kringum þau og á jarðveginn og vatnið undir þeim. Taka má tré sem dæmi. Lauf þeirra hreinsa andrúmsloftið og rætur þeirra hreinsa drykkjarvatn okkar með því að soga næringarefni úr því. Ræturnar binda einnig og næra jarðveginn – jafnvel eftir dauða trésins. Ef tré eru fjarlægð úr vistkerfi mun það innan skamms fara að hafa áhrif á gæði lofts, vatns og jarðvegs. Ef trjám er fjölgað, jafnvel í borgum, mun það bera árangur, trén kæla andrúmsloftið og það verður betra.

Öll erum við hluti af þessu „kerfi” en það vill oft gleymast. Allt frá því forfeður okkar hófu að stýra býflugum, plöntum og högum til fæðuframleiðslu með aðferðum þeim sem við nú köllum jarðyrkju hefur mannkynið mótað og breytt líffræðilegum fjölbreytileika. Búfénaður og plöntur urðu að afurðum sem höfðu fjárhagslegt innra gildi. Í kjölfar jarðyrkjunnar kom iðnvæðing og hvert sem við förum verður náttúran með í för – óháð því hversu ófús hún kann að virðast.

Við höfum lokið hringrásinni: með því að iðnvæða líf okkar, þar með talda jarðyrkjuna, höfum við iðnvætt náttúruna. Við ræktum skordýr, búfénað og plöntur fyrir markað og veljum þeim einkenni sem henta okkur og þörfum okkar. Líffræðilegum fjölbreytileika er ógnað bæði í víðtækum skilningi og á sameindastiginu.

Oft er litið á náttúruna sem einhvers konar munað: það kann að vera afar æskilegt að vernda tegundir, og að glata þeim kann að teljast sorglegt, en þegar allt kemur til alls er það ásættanlegur fórnarkostnaður ef hann hefur í för með sér að mannfólkið geti haldið vinnu og hækkað tekjur sínar.

Reyndin er að sjálfsögðu allt önnur. Tökum býflugur sem dæmi.

Villtar býflugnategundir eru nú þegar útdauðar á mörgum svæðum í Evrópu. Býflugnastofnar sem komist hafa af eru oft ný, ræktuð afbrigði sem hafa orðið villt. Nú fækkar stofnum býflugna stórlega um allan heim. Býflugur eiga við fjölda alvarlegra vandamála að etja, þ.á.m. skordýraeitur, sníkjudýr, sjúkdóma og hnignandi erfðafræðilega uppbyggingu. Könnun meðal félagsmanna í samtökum breskra býflugnabænda (BBKA) sýndi fram á að hunangsbýflugum fækkaði um 30% veturinn 2007-2008. Það jafngildir því að býflugum hafi fækkað um meira en 2 milljarða og að 54 milljónir sterlingspunda hafi tapast úr hagkerfinu.

Það sem mikilvægast er að gera sér grein fyrir er það að minnkandi líffræðilegur fjölbreytileiki hefur ekki góð áhrif á hagþróun heldur slæm, eins og sjá má af þessu dæmi og fleirum sem síðar verður lýst.

Vissir þú að...

  • líffræðilegur fjölbreytileiki er náttúran í öllum sínum myndum.
  • Vistkerfi er samfélag plantna, dýra og örvera og samverkan þeirra við umhverfið.
  • Vistkerfaþjónusta” er auðlind eða ferli sem náttúran lætur okkur í té. Dæmi um vistkerfaþjónustu er framleiðsla fæðu og drykkjarvatns, frævun nytjaplantna og menningarlegir þættir á borð við þá afþreyingu og andlegu gæði sem náttúran getur veitt.(3)

2010 – sjónum beint að líffræðilegum fjölbreytileika

Árið 2002 skuldbundu ríkisstjórnir víðs vegar í heiminum sig til þess að draga úr tapi á líffræðilegum fjölbreytileika fyrir árið 2010. Evrópusambandið gekk skrefi lengra og hét því að stöðva tap á líffræðilegum fjölbreytileika í Evrópu fyrir árið 2010. Þrátt fyrir það bendir mat sem Umhverfisstofnun Evrópu (EEA)(1) framkvæmdi til þess, að þótt framfarir hafi orðið á sumum svæðum muni Evrópusambandið ekki ná þessu markmiði sínu. Staðreyndin er sú að líffræðilegur fjölbreytileiki tapast nú hraðar en nokkru sinni fyrr.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 2010 ár líffræðilegs fjölbreytileika og mun hann grandskoðaður og ræddur ítarlega á því ári. Það að ofangreind markmið náðust ekki hefur þegar orðið til þess að nú fara fram alvarlegar umræður innan Evrópusambandsins um það hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar til þess að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika.

Hvert stefnir líffræðilegur fjölbreytileiki?

Í Evrópu hefur náðst nokkur árangur við að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika. Undanfarin 30 ár hefur Evrópusambandið byggt upp kerfi nærri 25000 verndaðra(2) svæða í öllum aðildarríkjum í þeirri viðleitni sinni að vernda þann líffræðilega fjölbreytileika sem við eigum. Samanlagt eru þetta um 880 000 ferkílómetrar, sem samsvarar 17% af landsvæði Evrópusambandsins. Þessi svæði, sem hafa hlotið samheitið Natura 2000 eru víðáttumesta net verndaðra svæða í öllum heiminum.

Löggjöf um losun mengandi efna út í andrúmsloft, gæði ferskvatns og skólphreinsun hefur haft jákvæðar afleiðingar sem orðið hafa líffræðilegum fjölbreytileika til góðs. Sem dæmi má nefna að súrt regn, sem eyddi skógarsvæðum í norðurhluta Evrópu, er ekki lengur alvarlegt áhyggjuefni. Jarðyrkja verður í sífellt betra samræmi við nærliggjandi landslag, þó þar megi enn margt betur fara. Vatnsgæði hafa almennt séð farið batnandi hvað varðar ferskvatn.

Engu að síður glatast líffræðilegur fjölbreytileiki enn, sama hvaða mælikvarði er notaður. Hafís á Norðurskautssvæðinu nær nú styttra suður að sumarlagi og er þynnri en nokkru sinni fyrr. Árið 2007 var umfang hafíss aðeins helmingur þess sem mældist um miðbik 20. aldar. Þetta hefur áhrif á allar lífverur svæðisins – allt frá örverum í ísnum til hvítabjarna og manna. Eins og skýrt verður út síðar þá eru jöklar á fjallgörðum Evrópu einnig að bráðna með alvarlegum afleiðingum fyrir tugmilljónir Evrópubúa.

Meira en milljarður íbúa jarðarinnar byggir afkomu sína á fiskveiðum. Hins vegar hefur helmingur allra villtra fiskistofna þegar verið fullnýttur. Meirihluti þeirra fiskistofna sem í dag eru nýttir í gróðaskyni munu líklega hrynja fyrir árið 2050 ef núverandi þróun verður ekki snúið við. Á landi eru stór svæði í regnskógum rudd til þess að rækta matvæli (t.d. til þess að rýma fyrir ræktunarlandi fyrir sojabaunir eða beitilandi fyrir nautgripi) og lífeldsneyti (t.d. pálmaolíu) – Við slíkar framkvæmdir er ekkert tillit tekið til hinna fjölmörgu og mikilvægu áhrifa sem skógarnir hafa á vistkerfin.

Undanfarin 20 ár hafa fiðrildastofnar í Evrópu rýrnað um 60 %(3). Fiðrildi eru gagnlegur mælikvarði á ástand umhverfisins því þau eru næm fyrir jafnvel minnstu breytingum á búsvæðum. Fækkun þeirra er merki um afar víðtækar umhverfisbreytingar sem við erum rétt að byrja að öðlast skilning á.

Hvers vegna er líffræðilegur fjölbreytileiki okkur svo mikilvægur?

Líffræðilegur fjölbreytileiki lætur í té margvíslega „vistkerfaþjónustu” sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut. Hugsið um skordýrin sem fræva nytjaplöntur okkar, jarðveginn, trjárótakerfin og berglögin sem hreinsa vatnið sem við drekkum, lífverurnar sem brjóta niður úrgang okkar og trén sem hreinsa andrúmsloftið. Hugsið um mikilvægi náttúrunnar og fegurð hennar og hvernig við nýtum hana í frítíma okkar.

Þetta eru aðeins fá dæmi um hvernig „vistkerfaþjónusta” gerir lífið á jörðinni mögulegt. Við höfum hins vegar glatað tengslunum við marga af þeim ferlum sem liggja að grunni lífsins og gerum okkur sjaldan grein fyrir tilveru þeirra eða mikilvægi.  Sú staðreynd ein og sér hefur gríðarleg áhrif í för með sér fyrir náttúruna.

Breytt eðli umhverfisfræðilegra viðfangsefna

Á árunum 1960-90 var stundum litið á umhverfið sem samansafn aðskildra kerfa. Stefnumótun og ýmis konar"átök" einblíndu oft á ákveðin vandamál: reyk í andrúmslofti, efnamengun í ám frá verksmiðjum, eyðingu skóga á Amazonsvæðinu, útrýmingarhættu tígrisdýra, klórflúorkolefni í úðabrúsum. Orsakirnar voru taldar línulegar eða sértækar og brugðist var við þeim sitt í hverju lagi.

Nú til dags höfum við annan skilning á þeim þáttum sem valda álagi á umhverfið. Þeir eru ekki einsleitir og einskorðast ekki heldur við ákveðin landsvæði. Það sem þeir eiga sameiginlegt er að yfirleitt eru það umsvif mannfólksins sem – beint eða óbeint – ráða umfangi þeirra. Þau mynstur sem við myndum við framleiðslu, viðskipti og neyslu eru afar sterkir áhrifavaldar sem leggja grunninn að samfélögum okkar en setja samtímis lifnaðarháttum okkar, lífsgæðum og umhverfi skorður.

Að tengja saman punktana

Hugsum okkur teiknibók barns. Barnið teiknar mynd með því að tengja saman punkta – fyrsti punkturinn er merktur nr. 1 og sá síðasti er með hæstu töluna á blaðsíðunni. Til að byrja með er ekki hægt að ráða mikið úr myndinni en smám saman verður hún greinilegri. Skilningur okkar á þeim mikilvægu málefnum sem samfélagið þarf að takast á við hefur þróast út frá einangruðum punktum og er nú að taka á sig mynd. Við höfum enn ekki fengið heildarmyndina en erum byrjuð að gera okkur grein fyrir mynstrinu.

Líffræðilegur fjölbreytileiki fer hratt minnkandi, að miklu leyti vegna þess að við höfum misnotað náttúruna til að viðhalda framleiðslu, neyslu og viðskiptum í okkar hnattræna hagkerfi. Sú staðreynd að okkur hefur láðst að leggja rétt mat á náttúruauðlegð okkar hefur valdið því að verðgildi á trjám okkar og skóglendi, jarðvegi og andrúmslofti er lágt eða ekkert.

Í hagkerfi þar sem þjóðarauður er mældur eftir framleiðslumagni landsins og hækkun ársfjórðungslegs gróða er talin mikilvægari en sjálfar árstíðirnar er náttúran sjálf oft ekki tekin með í reikninginn.  Ósjaldan kemur fyrir að náttúruauðlegð okkar er ekki einu sinni metin til jafns við einn punktanna á blaðsíðunni.

Horft til framtíðar

Við erum enn á ný stödd á tímum hugleiðinga og tækifæra. Það er hægt að leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir – hvort sem þau tengjast efnahag eða orkumálum, lýðheilsu eða umhverfi, og okkur ber skylda til þess gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. Við getum átt von á mesta árangrinum ef við horfumst í augu við það að enn vitum við afar lítið um náttúrulegt umhverfi okkar, fjölbreytileika þess og þau áhrif sem við höfum á það. Það er kominn tími til að við horfum aftur á umhverfi okkar með undrun og auðmýkt í hjarta.

Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Umhverfisstofnunar Evrópu um líffræðilegan fjölbreytileika: www.eea.europa.eu/themes/biodiversity

Í brennidepli: Loftslagsbreytingar og líffræðilegur fjölbreytileiki

Vistkerfi eru yfirleitt frekar lífseig kerfi. Engu að síður geta þau hrunið ef farið er yfir ákveðna þröskulda, sem nefndir eru „veltipunktar”. Þegar slíkt gerist geta kerfin tekið á sig aðskildar og margvíslegar myndir og þær breytingar geta haft umtalsverð áhrif á menn. Loftslagsbreytingar eru líklegar til þess að grafa undan vistkerfum sem gegna mikilvægu hlutverki í tengslum við hreint vatn og frjóan jarðveg, en það eru þættir sem lífsgæði fólks og efnahagur byggist á. Við vitum ekki hver full áhrif loftslagsbreytinga verða á líffræðilegan fjölbreytileika. Hitt vitum við þó að ef okkur á að takast að vernda umhverfi okkar verða aðgerðir okkar til þess að takast á við tap á líffræðilegum fjölbreytileika og til þess að takast á við loftslagsbreytingar að haldast í hendur. Vistkerfaþjónusta sem nú stuðlar að því að draga úr loftslagsbreytingum, eins og t.d. upptaka koltvísýrings úr andrúmsloftinu í jarðveg, sjó og skóga, er í alvarlegri hættu.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu þar sem lagt er mat á líffræðilegan fjölbreytileika í Evrópu hafa loftslagsbreytingar veruleg áhrif á þennan fjölbreytileika. Skýrslan ber titilinn „Árangur varðandi líffræðilegan fjölbreytileika með tilliti til markmiða fyrir árið 2010 ”(4).  Þar er lýst rannsókn á 122 algengum evrópskum fuglategundum.  Í skýrslunni kemur fram að 92 tegundir höfðu orðið fyrir neikvæðum áhrifum af völdum loftslagsbreytinga, en 30 höfðu orðið fyrir jákvæðum áhrifum. Þetta bendir til þess að búast megi við að loftslagsbreytingar muni valda miklum breytingum á líffræðilegum fjölbreytileika og vistkerfum í Evrópu.

Í skýrslunni kemur einnig fram að graslendisfiðrildum fer ört fækkandi, stofnar þeirra hafa minnkað um 60% frá árinu 1990 og engin merki eru um að dragi úr þessari fækkun. Helsta ástæðan sem liggur að baki þessari fækkun er talin vera breytingar á landnotkun í sveitum.  Ræktunaraðferðir- og nýtingararhættir í landbúnaði hafa breyst og sömuleiðis hefur það gerst að land sem áður hefur verið nýtt til hefðbundins búskapar er það ekki lengur. Þar sem meirihluti graslendis í Evrópu er þess eðlis að því þarf að viðhalda með ræktun eða búfjárbeit er afkoma fiðrilda einnig háð því að áhrifa manna gæti áfram.

1.       EEA, 2009, SEBI: http://www.eea.europa.eu/publications/progress-towards-the-european-2010-biodiversity-target

2.       http://ec.europa.eu/environment/nature/natura2000/db_gis/pdf/area_calc.pdf

3.       http://www.cbd.int/convention/articles.shtml?a=cbd-02

4.       EEA, 2009, SEBI: http://www.eea.europa.eu/publications/progress-towards-the-european-2010-biodiversity-target

Permalinks

Skjalaaðgerðir